Í skotgröfunum Selenskí Úkraínuforseti kynnir sér hér ný varnarmannvirki Úkraínuhers í Súmí-héraði.
Í skotgröfunum Selenskí Úkraínuforseti kynnir sér hér ný varnarmannvirki Úkraínuhers í Súmí-héraði. — AFP/Forsetaembætti Úkraínu
Að minnsta kosti þrír féllu í árásum Rússa í austur- og suðurhluta Úkraínu í gær. Oleg Sinehúbov, héraðsstjóri Karkív-héraðs, sagði að einn hefði fallið og átján særst í loftárásum á Karkív-borg, og að fjögur börn væru á meðal hinna særðu

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Að minnsta kosti þrír féllu í árásum Rússa í austur- og suðurhluta Úkraínu í gær. Oleg Sinehúbov, héraðsstjóri Karkív-héraðs, sagði að einn hefði fallið og átján særst í loftárásum á Karkív-borg, og að fjögur börn væru á meðal hinna særðu. Íbúar borgarinnar hafa glímt við rafmagnsleysi síðustu daga eftir stórfellda árás Rússa á raforkuver vítt og breitt um Úkraínu í upphafi vikunnar.

Í Kerson-héraði lést 61 árs gömul kona í þorpinu Míkhaílívka þegar sjálfseyðingardróni lenti á heimili hennar. Þá lést 55 ára gamall karlmaður í stórskotahríð Rússa á borgina Níkopol í suðausturhluta landsins, en átta særðust í eldflaugaárás á borgina Míkolaív.

Rússar hafa bætt mjög í loftárásir sínar á Úkraínu undanfarna daga og skoraði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í gær á vesturveldin að flýta fyrir hergagnasendingum sínum til Úkraínu. Sagði hann þar skipta mestu máli að fá F-16-orrustuþotur og fleiri loftvarnakerfi. „Það er engin rökrétt útskýring á því hvers vegna Patriot-kerfið, sem nóg er til af um víða veröld, er ekki enn að verja himininn yfir Karkív og fleiri borgum,“ sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum.

Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði sömuleiðis að brýnt væri að fá fleiri loftvarnakerfi til Úkraínu, sér í lagi þar sem Rússar sendu nú mikið af eldflaugum sem færu með miklum hraða til skotmarka sinna og gæfu fólki lítinn tíma til þess að koma sér í skjól. Sagði Kúleba að loftvarnakerfi eins og Patriot-kerfið væru varnarvopn sem verðu mannslíf í stað þess að taka þau.

Undirbúa varnir í norðri

Selenskí kynnti sér í gær aðstæður í Súmí-héraði, en það er í norðausturhluta landsins, þar sem verið er að reisa nýjar víggirðingar til að verjast mögulegri sókn Rússa yfir landamærin. Sagðist Selenskí hafa skoðað skotgrafir og stjórn- og eftirlitsstöðvar á ferð sinni.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður allra herja Úkraínu, varaði við því í síðustu viku að Rússar væru nú að safna saman rúmlega 100.000 manna herliði, og að talið væri líklegt að því væri ætlað að hefja sóknaraðgerðir í sumar.

Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti í síðustu viku um myndun tveggja nýrra landherja með 14 herdeildum og allt að 16 stórfylkjum. Á þessi liðssafnaður að vera til reiðu fyrir lok þessa árs. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagðist hins vegar telja að um væri að ræða skipulagsbreytingar frekar en undirbúning fyrir frekari hernaðaraðgerðir Rússa.

Shoígú blés hins vegar í fyrradag á „orðróm“ þess efnis að rússnesk stjórnvöld hygðust brátt efna til stórfelldrar herkvaðningar. Sagði hann það vera „algjöra glópsku“ að halda slíku fram, og bætti við að Rússar hefðu nægan mannafla til þess að ná fram markmiðum sínum í Úkraínu.

Kenna enn Úkraínu um

María Sakharóva, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að það væri „ótrúlega erfitt“ að trúa því að Ríki íslams hefði getað staðið á bak við hryðjuverkið í Crocus City-tónleikahöllinni á föstudaginn var, en 140 eru nú látnir eftir árásina. Er þetta mesta mannfall eftir hryðjuverk í Rússland í 20 ár.

IS-K, eitt af útibúum Ríkis íslams, lýsti yfir ábyrgð sinni samdægurs á opinberum samfélagsmiðlum Ríkis íslams og hafa hryðjuverkasamtökin einnig birt myndir af hryðjuverkamönnunum sem framkvæmdu árásina og upptökur úr búkmyndavélum þeirra. Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar reynt að kenna Úkraínumönnum um, án þess að leggja fram nein sönnunargögn fyrir þeim fullyrðingum sínum.

Sakharóva sagði á blaðamannafundi sínum í gær að vesturveldin hefðu dregið fram Ríki íslams líkt og „ás úr erminni“ til þess að grunur félli ekki á Úkraínumenn.

Ummæli Sakharóvu féllu sama dag og Bloomberg-fréttastofan greindi frá því að menn í innsta hring Pútíns hefðu enga trú á því að Úkraína bæri nokkra ábyrgð á hryðjuverkinu.

Hafði Bloomberg eftir einum heimildarmanni sínum í Kreml að Pútín hefði verið viðstaddur fund, þar sem rússneskir embættismenn komust að þeirri niðurstöðu að engin tengsl væru á milli ódæðisins og Úkraínu, en að hann væri engu að síður staðráðinn í að reyna að nýta harmleikinn til þess að fá Rússa til að styðja frekari hernaðaraðgerðir í Úkraínu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson