Jón Lárus Hólm Stefánsson fæddist 21. desember 1945. Hann lést 12. mars 2024.

Útför hans fór fram 27. mars 2024.

Afi Jón, eins og ég kallaði hann ávallt, var einstaklega ljúfur og góður afi. Hann var alltaf flottur í tauinu, í mjög fallegum jakkafötum, virðulegur og snyrtilegur til fara. Hann var mikill húmoristi og átti það til að vera svolítið stríðinn, en hafði á sama tíma svo þægilega nærveru. Afi var gífurlegur viskubrunnur þegar kom að allskyns hlutum. Maður gat alltaf spurt afa út í hitt og þetta og hvers vegna hlutirnir voru gerðir á ákveðinn hátt – hann virtist alltaf vera með réttu svörin og gat því frætt mann um allt milli himins og jarðar. Hann var mjög handlaginn og úrræðagóður maður, hann gat stokkið í hvaða verkefni sem er og hafði getu og hug til að klára þau. Hann kenndi mér því ansi margt og á ég kunnáttu mína og vitneskju í ýmsum greinum honum að þakka, suma vitneskju er nefnilega ekki alltaf að finna í skólabókum. Afi hafði mikinn áhuga á íþróttum, sérstaklega fótbolta og var mikill Arsenal-maður. Hann smitaði mig svo sannarlega af ást sinni á Arsenal, og sá til þess að ég valdi rétt. Afi hjálpaði mér að finna minn fyrsta bíl, hann sá auglýsingu í Bændablaðinu og hann og amma keyrðu með mig alla leið á Mývatn til þess að sækja bílinn. Svona var afi, hlutirnir voru ekkert að vefjast fyrir honum og hann var alltaf tilbúinn að gera allt fyrir mann.

Eftir að við fjölskyldan fluttum á Gil, skammt frá Gljúfri, þá litast sumrin í barnæskunni að miklu leyti af því að aðstoða ömmu og afa við allskyns verkefni í sveitinni, sem ég hafði gaman af og lærði mikið af. Afi var mjög gjafmildur og þegar maður var að stússast eitthvað með afa þá voru ansi góðar líkur á að dagurinn endaði á rúnti í næstu sjoppu og þá fékk maður nammi að eigin vali. Það var alltaf nóg um að vera á Gljúfri hjá ömmu og afa – enda ráku þau ferðaþjónustu, með búskap, gríðarlega mikla og myndarlega skógrækt, auk þess að hafa vel við haldið bæjarstæði og hugsa um garðinn í kringum húsið á Gljúfri, sem var einn sá snyrtilegasti og fallegasti sem ég hef augum mínum litið. Þrátt fyrir annríki og fjölmörg verkefni var samt sem áður alltaf nægur tími fyrir fjölskylduna og eyddu amma og afi mjög miklum tíma með okkur barnabörnunum. Ég er svo þakklátur fyrir allar stundirnar sem ég átti með afa og ömmu, sérstaklega á uppeldisárunum. Allar utanlandsferðirnar til Spánar og samverustundirnar saman á Gljúfri og Gili.

Nú á seinni árum þótti mér svo gríðarlega vænt um hvað afi var spenntur að fá fyrsta barnabarnabarnið og hvað hann tók vel á móti Hugin Leó þegar hann kom í heiminn. Það var eins og að gægjast aftur í barnæskuna að sjá hvað hann hafði alltaf gaman af börnum og var góður við þau. Ég hefði gjarnan viljað hafa afa lengur hjá okkur og að Huginn Leó hefði fengið tækifæri til að kynnast honum betur. Hvíl í friði afi minn, ég er þakklátur fyrir allar minningarnar sem við eigum saman, og verð alla tíð.

Magnús Baldvin Stefánsson, Ástrós Guðjónsdóttir og Huginn Leó Magnússon.

Elsku afi, takk fyrir að vera besti afi í heimi, það var svo gaman að fá að vera með þér á Spáni. Þá spiluðum við saman, fórum saman í sund, við fórum saman út að borða og við gerðum margt fleira. Það voru líka svo skemmtileg jólaboðin hjá þér og ömmu á afmælinu þínu, þegar við skárum út laufabrauð og fórum í bílferð á Róskunni og náðum í jólatré. Svo þegar ég fékk að vera hjá þér og ömmu og gista. Þegar ég fékk að koma með þér í fjósið og gefa öllum dýrunum að borða. Svo horfðum við á margt skemmtilegt í sjónvarpinu saman eins og dýralífsþætti. Ég á óteljandi góðar og skemmtilegar minningar um þig.

