Sólóplata Væntanleg plata Emilíönu verður sú fyrsta í tíu ár.
Sólóplata Væntanleg plata Emilíönu verður sú fyrsta í tíu ár.
„Ég hef unnið lengi úti með manni sem heitir Simon Byrt. Konan hans, Zoe, er mjög góð vinkona mín og ég er oft uppi í sófa hjá þeim þegar ég fer til Englands,“ sagði söngkonan og lagahöfundurinn Emilíana Torrini í Ísland vaknar um væntanlega plötu sína

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Ég hef unnið lengi úti með manni sem heitir Simon Byrt. Konan hans, Zoe, er mjög góð vinkona mín og ég er oft uppi í sófa hjá þeim þegar ég fer til Englands,“ sagði söngkonan og lagahöfundurinn Emilíana Torrini í Ísland vaknar um væntanlega plötu sína. Á plötunni segir hún sögu af elskendum einnar konu, Geraldine Flower. Platan verður fyrsta sólóplata Emilíönu í tíu ár.

„Þau sendu mig svo oft upp til móður Zoe, Miss Flower, sem var glæsileg og flott kona. Við drukkum kokteila og spjölluðum mikið. Því miður lést hún, ég fór til Bretlands að hjálpa Zoe með hluti og þá finnum við kassa af bréfum. Þá kemur ýmislegt í ljós. Konan fékk til dæmis níu bónorð en giftist aldrei og var einstæð móðir. Hún var rosaleg skutla,“ segir Emilíana og brosir.

Hvert lag einn karlmaður

Þær Zoe vildu vekja þessa merku konu aftur til lífsins á einhvern hátt. Þær hjálpuðust að og fóru í gegnum öll bréfin en tóku aðeins eitt í einu. „Einn daginn finnum við bréf þar sem náunginn sem skrifar bréfið til Miss Flower er að ímynda sér að hún sé vín og veltir fyrir sér hvernig vín hún væri. Ég spyr Zoe strax hvort ég megi fara inn í hljóðver og búa til lag, þannig byrjaði þetta,“ segir Emilíana og bætir við að í hvert skipti sem hún heimsótti England hafi verið farið í gegnum fleiri bréf.

„Hvert einasta lag er einn karlmaður, einn af þessum níu. Þetta var áhugaverð kona. Ég ætlaði bara að fara að skrifa ástarsögur en það var svo margt sem kom okkur á óvart. Þetta opnaði sig meira og meira. Við fundum það meira að segja út að maðurinn sem hún er lengst með, sálufélagi hennar, hún skilur hann eftir við altarið eftir að hún er búin að pína hann til að giftast sér. Hann var njósnari. Allt í einu þegar við erum komnar inn í söguna er margt furðulegt farið að gerast og það bendir allt til þess að hún, Miss Flower, hafi verið njósnari líka um einhvern tíma.“

Kona sem fórnaði engu

Emilíana fékk þó mikið listrænt frelsi til að gera plötuna að sinni. „Það eru ekki allir góðir pennar svo það þurfti að ýta undir allan undirtón. Það var til dæmis maður í Trínidad, Harold, sem var náinn vinur hennar, við fundum bréf frá honum sem var lítið spennandi en með því var kassetta sem hún hafði skrifað á „lagið mitt“.

Lagið Let's keep dancing er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu, Miss Flower, og er eini dúett plötunnar. Það þurfti að hafa mikið fyrir honum en hann er unninn úr upptöku sem fannst á kassettunni.

„Ég ákvað að lagið myndi fjalla um síðasta fund tveggja elskenda, síðasta dansinn, síðasta kvöldið. Simon fann leið til að setja hluta af söng og rödd hans inn í lagið og nú er hann mikilvægur hluti þess.“

Emilíana segir ferlið hafa hjálpað sér að koma sér út úr skelinni enn á ný. „Ég tengi rosalega djúpt við Miss Flower, við erum rosalega líkar. Hún lifði sínu lífi og þaðan fékk ég innblástur. Við fáum samt aldrei að vita hennar orð, hennar svör og það er pirrandi því maður er að ímynda sér það allt. Hún gjörsamlega neitaði að fara í einhvern kassa og fórnaði engu um hvernig hún lifði sínu lífi. Hún kom mér svolítið út úr skelinni aftur.“

Hún viðurkennir að það sé örlítill Leonard Cohen-bragur yfir nýja laginu og plötunni. „Ég held að það sé alltaf einhver Cohen-bragur á öllu sem ég geri. Í fyrsta lagi því ég elska hann og dýrka, hann var fyrsti maðurinn sem ég ætlaði að giftast. Ætli það sé ekki líka hljóðið á plötunni. Röddin í Cohen var alltaf eins og hann væri að syngja fyrir þig og ég vildi hafa þessa plötu þannig líka.“ Hún segir frá því að nú sé verið að vinna að bíómynd um Miss Flower og í kjölfarið taki við tónleikaferðalag um Evrópu.

Verða tónleikar hér heima? „Já, alltaf hérna heima,“ segir hún brosandi að lokum.