Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Francesca Albanese kynnti Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu sína „Anatomy of a genocide“ í vikunni. Þar er dregin upp skýr mynd af stöðunni í stríði Ísraels við Hamas tæplega hálfu ári eftir hryðjuverkaárásina á Ísrael

Francesca Albanese kynnti Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu sína „Anatomy of a genocide“ í vikunni. Þar er dregin upp skýr mynd af stöðunni í stríði Ísraels við Hamas tæplega hálfu ári eftir hryðjuverkaárásina á Ísrael. Albanese segir stríðsreksturinn uppfylla skilyrði alþjóðalaga um þjóðarmorð.

Staðan á hernumdu svæðunum í Palestínu er hrikaleg. Eftir sex mánaða stríð er Gasaströndin rústir einar og minnir helst á borgir Evrópu í lok seinni heimsstyrjaldar. Ógnarstjórn ríkir á Vesturbakkanum þar sem landræningjar njóta stuðnings stjórnvalda. Tölurnar tala sínu máli. Fleiri börn hafa verið drepin á Gasa en í öllum stríðsátökum í heiminum síðastliðin fjögur ár. Að minnsta kosti 32 þúsund manns liggja í valnum og 12 þúsund eru týnd, líklega grafin í rústum. Rúmlega 70 þúsund manns hafa slasast. Mjög mikið er um alvarleg brunasár og útlimamissi. Ísraelsher hefur sprengt skóla, sjúkrahús, vegi og vatnsveitur jöfnum höndum. Engin virðing er borin fyrir ákvæðum Genfarsáttmálans.

Hungursneyð af mannavöldum vofir yfir öllum íbúum Gasa. Börn eru byrjuð að deyja úr hungri. Hjálpargögnum er varla hleypt inn á svæðið. Það vantar mat, vatn, lyf og læknistæki. Það er þyngra en tárum taki að sjá fréttaflutning af hjálpargögnum varpað úr flugvélum. Öll sem einhverja þekkingu hafa á aðstoð við fólk í neyð vita að það er allra versta leiðin til að koma gögnum til sveltandi fólks. UNRWA – flóttamannaaðstoð SÞ við Palestínu – hefur ekki verið þyrmt í þessum stríðsrekstri og líka gerð að sérstöku pólitísku skotmarki.

Í skýrslu Francescu Albanese er rakið hvernig þjóðarmorð eigi sér ávallt aðdraganda, sem krefst pólitísks vilja, skipulagningar, kúgunar, afmennskunar og áralangra aðgerða sem grafa undan borgaralegum réttindum og tilverurétti tiltekins hóps. Þannig var það í Rúanda 1994. Þannig er það einnig í Súdan. Síðastliðið hálft ár hafa verið lögð drög að þjóðarmorði í Palestínu. Á því leikur enginn vafi en rætur þess liggja dýpra.

Viðbrögð Ísraelsstjórnar við hryðjuverkaárás Hamas eru ekki í neinu samræmi við glæpinn sem framinn var 7. október 2023. Þau eru hins vegar í fullu samræmi við stefnu öfgahægri- og bókstafstrúarmannanna sem sitja í ríkisstjórn Netanjahús. Þeir hafa talað tæpitungulaust um nauðsyn þess að útrýma Palestínu og stökkva öllum íbúum hennar á flótta. Að því leytinu eru þeir engu skárri en Hamas sem stefnir að útrýmingu Ísraelsríkis.

Sögunni sem hófst með stofnun Ísraelsríkis árið 1948, hinu fyrsta Nakba, og var fram haldið með hernáminu 1967 er sannarlega ekki lokið. Stríðið á Gasa og getuleysi ríkja heims til að koma Palestínu til bjargar er ömurlegur vitnisburður um uppgang öfgaafla og stöðu heimsmálanna.

Lifi frjáls Palestína!

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. tsv@althingi.is