Ég sakna þín svo og ég vona að þú sért kominn á góðan stað.

Þín

Hildur María.

Í dag minnumst við elsku afa okkar. Hann var einstakur maður og yndislegur afi. Við munum sakna nærveru hans, stríðninnar og hlátursins. Hann gaf okkur öllum fyndin gælunöfn og jafnvel líka vinum okkar. Hann hafði alltaf áhuga á öllu sem við vorum að gera og hann fylgdist vel með hvað var í gangi í lífi okkar. Hann spurði reglulega hvernig gengi í tónlistarnáminu okkar, trommunum, hljómsveitinni og söngnum og það var frábært að fá að syngja með honum í veislum.

Hann var mjög gjafmildur og hafði gaman af því að gleðja okkur með flottum gjöfum bæði hér heima og í Spánarferðunum. Það var alltaf gott að leita til afa til að fá auka ís, nammi eða pening í leiktæki.

Við vorum svo heppin að búa nálægt ömmu og afa og fá að kynnast þeim svona vel, kíkja við og fá mjólkurglas og pönnukökur og spjalla. Að hjálpa til í búskapnum, sitja í traktornum og fara í fjárhúsin og gefa með afa á aðfangadag eru góðar minningar sem við geymum í hjörtum okkar.

Minningarnar lifa og við erum innilega þakklát fyrir allar góðu stundirnar gegnum árin. Við elskum þig.

Þín

Signý Ólöf og
Stefán Gunngeir.

Það er hvers manns gæfa að vera umkringdur góðu og vönduðu fólki, þá sérstaklega á æskuárunum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fæðast inn í þennan heim sem barnabarn Jóns Hólm og Rósu á Gljúfri. Sem barn varði ég miklum tíma á Gljúfri hjá ömmu og afa og er ég því í dag ríkur af óteljandi minningum með þeim sem fylla hjarta mitt af gleði, þakklæti og ást.

Ég var svo heppinn að fá að alast upp í sveitinni og geta alltaf hlaupið upp á Gljúfur til ömmu og afa. Í sveitinni varði ég óteljandi stundum með afa, hvort sem það var úti á túni í girðingarvinnu, í hesthúsinu að moka skít, í reiðtúrum, í fjárhúsunum eða bara að sitja hjá honum í traktornum að spjalla um daginn og veginn. Þessar samverustundir okkar afa skilja ekki bara eftir dýrmætar minningar heldur einnig ýmsa þekkingu en afi var mjög duglegur að kenna mér ýmis handtök og deila með mér allskyns visku um sveitina ásamt öðrum heilráðum um lífið.

Afi var einstakur maður, honum var mjög annt um fólkið í kringum sig og sérstaklega fjölskylduna. Hann var virkilega góður afi fyrir margar sakir. Hann var skemmtilegur og það var aldrei langt í húmorinn og stríðnina. Á sama tíma var hann mjög hlýr og góður við okkur barnabörnin og vildi alltaf allt fyrir okkur gera. Mér eru sérstaklega minnisstæðar minningar af mörgum utanlandsferðum þegar hann lét oft eftir okkur hluti sem foreldrarnir voru búnir að banna, eins og að gefa okkur pening til að fara í leiktæki eða að kaupa enn einn ísinn. Afi fylgdist ávallt grannt með því sem fram fór í lífi okkar barnabarnanna og var alltaf með á hreinu hvernig síðasti keppnisleikur hjá manni fór eða hvernig manni gengi í skóla eða lífinu almennt.

Afi hefur alltaf verið mér mikil fyrirmynd, alveg frá því að ég horfði á hann sem smápolli ríðandi á Þokka sínum fram til þess að horfa á hvernig hann tókst á við veikindin undir lokin. Afi lá sjaldan á skoðunum sínum, hann var staðfastur, kom alltaf vel fyrir, sat aldrei auðum höndum og framkvæmdi það sem hann ætlaði sér. Allt eru þetta mannkostir sem gerðu hann að þessari stóru fyrirmynd í mínu lífi. Það er og mun alltaf vera mér sannur heiður að vera alnafni hans.

