Breytingar Guðsteinn er fluttur og AFF concept store kemur í staðinn.
Breytingar Guðsteinn er fluttur og AFF concept store kemur í staðinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það var ekki hægt að segja nei við þessu húsnæði. Þarna er mjög góður andi og þvílík fegurð,“ segir Sigríður Jónsdóttir, Systa, eigandi verslunarinnar AFF concept store. Systa hefur tryggt sér eftirsótt húsnæði þar sem Verslun Guðsteins…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það var ekki hægt að segja nei við þessu húsnæði. Þarna er mjög góður andi og þvílík fegurð,“ segir Sigríður Jónsdóttir, Systa, eigandi verslunarinnar AFF concept store.

Systa hefur tryggt sér eftirsótt húsnæði þar sem Verslun Guðsteins Eyjólfssonar var áður við Laugaveg 34 og mun opna þar verslun á næstu vikum. „Við erum aðeins að mála og gera klárt. Það þarf líka að þrífa og gera smá breytingar. Stefnan er að opna um miðjan apríl,“ segir Systa. AFF concept store hefur verið starfrækt frá árinu 2012. Síðustu þrjú árin hefur verslunin verið við Laugaveg 58 og notið vinsælda. Versluninni þar verður lokað um páskana til að aðstandendur geti einbeitt sér að flutningunum.

Versluninni er lýst sem lífsstílsverslun fyrir einstakar vörur víðs vegar úr heiminum. AFF er með umboð fyrir sænsku hönnunarfyrirtækin Affari og Olsson & Jensen á Íslandi en selur einnig danska hönnunarvöru frá Snowdrops Copenhagen og Cristina Lundsteen svo dæmi séu tekin.

Systa segir að árin þrjú við Laugaveg hafi verið góð og hún býst við að betra taki nú við. „Það er fullt af fólki við Laugaveginn, bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar. Enda er engin höfuðborg nema hún eigi fallega miðborg og við verðum að hlúa að henni.“