Baltimore Tveir lögreglubátar sjást hér við Dali í gær við leit að mönnunum sex sem taldir eru af.
Baltimore Tveir lögreglubátar sjást hér við Dali í gær við leit að mönnunum sex sem taldir eru af. — AFP/Jim Watson
Yfirvöld í Baltimore tilkynntu í gær að hætt hefði verið við björgunarleit að þeim sex einstaklingum sem enn var saknað eftir að Francis Scott Key-brúin hrundi í fyrradag. Eru sexmenningarnir nú taldir af

Yfirvöld í Baltimore tilkynntu í gær að hætt hefði verið við björgunarleit að þeim sex einstaklingum sem enn var saknað eftir að Francis Scott Key-brúin hrundi í fyrradag. Eru sexmenningarnir nú taldir af. Allir sex tilheyrðu viðgerðarteymi sem var á brúnni að gera við holur í malbiki á veginum þegar gámaflutningaskipið Dali sigldi á eina af stoðum brúarinnar með þeim afleiðingum að hún hrundi.

Roland Butler, ráðherra lögreglumála í Maryland-ríki, sagði að leit yrði haldið áfram, en að hún myndi nú snúast um að finna lík mannanna sex. Talið er ómögulegt að þeir hafi náð að halda lífi, þar sem hitastig sjávar á þessum slóðum er einungis um 9 gráður á Celsíus.

Rannsókn á tildrögum slyssins hélt áfram í gær, en Wes Moore, ríkisstjóri Maryland, sagði að áhöfn skipsins hefði sent út neyðarkall um leið og ljóst var að henni myndi ekki takast að afstýra árekstri. Það gerði lögreglunni kleift að stöðva umferð yfir brúna þrátt fyrir að einungis væru um fjórar mínútur til stefnu, og er talið að það snarræði hafi náð að bjarga mannslífum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því í fyrrinótt að Baltimore-höfn yrði opnuð við fyrsta mögulega tækifæri og að alríkið myndi veita alla mögulega aðstoð við að endurreisa brúna.