Nú þegar að kveðjustund er komið, hugsa ég hve ótrúlega góður afi hann var, hversu mikið hann gaf af sér og hversu vænt honum þótti um okkur fjölskylduna. Hann náði að skapa margar góðar minningar og mynda sterk tengsl við fólkið sitt. Það er erfitt að koma því í orð hve þakklátur ég er fyrir elsku afa og allar minningarnar sem eftir sitja í huga mér. Það er afar sárt að kveðja elsku afa. Við hefðum viljað hafa hann lengur hjá okkur en minningin um einstakan mann mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Afi sagði við mig þegar við kvöddumst: „Það er gott að eiga góðan vin á himnum“ og er ég sannfærður um að hann fylgist grannt með af himnum ofan og verði mér við hlið þar til við hittumst aftur þegar minn tími kemur.

Hvíl í friði, elsku besti afi minn.

Þinn nafni,

Jón Lárus Hólm
Stefánsson.

Elsku hjartans afi minn.

Þvílík lífsins lukka að hafa átt þig sem afa. Hlutirnir sem þú kenndir mér eru ótalmargir, minningarnar eru ennþá fleiri. Allt frá því þegar þú tókst utan um mig með þínum heita faðmi ef eitthvað bjátaði á og söngst fyrir mig yfir í öll prakkarastrikin sem við gerðum saman.

Í mínum huga var afi maður sem einkenndist af umhyggju, vinnuseiglu, lífsánægju og hlýju, ofan á það allt saman var hann besti afi sem til er.

Utanlandsferðirnar sem við fórum saman í standa mér ofarlega í huga, en þar áttum við margar góðar stundir saman. En afi var maður sem hafði sérstakt lag á því að lífga upp á alla staði sem hann labbaði inn á, að því sögðu var alltaf gaman að eyða tíma með afa. Afi lagði mikið upp úr því að öll fjölskyldan næði vel saman og stæði saman, enda var hann sannkallaður ættarhöfðingi. Að eiga þig sem afa er nokkuð sem ég mun alltaf vera stolt af, enda á ég ykkur ömmu svo ótal margt að þakka.

Söknuðurinn er óbærilegur en ég veit að þú ert ennþá með okkur og leiðir okkur í gegnum lífið, minning þín lifir með okkur.

Ég veit þú vakir yfir okkur, sennilega ríðandi um á honum Þokka þínum, rauðblesóttum, vökrum og viljugum gæðingi frá Gljúfri. Sjáumst síðar elsku afi minn, eins og þú sagðir sjálfur við mig: „Það er partí þarna uppi.“

Þín

Rósa Kristín
Jóhannesdóttir.

Það er margs að minnast þegar ég sest niður og skrifa minningargrein um þig bróðir minn; þú fæddur 21. desember 1945 en ég 14. desember 1946 svo við vorum alltaf jafngömul í eina viku á ári. Við vorum alin upp sem tvíburar, mamma saumaði allt eins á okkur. Eitt sinn saumaði hún stuttbuxur með axlaböndum á þig en á mig fellt pils með böndum og bæði hvítar skyrtur. Löbbuðum við í skrúðgöngu niður Skólavörðustíginn niður á torg.

Þegar við vorum fimm og sex ára áttum við heima í Borgarnesi, í hornhúsinu hjá hótelinu sem pabbi var að byggja. Þá smíðaði pabbi magasleða fyrir okkur, þú fékkst bláan, ég rauðan, og mikið var rennt niður brekkuna.

Hvíldu í friði, kæri bróðir, bið að heilsa.

Þín systir,

Nína Áslaug.

Það er 5. maí 1963. Síminn hringir á heimavistinni og röddin biður um Jón Hólm. „Þú ert búinn að eignast lítinn bróður,“ segir mamma. Ég var kominn í heiminn, örverpið, næstum 18 árum yngri og þú fluttur að heiman. Við ólumst því ekki upp saman, bjuggum aldrei undir sama þaki og því varstu mér sem eins konar sambland bróður og föður, frekar en venjulegur stóri bróðir. Alltaf til staðar, klókur og gafst ávallt góðar ráðleggingar. Þú sást til þess á erfiðum tímum í fjölskyldunni að mitt félagslega umhverfi og möguleikar til náms héldust óbreytt, og þú hvattir mig til náms í læknisfræði. Það má þannig með sanni segja að þú hafir haft mikil áhrif á hvaða leið ég valdi í lífinu.

