Jóna Hlíf Listakonan við textaverk sitt þar sem eru íslensk orð yfir það að komast af.
Jóna Hlíf Listakonan við textaverk sitt þar sem eru íslensk orð yfir það að komast af. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir textaverk og skúlptúra á sýningunni Orðið í Neskirkju. Sýningin stendur til 23. júní. Verkin fela í sér úrval frá þremur sýningum sem Jóna Hlíf hefur haldið síðastliðin þrjú ár

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir textaverk og skúlptúra á sýningunni Orðið í Neskirkju. Sýningin stendur til 23. júní. Verkin fela í sér úrval frá þremur sýningum sem Jóna Hlíf hefur haldið síðastliðin þrjú ár.

„Þegar ég fékk boð um að sýna í Neskirkju kom titillinn fljótlega fram: Orðið. Það er annars vegar kirkjulega tengingin við Jóhannesarguðspjall og orðaleikur út frá sögninni að verða, þar sem ég er að sýna eldri verk. Eitthvað sem er þegar orðið.

Í myndlist er maður stöðugt að vinna að nýjum verkum en ég hugsaði að á þessari sýningu yrði áhugavert að sýna eldri verk aftur en þá í nýju samhengi. Í kirkju öðlast þau nýja merkingu og verða talsvert dramatískari.“

Sjálf tengist Jóna Hlíf þjóðkirkjunni en hún er fædd og uppalin undir Eyjafjöllum þar sem faðir hennar var prestur í rúmlega fjörutíu ár. „Ég er alin upp við það að fara í messur og er trúuð,“ segir hún. „En ég upplifði þessi verk ekki sem trúarleg, og geri það ekki enn þótt þau séu til sýnis í kirkju. Í raun er texti, tilgangur, birting og röðun orða samhengið þarna á milli og hefur í för með sér að verkin virka trúarleg.“

Vann upp úr annálum

Á sýningunni eru meðal annars þrjú stór textaverk úr áli. Þau eru öll unnin upp úr eða jafnvel fengin í heild sinni upp úr íslenskum annálum. Ein lýsingin úr annál er á þessa leið: „Það bága varir oft stutta stund en það blíða lengi“. Textinn er úr formála Björns Bjarnasonar um veðurfarslýsingar í Brandsstaðaannál. Önnur lýsing: „Jökulvetur hinn mikli – hafísar allt sumar“.

Jóna Hlíf sýndi verkin þrjú í Hofi á Akureyri á sýningunni Vetrarlogni. „Það er eitthvað við þessa aldagömlu annála og veðurfarslýsingarnar. Í hverri lýsingu er risavaxin mynd í svo fáum orðum. Öll verkin á þessari sýningu snerust um lýsingar, það sem sameinar myndlist og ritlist. Efni lýsinganna: Veðurfar er, ásamt með áhrifum textans á áhorfandann, hinn eiginlegi efniviður sýningarinnar. Með því eru saga og tungumálið einnig orðin þátttakandi í verkinu. Verkið snýst einnig um fegurðarmat og skynjun. Það er til svo mikið af áhugaverðum og fallegum orðum yfir veðurfar á íslensku. Sum orðin notum við orðið ekki dags daglega og eiga jafnvel á hættu að glatast. Ég nota myndlistina meðvitað sem miðil til að hlúa að þessum orðum.“

Á sýningunni eru einnig fjögur minni textaverk sem voru sýnd í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 2023. Lýsingin í einu þeirra, „Látlaus hafátt með umhleypingum og regni“, er unnin upp úr grein um andlát Guðmundar Skarphéðinssonar verkalýðsforingja á Siglufirði. Aðrar lýsingar eru skapaðar út frá myndum eða ímynduðum atburðum tengdum Siglufirði. Þær bera með sér einfaldar myndir af stórum atburðum eða umbreytingu tímans: „Fyrstu sólardagar eftir flóðið“ og „Laufblöð meitluð í stein“.

„Mér finnst áhugavert hvernig fá orð geta skapað stórar lýsingar – miklar myndir. Báðar þessar myndir eru unnar út frá Siglufirði, jarðfræðilegri sögu hans eða viðburðum úr sögu hans undanfarnar aldir. Það hvernig firðir myndast er til dæmis innblástur. Firðir myndast þegar jöklar bráðna, grjótið er sorfið yfir lengri tíma alla leið niður í sjó og endar svo sem sandkorn,“ segir Jóna Hlíf en í öllum verkunum er að finna örsmá sandkorn.

Að komast af

Síðasta verkið eru blá pappírsverk sem hefur að geyma safn yfir íslensk orð yfir það að komast af. Verkin voru á sínum tíma sýnd í Berg Contemporary. „Eitt af sérkennum tungumála er hvaða orð eru illþýðanleg eða óþýðanleg, þótt þau kunni að vera skiljanleg fólki sem ekki talar málið. Annað sérkenni er hvar fjölbreytni orða í tungumál liggur, til dæmis sérstök heiti eða nöfn yfir verkfæri eða mögulega samheiti yfir tiltekin fyrirbæri eða gerðir. Á íslensku eigum við til dæmis þrettán orð sem lýsa því að komast af eða lifa af. Það er enn fjölbreytilegri orðaforði yfir það að deyja. En bara örfá orð yfir það að lifa, hvað þá að lifa góðu lífi. Þetta er á sinn hátt þjóðarlýsing. Það má svo túlka það á sinn hátt hvað þetta birtir. Kannski er ég að minna á rætur, úr hvaða jarðvegi við erum sprottin. Í kirkjunni öðlast þau skilaboð síðan nýtt samhengi,“ segir hún.

Orðið er efniviður

Í glerborði í sýningarsalnum er safn muna sem saman er ætlað að vekja tilfinningu, nokkurs konar skúlptúrar, þar á meðal mosi, fjögurra laufa smárar og steingervingar. „Fjölskylda mannsins míns býr á Kristnesi fyrir norðan í Eyjafirði. Eitt sumarið fann hann steingerving í fjallgöngu þar. Mig hafði lengi langað til að nota þá með einhverjum hætti á sýningu. Ég hef alltaf unnið mikið með tímann í verkunum mínum og fátt fær mann til að skynja betur tímaleysið í núinu en andspænis steingervingi. Allt í einu heldur maður á laufblaði sem á mörg þúsund ára tímabili er orðið að steini,“ segir Jóna Hlíf.

„Af því að ég notast mikið við texta í verkum mínum má segja að ég fjalli á vissan hátt um að tungumálið er sérstakt. Að við eigum að passa upp á og varðveita íslenskuna. Kannski má segja að orðið sé efniviðurinn minn. Fólk hefur komið á sýningu hjá mér, orðið hissa og spurt: Hvar er formið, litirnir og þrívíddin. Svarið við því er að orðið er myndin. Orðin skapa þrívídd, liti og form.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir