1963 Leiðtogi Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, Níkíta Krúsjoff, ásamt kúbverska leiðtoganum Fidel Castro.
1963 Leiðtogi Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, Níkíta Krúsjoff, ásamt kúbverska leiðtoganum Fidel Castro. — AFP/Files-Tass
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sagnfræði Kúbudeilan 1962 ★★★★· Eftir eftir Max Hastings. Magnús Þór Hafsteinsson þýðir. Ugla, 2023. Innb., 559 bls., ljósmyndir, kort og skrár.

Bækur

Björn Bjarnason

Bókin heitir á frummálinu Abyss. The Cuban Missile Crisis 1962. Enska orðið abyss er meðal annars íslenskað með orðinu ginnungagap sem er samkvæmt heimsmynd norrænnar goðafræði gapið mikla eða frumrýmið fyrir tilurð heimsins (raunar er ginnungagap einnig notað í ensku máli). Með því að nota þetta magnþrungna orð í titli bókar sinnar dregur Max Hastings athygli að þeim kjarna hennar að hefðu menn misstigið sig í Kúbudeilunni árið 1962 hefði heimurinn allur horfið ofan í þetta mikla gap í gjöreyðingarstríði með kjarnorkuvopnum.

Fyrstu almannavarnalögin voru sett hér á landi árið 1962. Við kynningu á þeim var ekki síst lögð áhersla á almennan viðbúnað kæmi til kjarnorkustyrjaldar. Opinberar byggingar sem voru reistar um þetta leyti voru hannaðar með það fyrir augum að þær gætu nýst sem kjarnorkubyrgi og má til dæmis nefna hús Menntaskólans við Hamrahlíð til marks um það.

Bókin Kúbudeilan 1962 kom út árið 2022 þegar 60 ár voru liðin frá þessum miklu örlagaatburðum. Nú þegar hún kemur út í íslenskri þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er það sama veturinn og kvikmyndin Oppenheimer slær í gegn og fær hver verðlaunin eftir önnur. Í myndinni má kynnast sögunni af því þegar Bandaríkjamenn réðust í að smíða fyrstu kjarnorkusprengjuna en Robert Oppenheimer er kallaður faðir hennar.

Í Kúbudeilunni gerði Níkíta Krúsjoff, leiðtogi Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, sér leik að því að færa heiminn fram á kjarnorkustríðsbrúnina, að ginnungagapinu, með því að senda eldflaugar og kjarnaodda til Kúbu. Hann veðjaði á að geta komið árásareldflaugum fyrir á Kúbu án þess að Bandaríkjamenn eða aðrir yrðu þess varir, síðan gæti hann komið öllum heiminum á óvart „og fengið jörðina til að nötra með því að tilkynna þetta hjá Sameinuðu þjóðunum í nóvember [1962], og það gæti breytt jafnvæginu í kalda stríðinu“ (322).

Þetta er þriðja bókin sem Magnús Þór Hafsteinsson þýðir á íslensku eftir Max Hastings til útgáfu hjá Uglu, hinar tvær eru Vítislogar – Heimur í stríði 1939-1945 (útg. 2021) og Kóreustríðið 1950-1953 (útg. 2022). Fyrri bækurnar tvær snúast að meginefni um hernað og stríðsátök.

Í bókinni um Kúbudeiluna vitnar Max Hastings oftar en einu sinni til orða sem Robert McNamara, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lét falla á maraþonfundum æðstu manna Bandaríkjanna með John F. Kennedy forseta í Hvíta húsinu í október 1962. McNamara sagði að þessi deila væri stjórnmálaleg en ekki hernaðarleg.

Að íslenska diplómatískan texta um herfræðileg kjarnorkuefni þar sem annar aðilinn, Krúsjoff, beitir auk þess lygum er oft flóknara en að segja frá og lýsa hernaði þótt íslenskan sé ekki alltaf auðveld viðureignar á því sviði. Stundum er textinn tyrfinn.

Við þýðinguna er ekki farin sú leið að umrita rússnesk mannanöfn eftir íslenskum reglum, þótt nafn Krúsjoffs sé skrifað á þann hátt sem hér er gert. Á einum stað er McNamara ranglega sagður utanríkisráðherra (357). Enska orðið crisis er íslenskað sem kreppa, krísa eða hættuástand. Kreppa nær því ekki vel sem þarna er um að ræða.

Aðfinnslur af þessu tagi mega sín lítils þegar litið er til ítarlegs textans í heild með ljósmyndum og skrám um heimildir og nöfn. Höfundur lauk við verkið árið 2022 eftir að Vladimir Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu af engu tilefni. Það var einnig að tilefnislausu síðsumars árið 1982 sem Krúsjoff stofnaði til Kúbudeilunnar. Rússneskir valdsmenn ráða ekki nú frekar en fyrri daginn við þörfina á að ögra Bandaríkjunum í gegnum milliliði.