En nú ertu farinn, kvaddir þetta líf sáttur enda máttirðu vera það með allt það sem þú hafðir afrekað. Það myndi fylla aukablað Moggans ef ég færi að telja það allt upp.

Þú valdir alltaf það besta, það næstbesta var aldrei nógu gott. Þegar þið Hvanneyrarstrákarnir fóruð að gera hosur ykkar grænar fyrir yngismeyjum í Húsmæðraskólanum á Varmalandi voru það ekki nemendurnir sem heilluðu þig mest heldur handavinnukennarinn, hún Rósa. Sennilega hefur þú verið með gat á sokk eftir stórutá, sem þurfti að laga. Kann ekki söguna, en með einhverjum töfrum tókst þér að ná í hana. „Aðeins það besta,“ sagðir þú, þegar ég spurði hvort þú hefðir ekki haft neinn áhuga á nemendunum. Hjónaband ykkar einkenndist af gagnkvæmri virðingu, var farsælt, og þið Rósa eignuðust föngulegan hóp afkomenda sem þú getur verið stoltur af.

Þú varst hæfileikaríkur bróðir, hafðir fallega söngrödd, hreppa-tenór eins og þeir gerast bestir, hefðir örugglega sómt þér vel í óperuhúsum ef þú hefðir fengið tækifæri. Eins varstu líka býsna góður í fótbolta, eiginlega mjög góður, betri en flestir jafnaldrar þínir sem náðu langt í boltanum. Ríkharður Jónsson reyndi að plata þig í Skagaliðið en þú lést þér nægja að leika þér í sveitabolta í Staðarsveit og með ungmennafélaginu Ólafi Pá í Búðardal, í stað þess að stjórna leik ÍA á Skipaskaga. Eins var hestamennska þér hugleikin, hrossarækt, þjálfun og tamningar, nokkuð sem afkomendur þínir hafa erft.

Þú sagðir mér á dánarbeðinum að hugur þinn hefði stefnt í aðra átt og þú ætlaðir alltaf að verða prestur, en örlögin ollu því að þú endaðir í Bændaskólanum á Hvanneyri. Ég efa ekki að þú hefðir orðið góður prestur.

Það er 12. mars 2024. Síminn hringir og mér er tjáð andlát þitt. Hringnum er lokað, líf mitt með stóra bróður er á enda. Sjáumst síðar,

því það eru til

þessir tveir alheimar –

híbýli lifandi og þeirra dánu

tveir alheimar sem,

þrátt fyrir óskiljanlegu fjarlægðina á milli þeirra,

tengjast órjúfanlega

sem er fallegt, það er svo fallegt

að það huggar okkur

(Jón Kalman Stefánsson)

Bergur V. Stefánsson.

Jón Hólm Stefánsson var lífsglaður maður og kunni að njóta þess sem lífið færði honum og honum vannst vel úr því flestu. Hann var starfsglaður og framtakssamur og naut þess að takast á við margvísleg verkefni og að skapa sér ný. Honum óx fátt í augum, hann kom miklu í verk, ævistarfið var fjölbreytt.

Jón Hólm var skemmtilega samsettur maður. Hann var einstaklingshyggjumaður, en jafnframt félagslyndur í betra lagi. Hann hafði skoðanir á samfélagsmálum frá unga aldri, sagðist hafa verið kommúnisti fram að fermingu, en eftir það framsóknarmaður, alveg þangað til hann snerist og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Hann var í eðli sínu framfarasinnaður, nýjungagjarn, en líka íhaldssamur á góðar hefðir og gildi. Hann valdist gjarnan til forustu og vann að öllum málum af kappi og heilindum. Hann vildi leggja sitt af mörkum til að bæta og efla sitt nærumhverfi og samfélag til að fólki liði vel. Jón var ötull en sanngjarn málafylgjumaður, ákveðinn og hreinskiptinn og vildi ljúka hverju verki með sóma.

