Bláfjöll Þessi skemmti sér vel á snjóbrettinu í Bláfjöllum í gær í eindæma bjartviðri, þótt aðeins blési fyrri part dags og ekki opnað fyrr en kl. 2.
Bláfjöll Þessi skemmti sér vel á snjóbrettinu í Bláfjöllum í gær í eindæma bjartviðri, þótt aðeins blési fyrri part dags og ekki opnað fyrr en kl. 2. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Ég ætla bara að vona það verði gjörsamlega brjálað að gera hjá okkur yfir páskana hérna á skíðasvæðinu í Bláfjöllum,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla. „Það er alveg dásamlegt veður, sést ekki skýjahnoðri á himni og bjart og fallegt. Það eina sem hefur aðeins truflað okkur er vindur, en við gátum ekki opnað í morgun vegna vindsins, en opnuðum núna kl. 2 í dag,“ sagði hann í gær. „Við vonumst bara til að vindinn lægi og þetta verði skemmtileg útivistarpáskahelgi fyrir skíðafólk á höfuðborgarsvæðinu.“

Ná af sér páskaeggjunum

Í gær var íslenska skíðalandsliðið að æfa í Bláfjöllum og gekk vel. Einar segir að Íslendingar séu nú vanir kulda og þótt eitthvað blási sé hægt að klæða það af sér með hlýjum fatnaði. „Það verður einhver vindur þessa daga, það er alveg ljóst. En það lítur út fyrir að það verði bjart og fallegt veður og upplagt að fara á skíða og ná sér eftir páskaeggjaát og páskasteikurnar,“ segir hann eldhress.

Nægur snjór á Akureyri

„Við búumst við mikilli traffík í Hlíðarfjalli um páskana,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hlíðarfjalls á Akureyri. Hann segir að strax á mánudaginn hafi aukist aðsóknin í Hlíðarfjall, en hann telur að margir hafi tekið sér lengra frí um páskana og svo séu skólarnir komnir í páskafrí. „Við erum með nægilegan snjó hérna fyrir norðan, svo mikið er víst,“ segir hann og hlær og segir að spáin virðist vera þokkaleg yfir helgina og veðrið sé fínt, þótt það sé aðeins skýjað. „Þetta eru kannski mínus 1-2 gráður, svo það er ekki hægt að kvarta og allar aðstæður með besta móti.“

Misjafnt veður um landið

„Það verður misgott veðrið á landinu um þessa páska,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur, en segir að fólk eigi samt að geta notið útvistar víðast hvar. „Það verður bjartast og yfir það heila besta veðrið á Suðurlandi en stöku él á norðan- og austanverðu landinu.“ Hann segir að það geti hugsanlega hvesst á Suðurlandi á morgun, en þó verði líklegast bestu dagarnir skírdagur og föstudagurinn langi. „En á laugardag fer að bæta í vind og úrkoma gæti verið víða. Það mun síðan aukast á páskadag, en leiðinlegasta veðrið verður fyrripartinn á annan í páskum, en síðan fer veðrið að lagast aftur.“

Þegar Óli Þór er spurður um snjóþyngslin á Vestfjörðum, en Vestfirðingar hafa birt hverja snjómokstursmyndina af annarri á samfélagsmiðlum síðustu daga, segir hann að veðrið muni verða skaplegt fyrir vestan, þótt mikill sé snjórinn og mun það eflaust gleðja margan skíðakappann. „Það verður líklega versta veðrið á norður- og norðausturhorninu.“

Erfitt ferðaveður á mánudag

Óli Þór segir að ef spáin gengur eftir þá gæti orðið erfitt ferðaveður á annan í páskum fyrir ferðalanga.

„Það gæti orðið snúið að komast aftur heim til sín á annan í páskum, en veðrið gæti hugsanlega haft áhrif á innanlandsflug, og jafnvel á umferð yfir helstu heiðar, eins og Holtavörðurheiði.“