Í upphafi bókarinnar er sagt frá illa ígrunduðum og misheppnuðum tilraunum til að ná Kúbu úr höndum Castros og kommúnistanna. Allt var það brölt niðurlægjandi fyrir Bandaríkjamenn og leiddi til þess að John F. Kennedy og bróðir hans Robert dómsmálaráðherra fyrirlitu Castro en yfirmenn Bandaríkjahers iðuðu í skinninu og biðu færis til að geta sýnt honum í tvo heima.

Anastas Mikoyan gekk einna næst Krúsjoff að völdum. Hann var sendur í „könnunarferð“ til Kúbu í febrúar 1960. Lýsingin á móttökunum hjá Castro og mönnum hans er kátleg. Castro heillaði hins vegar Mikoyan með því að lýsa sér sem „skápakomma“ frá námsárum sínum. Castro þurfti á stórveldi að halda vegna vinslita við Bandaríkin. Mikoyan sneri til Moskvu með þann boðskap að Castro væri „ekta byltingarmaður“, alveg eins og Kremlverjar (173).

Sovétmenn gerðu viðskiptasamning við Kúbu og björguðu með því gjaldþrota þjóð. Síðan leiddi eitt af öðru. Þar til upp úr sauð gagnvart Krúsjoff þegar Castro krafðist þess að sovéskum kjarnorkusprengjum yrði skotið á Bandaríkin sér til varnar. „Í því augnamiði sýndi hann algert skeytingarleysi gagnvart kjarnorkustríði sem var ekki sæmandi nokkurri manneskju …“ (406).

Myndin af Krúsjoff er ekki geðþekk. Hann fer sínu fram með bægslagangi sem einkennist af menntunarleysi og óbilgirninni í æðstu valdastöðum innan Kremlar. Hann vill annars vegar skipa sér kjarnorkuvopnasess á alþjóðavettvangi við hlið Bandaríkjaforseta og hins vegar sýna samflokksmönnum sínum á heimavelli að hann sé karl í krapinu. Vopnin snúast í höndunum á honum og Kennedy aðstoðar hann að lokum við að bjarga andlitinu.

John F. Kennedy er hetja sögunnar. „Hann setti fram markvissa áætlun sem sýndi festu hans og bandarísku þjóðarinnar, en jafnframt var öllu hafnað sem hefði getað leitt til tortímingar jarðar.“ Hann hafði einstæðan hæfileika til að leggja við hlustir og þoka mönnum til skýrra og skynsamlegra ákvarðana á fundunum í Hvíta húsinu. Hann hafði óskir hersins um stríð á hendur Castro að engu og nánast frá byrjun ákvað hann að semja við Sovétmenn. Það var þó ekki kostnaðarlaust fyrir hann að ná því ófrávíkjanlega markmiði sínu að tryggja brottflutning sovésku eldflauganna frá Kúbu (485).

Í samkomulaginu fólst meðal annars að Bandaríkjamenn myndu ekki leitast við að bola Castro frá völdum. Stjórnarhættir hafa lítið breyst á Kúbu frá því að harðstjórn kommúnista var innleidd. Þar er nú fátæktar- og spillingarsamfélag.

Gífurlegan fróðleik er að finna í þessari bók Hastings. Öðrum þræði lýsir hann framvindu og átakamálum kalda stríðsins með kjarnavopnin og ólíkar kenningar um gildi þeirra sem leiðarhnoð. Þær vangaveltur eiga brýnt erindi við samtímann. Á dögunum veifaði Pútin enn og aftur rússnesku kjarnavopnunum.

Vegna þess að sovéska stjórnmálaráðið gat ekki treyst Krúsjoff var honum ýtt til hliðar árið 1964. Tök Pútins á rússneska valdakerfinu eru miklu meiri en Krúsjoffs á sínum tíma. Að hann nái kjöri í fimmta sinn sem forseti þrátt fyrir að fórna mörg hundruð þúsund manns í tilefnislausu stríði og geti setið til 2030 sannar það best.

Í Kúbudeilunni 1962 er dregin athygli að því að kjarnavopnin hafa ekki aðeins fælingarmátt gegn ytri andstæðingi heldur eru þau hemill inn á við á þann sem ræður yfir þeim. Ákvörðunin um að opna ginnungagapið er svo ógnvænleg að jafnvel forhertustu illmenni hika þegar á hólminn er komið.