Hann var mikill fjölskyldufaðir, sem hélt vel utan um sitt fólk og naut þeirrar gæfu að eiga Rósu Finnsdóttur að lífsförunaut. Þau voru samhent og samhuga í öllu lífi og starfi.

Jón Hólm var ræktunarmaður lands og lýðs, menningarmaður og trúaður kirkjunnar maður. Hann treysti handleiðslu forsjónarinnar í lífinu og farnaðist vel. Kotstrandarkirkja var honum afar kær, og þeim Rósu báðum. Jón var lengi í sóknarnefnd og formaður hennar síðustu árin og Rósa hafði á sínum tíma forustu um að kvenfélagið Bergþóra tók að sér að manna meðhjálparastarfið og hefur gegnt því sjálf um langa hríð. Það er ein af guðsgjöfunum að hafa fengið að kynnast þeim, eiga þau að vinum og eiga við þau samstarf, sem aldrei bar skugga á.

„Sestu þar að, sem söngur er í rönnum, því söngur er ekki til hjá vondum mönnum“ er haft eftir Marteini Lúter. Tónlist var mikið áhugamál Jóns og hann hafði mikla trú á mann- og samfélagsbætandi áhrifum tónlistar og söngs. Hann hafði bjarta og fallega tenórrödd, söng með kórum, og gaf út geisladisk með einsöngslögum. Kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandarsókna naut krafta hans, bæði til söngs, en ekki síður félagsskapar fram til hins síðasta.

Jón á Gljúfri var bændaprýði. Hann starfaði áður sem ráðunautur, en fræðilegur búskapur og ráðgjöf til annarra voru honum ekki nóg. Hann varð að búa sjálfur, rækta, sannreyna hugmyndirnar og fræðin í verki. Búskapurinn á Gljúfri var hefðbundinn framan af, en hugurinn áræðinn og alltaf opinn fyrir nýjungum og hagkvæmni og möguleikum. Það vafðist ekki fyrir þeim hjónum að breyta algerlega um búskaparhætti á miðjum aldri og snúa sér að ferðaþjónustu og fasteignasölu. Gljúfur ber ræktunargleði og elju þeirra Rósu og fjölskyldu þeirra fagurt vitni. Þar sem áður voru móar og melar eru grösug tún, grónar hlíðar og skógarlundir og jörðin sveitarprýði.

Ég og fjölskylda mín viljum að leiðarlokum þakka Jóni Hólm fyrir einlæga vináttu og biðjum Rósu og fjölskyldu hans Guðs blessunar.

Jón Ragnarsson.

Við vorum sjö búfræðingar sem hófum nám í undirbúningsdeild fyrir nám við búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri haustið 1964. Jón Hólm Stefánsson var einn af þessum nemendum og er sá þriðji sem kvatt hefur. Hópurinn var strax vel samstilltur og hélst það svo áfram öll árin okkar þrjú á Hvanneyri en þaðan útskrifuðumst við með kandídatspróf í búfræði vorið 1968. Við Jón deildum herbergi þessi þrjú ár og varð samstarf okkar og öll samskipti mikil og náin og vináttan fölskvalaus.

Og svo var það söngurinn. Ég held að við öll sjö höfum haft mjög gaman af söng og fjórir úr þessum hópi mynduðu svo kvartett. Auk okkar Jóns voru í honum Jóhannes Torfason á Torfalæk og Gunnar Sigurðsson frá Reykjavík. Óhætt er að fullyrða að Jón var algjör þungavigtarmaður í þessum hópi en hann hafði einstaklega háa og hljómfagra tenórrödd, sem segja má að hafi dugað honum vel allt til hinstu stundar. Við sungum þó nokkuð á meðan við vorum við námið á Hvanneyri, bæði þar heima á staðnum og á skemmtunum í nærsveitum. Eftir að námi lauk og við dreifðumst um landið komum við nokkuð oft saman og sungum. Sérstaklega er mér minnisstætt er við sungum síðast saman á haustfagnaði roskinna ráðunauta í Vogi á Fellsströnd haustið 2018. Vorum við allir komnir nokkuð á áttræðisaldurinn en náðum samt að hljóma vel saman þótt við hefðum engan undirleik. Sérstaklega var til þess tekið hve tenórrödd Jóns hljómaði enn fallega. Allir félagarnir í „Öndvegisdeildinni“, eins og hópurinn okkar hefur verið nefndur, bundust sterkum vináttuböndum og það sama má segja um maka okkar. Höfum við reynt að hittast reglulega og treysta vináttuna enn frekar.

