Þóra Hildur Jónsdóttir fæddist 25. júní 1950. Hún lést 12. febrúar 2024.

Útför Þóru Hildar fór fram 14. mars 2024.

Lítil stúlka, sex ára, horfði á systur sína Gerðu tveimur árum eldri baka pönnukökur. Hún fylgdist með af athygli og var fljót að læra réttu handtökin og fórst það vel úr hendi upp frá því. Þetta var Þóra Hildur, yngst af okkur systkinunum, sem lærði mjög snemma til ýmissa verka í sveitinni eins og börn í þá daga svo sem að mjólka kýr og gefa hey í fjósinu en skemmtilegast þótti henni að hjálpa pabba í fjárhúsinu að gefa kindunum. Hún var alltaf tilbúin að gera gagn og mér fannst hún mjög dugleg miðað við aldur. Þóra fylgdi Gerðu oft eftir því þær voru mjög samrýndar systur. Þessi dugnaður og vinnusemi sem hún lærði í sveitinni fylgdi henni alla tíð.

Mjög gestkvæmt var á heimili okkar og oft glatt á hjalla. Pabbi átti mörg skyldmenni fyrir vestan þaðan sem hann var ættaður og komu oft heilu fjölskyldurnar í heimsókn. Þóru fannst gaman að hafa líf og fjör í kringum sig og leika við frændsystkini sín og spurði hún gjarnan: hvenær kemur næsta fjölskylda í heimsókn?

Seinna kynntist hún Steina og stofnaði fjölskyldu og ég man að hún sagði við mig að hún hefði ekki getað fengið betri mann. Steini var duglegur, lengst af á sjó sem skipstjóri og oft lengi í burtu í einu. Þóra var þá ein að hugsa um börn og bú og fórst henni það vel úr hendi. Hún hafði mikinn áhuga á börnunum og því sem þau voru að fást við. Hún var óþreytandi að keyra þau á skíðaæfingar og í aðrar tómstundir. Þóra hafði á þessum árum mikinn áhuga á prjónaskap og prjónaði ótal kaðlapeysur úr einlitu fínu garni sem þá voru mikið í tísku og nutu vinir og vandamenn góðs af því. Áður en hún vissi af var hún orðin heltekin af vöðvabólgu og þurfti því að hætta að prjóna um sinn. Löngu seinna, eftir að þau Steini fluttu suður, tók hún aftur fram prjónana og fór að leika sér að prjóna undurfalleg barnateppi, sem hún gaf ættingjum og vinum þegar fjölgaði hjá þeim og líka til Barnaspítalans í Reykjavík. Mikill samgangur var ætíð milli okkar systra, sérstaklega meðan Þóra bjó fyrir norðan. Við systurnar þrjár nutum þess að eiga allar sælureiti á æskuheimili okkar á Borgarhóli og þar hittumst við gjarnan þegar Þóra kom norður í sumarbústað sinn.

Þóra var mikil fjölskyldukona og naut sín best með allt fólkið sitt í kringum sig. Eins og í barnæsku vildi hún hafa líf og fjör og fannst því fleiri þeim mun betra.

Elsku Þóra, litla systir, það er erfitt að sjá á eftir þér alltof snemma. Hugur minn er hjá Steina og fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum og ég mun minnast þín alla daga hér eftir.

Þín stóra systir,

Arnheiður (Heiða).