Hjónin Magnús og Guðrún í afmælisveislu sem haldin var á túninu í Eyjum í tilefni 75 ára afmælis Magnúsar.
Hjónin Magnús og Guðrún í afmælisveislu sem haldin var á túninu í Eyjum í tilefni 75 ára afmælis Magnúsar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Sæmundsson er fæddur þann 28. mars árið 1934 og uppalinn í Eyjum II í Kjósarhreppi. Magnús ólst upp hjá móður sinni, Láru í Eyjum, með afa sínum, Magnúsi Ólafssyni, og ömmu, Margréti Jónsdóttur, ásamt móðursystkinum sínum, Haraldi, Hans og Guðrúnu

Magnús Sæmundsson er fæddur þann 28. mars árið 1934 og uppalinn í Eyjum II í Kjósarhreppi.

Magnús ólst upp hjá móður sinni, Láru í Eyjum, með afa sínum, Magnúsi Ólafssyni, og ömmu, Margréti Jónsdóttur, ásamt móðursystkinum sínum, Haraldi, Hans og Guðrúnu. Einnig ólst frænka Magnúsar upp á heimilinu í Eyjum II frá unga aldri, Ólafía Ólafsdóttir (Lóa), samtíða Magnúsi.

Magnús sótti nám í farskóla í sinni heimasveit og fór svo til náms í Héraðsskólanum á Laugarvatni og lauk landsprófi frá Reykholti í Borgarfirði. Magnús ólst upp við hefðbundin sveitastörf að Eyjum II, var námsmaður góður og hafði hug á því að sækja sér frekara nám en skyldan kallaði.

Magnús og Guðrún Ólafía Tómasdóttir, eiginkona hans, bjuggu stóru búi í Eyjum með kýr, sauðfé, alifugla og hross og ráku þar myndarbú fyrst í félagi við Harald, móðurbróður Magnúsar, en tóku svo við öllu búinu við fráfall Haraldar. Þau bjuggu einnig félagsbúi um tíma með syni sínum Haraldi og Guðrúnu Ingvadóttur. Magnús var fljótur að tileinka sér nýjungar í búskapnum og efla þannig búið og búskapinn.

Magnús sinnti trúnaðarstörfum fyrir samfélag sitt. Hann var ungur kjörinn í stjórn Ungmennafélagsins Drengs, formaður húsráðs Félagsgarðs og síðar formaður umf. Drengs, sat í stjórn Búnaðarfélags Kjósarhrepps, lengst af sem gjaldkeri, og átti sæti í stjórn Mjólkursamlags Kjalarnesþings um árabil og gegndi þar einnig formennsku. Magnús var kjörinn í sveitarstjórn Kjósarhrepps árið 1966 og var oddviti Kjósarhrepps 1979-1990. Magnús var hreppstjóri Kjósarhrepps 1987-2004.

Magnús fylgdi Framsóknarflokknum að málum og var á framboðslistum flokksins fyrir alþingiskosningar á sínum tíma. Magnús átti einnig sæti í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að vera félagi í öðrum félögum svo sem Lionsklúbbunum Búa og Hestamannafélaginu Herði sem hann vann ýmis störf fyrir. Magnús söng á yngri árum með Karlakór Kjósverja.

Magnús var markglöggur með eindæmum og kunni flest mörk og var því oft réttastjóri og marklýsingarmaður á sínum búskaparárum. Hann hafði jafnframt forgöngu um mörg framfaramál fyrir Kjósarhrepp, barðist fyrir því að Kjósverjar fengu nútímasímatengingu og var svokallaður sveitasími aflagður í Kjós í hans tíð sem oddviti Kjósarhrepps. Jafnframt hafði hann forgöngu að jarðhitaleit í Kjós og naut við það leiðsagnar bróður síns, Kristján Sæmundssonar jarðfræðings. Á grunni þessara rannsókna er nú komin hitaveita um alla sveit. Jafnframt hafði hann forgöngu um að færa skólaakstur í hendur heimamanna og skapa þannig störf fyrir sveitunga sína.

Að Eyjum II var mannmargt heimili og áttu margir þar skjól og oft glatt á hjalla og tóku þau hjón ávallt á móti öllum með rausnarskap, gleði og hlýju. Magnús og Guðrún voru alltaf reiðubúin að veita öllum hjálparhönd, ekki síst þeim sem minna máttu sín og gefa þeim skjól og hlýju.

Magnús mun halda upp á afmælið sitt þegar nær dregur vori og sumri.

Fjölskylda

Magnús kvæntist árið 1964 Guðrúnu Ólafíu Tómasdóttur, f. 4.4. 1936, d. 2.9. 2017, bónda og húsfreyju frá Hamrahóli í Ásahreppi en hún var dóttir hjónanna Tómasar Þórðarsonar, f. 17.10. 1877, d. 13.10. 1957 bónda og Jórunnar Ólafsdóttur, f. 17.7. 1893, d. 14.3. 1985, húsfreyju í Hamrahóli í Ásahreppi, Rangarvallasýslu.

Guðrún Ólafía átti fyrir tvo drengi af fyrra hjónabandi, þá Tómas Kristin Sigurðsson framleiðslustjóra, f. 5.12. 1958, maki hans var Rut Friðfinnsdóttir sem er látin, og Kristján Sigurðsson bílstjóra, f. 22.4. 1961, ókvæntur og Magnús varð stjúpfaðir þeirra.

Guðrún og Magnús eignuðust saman fimm börn og eitt fósturbarn. Það eru þau 1) Ólafur Magnús framkvæmdastjóri, f. 27.8. 1964, maki hans er Sigrún Bjarnadóttir skólastjóri; 2) Haraldur leigubílstjóri, f. 23.5. 1967, maki hans er Guðrún Ingvadóttir matráður; 3) Jórunn lyfjatæknir, f. 1.5. 1969, maki hennar er Sigurður Kristjánsson fjármálastjóri; 4) Lára Guðrún þroskaþjálfi, f. 16.8. 1971, maki hennar er Sindri Valdimarsson læknir; 5) Sæmundur Steindór, f. 2.11. 1979, framkvæmdastjóri en fv. maki hans er Guðrún Sandholt gjaldkeri, og fósturdóttirin Sigurrós Nancy Webber, f. 13.10. 1980 skólaliði, maki hennar er Gunnar Gunnarsson afgreiðslumaður. Barnabörnin eru 22, barnabarnabörnin eru orðin 23 og tvö langalangafabörn.

Hálfsystkini Magnúsar samfeðra: Einar Sæmundsson, f. 29.10. 1919, d. 3.7. 2006, framkvæmdastjóri í Reykjavík; Elísabet Sæmundsdóttir, f. 13.7. 1921, d. 18.1. 1923, Kristján Sæmundsson, f. 9.3. 1936, jarðfræðingur í Reykjavík; Kolbeinn Sæmundsson, f. 12.3. 1938, d. 10.4. 2023, framhalds- og háskólakennari í Reykjavík, og Arnþrúður Sæmundsdóttir, f. 17.1. 1944, fv. forstöðumaður, búsett á Selfossi.

Foreldrar Magnúsar voru Lára Magnúsdóttir, f.10.3. 1896 d. 6.10. 1959, húsfreyja og bóndi í Eyjum II og Sæmundur Steindór Einarsson, f. 3.9. 1889, d. 25.5. 1948, kennari frá Litla-Hálsi í Grafningi.