Konu sinni Rósu kynntist Jón á skólaárunum á Hvanneyri og giftust þau 1969. Var það mikið gæfuspor. Hafa þau hjón verið samhent við að stofna einstaklega falleg heimili þar sem þau hafa búið. Og ekki má gleyma að minnast á heimilisgarðana sem verið hafa mjög fallegir og einstakir á margan hátt.

Jón starfaði strax eftir útskrift sem ráðunautur á Vestfjörðum og svo seinna í Dölunum. Var hann vinsæll í starfi og mjög öflugur að sinna ýmsum félagsstörfum heima í héraði. Árið 1983 keyptu þau hjón jörðina Gljúfur í Ölfusi og gerðust bændur með kýr og kindur. Ráku þau búskapinn af miklum myndarskap. Seinna hættu þau hefðbundnum búskap og byggðu upp ferðaþjónustu af mikilli smekkvísi. Þá hafa þau stundað umtalsverða skógrækt. Jón starfaði einnig við fasteignasölu og sérhæfði sig í mati og sölu á jörðum. Félagsstörf ýmis hlóðust á Jón eftir að hann flutti suður. Nefna má setu á búnaðarþingi í átta ár og sæti í sveitarstjórn Ölfushrepps.

En nú er komið að leiðarlokum. Ég persónulega mun sakna símtalanna, sem hafa verið æði mörg ef allt er talið og stundum mikið hlegið þegar við höfum rifjað upp ýmislegt gamalt og gott. Við félagarnir í búvísindadeildinni þökkum Jóni einstaka vináttu og teljum okkur ríkari að hafa átt hann sem skólabróður og vin í gegnum árin.

Rósu og öðrum ástvinum hans vottum við okkar dýpstu samúð.

F.h. Öndvegisdeildar,

Ólafur Geir Vagnsson.

Fyrir tæplega þrjátíu árum var hafinn undirbúningur að átaksverkefni í skógrækt á Suðurlandi, sem fékk síðan heitið Suðurlandsskógar. Margir voru tilkallaðir í þá vinnu og aðrir sjálfskipaðir. Einn af þeim sjálfskipuðu var Jón Hólm á Gljúfri í Ölfusi. Það var ómetanlegt, strax í upphafi, að fá reynslubolta sem hægt var að leita til og hafði unnið við ráðgjöf við bændur um árabil og gat því komið með góðar ábendingar um væntanlegt verkefni í skóg- og skjólbeltarækt. Jón var þeim kostum búinn að vera ávallt tilbúinn að veita góð ráð úr sínum reynslubanka, en líka að benda óhikað á það sem betur mætti fara.

Á milli okkar Jóns myndaðist strax mikið traust og vinátta sem hélst alla tíð. Um árabil var hann formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi, sem studdi óhikað við uppbyggingu Suðurlandsskóga allt frá byrjun. Jón vissi hvað félagslegi þátturinn skipti miklu máli til að mynda samstöðu um mikilvæg mál og var því ómetanlegt að hafa hann í forustu skógarbænda þegar mikið lá við.

Hjónin á Gljúfri stunduðu skógrækt á jörð sinni strax í upphafi Suðurlandsskógaverkefnisins af miklum krafti. Myndarlega var staðið að allri framkvæmd og fljótlega fengum við, sem unnum við ráðgjöf, gott skógarsvæði til að nota sem sýningarsvæði þegar á þurfti að halda til að benda á og skoða „hvernig á að gera hlutina“. Til að mynda var skógurinn notaður í mörg ár við kennslu nema við Landbúnaðarháskólann sem dæmi um skógarhönnun sem vel hafði tekist til með. Seinna kom einnig glæsilegt trjásafn, sem Jón og Rósa byggðu upp af miklum myndarbrag. Þetta trjásafn, á sama hátt og skógurinn allur, ber merki um kunnáttu, fyrirhyggju og dugnað.

Skógarbændur á Suðurlandi þakka Jóni Hólm fyrir góð störf í þágu skógræktar og votta um leið aðstandendum hans innilega samúð sína.

Björn Bjarndal Jónsson, formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi.