Skissa Leikkonan Ghita Nørby situr fyrir.
Skissa Leikkonan Ghita Nørby situr fyrir.
Einn lykill að mínum sjónvarpssmekk er að gæði og fagurfræði blandist hinum mannlega þætti, hvort sem um er að ræða leikið efni eða ekki. Dönsku sjónvarpsþættirnir Danmarks bedste portrætmaler, sem finna má á vef danska ríkissjónvarpssins, DR, sameina þetta

Ragnheiður Birgisdóttir

Einn lykill að mínum sjónvarpssmekk er að gæði og fagurfræði blandist hinum mannlega þætti, hvort sem um er að ræða leikið efni eða ekki. Dönsku sjónvarpsþættirnir Danmarks bedste portrætmaler, sem finna má á vef danska ríkissjónvarpssins, DR, sameina þetta. Þar keppa myndlistarmenn sem sérhæfa sig í portrettum um titilinn „besti portrettmálari Danmerkur“, en í hverjum þætti hafa þeir fjóra tíma til að fanga persónu einhvers frægs Dana á striganum.

Listamennirnir eru mikið hæfileikafólk og það er gaman að fylgjast með verkum þeirra verða til skref fyrir skref og kynnast handverkinu betur og betur eftir því sem líður á þáttaröðina. Dómararnir í þáttunum hafa iðulega eitthvað fróðlegt að segja um verkin, bæði ferlið og lokaniðurstöðuna. Smám saman er maður farinn að þekkja keppendurna vel og vilja þeim allt það besta. Umgjörðin er líka afskaplega smekkleg. Hver þáttur er tekinn upp í safni eða á þekktum sýningarstað svo myndlist umlykur listamennina meðan þeir vinna að portrettunum og veitir hún þeim oft innblástur.

Ég er bara búin með nýjustu þáttaröðina, þá sjöttu, og get mælt heilshugar með henni og hugsa mér gott til glóðarinnar að eiga fimm eldri þáttaraðir inni.