50 ára Benedikt sleit barnsskónum á Hvanneyri og í Borgarnesi áður en hann flutti 14 ára með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðið þar sem hann hefur búið síðan. „Það var gaman að alast upp í Borgarfirðinum þar sem sveitasælan og skólaþorpin mættust…

50 ára Benedikt sleit barnsskónum á Hvanneyri og í Borgarnesi áður en hann flutti 14 ára með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðið þar sem hann hefur búið síðan. „Það var gaman að alast upp í Borgarfirðinum þar sem sveitasælan og skólaþorpin mættust með lifandi hætti svo úr varð öflugt íþrótta- og menningar­líf. Það var því mikil breyting að flytja til Reykjavíkur á fermingar­árinu og fara í Hlíðaskóla og skipta úr Skallagrími yfir í Val. En það gekk bara ágætlega og æfði ég handbolta, körfubolta og fótbolta með Val fram á menntaskólaárin.“ Eftir Hlíðaskóla tók við Verzlunarskólinn og svo verkfræðideild HÍ þaðan sem hann útskrifaðist með próf í véla- og iðnaðarverkfræði árið 1998. „Í ársbyrjun 1998 er Fjárfestingarbanki atvinnulífsins stofnaður og mikil gerjun á fjármálamarkaði. Stór hluti af útskriftarbekknum mínum réð sig til vinnu hjá FBA, Kaupþingi og fleiri fjármálafyrirtækjum og þannig endaði ég sem bankamaður hjá FBA og hef verið að fást við það síðan.“

Benedikt starfaði lengst hjá Straumi áður en hann fór að vinna fyrir stjórnvöld seint á árinu 2013 í að losa um fjármagnshöft sem lauk með stöðugleikasamningum við slitabúin. „Þetta var mjög skemmtilegur tími þar sem maður kynntist stjórnsýslunni ansi vel. Þegar þessu verkefni lauk var ég ekki alveg viss um hvað ég ætti að gera næst, en konan í lífi mínu, sem ég var svo heppinn að kynnast árið 1996, hvatti mig og studdi í að sækja um starf bankastjóra Arion banka árið 2019. Þegar ég er ekki í vinnunni þá reyni ég að njóta samverustunda með fjölskyldu og vinum. Nýleg áhugamál eru að spila tennis og golf en fyrstu veiðistöngina fékk ég í þrítugsafmælisgjöf og smitaðist strax.“


Fjölskylda Eiginkona Benedikts er Ragnheiður Ásta Guðnadóttir, f. 1973. Börn þeirra eru Jónína Marín, f. 2000, Hildigunnur Ýr, f. 2003, Hafþór Andri, f. 2006, og Arna Þórey, f. 2008. Foreldrar Benedikts: Gísli Karlsson, f. 1940, og Ágústa Ingibjörg Hólm, f. 1943, d. 2015.