Sólvellir Skírnir fyrir utan hús skólans við Sólvallagötu 12, þar sem andrúmsloftið er heimilislegt og notalegt.
Sólvellir Skírnir fyrir utan hús skólans við Sólvallagötu 12, þar sem andrúmsloftið er heimilislegt og notalegt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ein ástæða þess að ég ákvað að sækja um hér í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík er sú að ég lauk námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð á þremur og hálfu ári og útskrifaðist því í desember síðastliðnum. Ég vissi í raun ekkert hvað ég ætti að gera í…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ein ástæða þess að ég ákvað að sækja um hér í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík er sú að ég lauk námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð á þremur og hálfu ári og útskrifaðist því í desember síðastliðnum. Ég vissi í raun ekkert hvað ég ætti að gera í millitíðinni, fram að næsta hausti, en þá mun ég hefja nám í Háskóla Íslands í íþrótta- og heilsufræðum. Námið hér í Húsó er aðeins ein önn, svo þetta hentaði mér fullkomlega að sækja um og ég sé ekki eftir því, þetta er frábær skóli,“ segir Skírnir Kristjánsson, sem tekur á móti blaðamanni þar sem skólinn er til húsa, við Sólvallagötu 12, og kynnir hlýlegar vistarverur, betri stofu, setustofu, eldhús og kennslustofur. Skírnir er eini karlkyns nemandi skólans þessa önnina og segist ekki finna neitt sérstaklega fyrir því.

„Við nemendurnir hér erum á svipuðum aldri, frá sextán ára til tvítugs, og stemningin í hópnum er góð. Mér fannst það frekar furðulegt í Húsó-þáttunum sem nýlega voru sýndir á Rúv, að eini strákurinn í nemendahópnum var settur fram sem svaka steríótýpa af samkynhneigðum strák, eins og það séu einu strákarnir sem fari í nám í Húsó,“ segir Skírnir og bætir við að sumir vina hans hafi vissulega orðið svolítið hissa þegar hann sagði þeim að hann ætlaði í nám í Húsó.

Vinnuhjú bjuggu uppi á lofti

Skírnir átti heima við Sólvallagötu þegar hann var yngri og segir hverfið því vera sér kunnuglegt.

„Ég kannast fyrir vikið vel við þetta reisulega fallega hús og hef gengið ótal sinnum fram hjá því. Mér fannst gaman að koma loksins inn í húsið þegar ég hóf hér nám og það reynist vera ótrúlega stórt að innan. Þetta er rúmlega hundrað ára hús, byggt árið 1921 og margt er upprunalegt hér inni. Húsið heitir Sólvellir og gatan dregur nafn sitt af því, en sá sem byggði það var kaupmaðurinn Jónatan Þorsteinsson, sem hafði greinilega efni á að byggja þessa höll yfir fjölskyldu sína. Hér er til dæmis innfluttur marmari á gólfum og mjög brattur sérstakur stigi fyrir vinnufólk upp á efstu hæð. Vinnuhjúin sem bjuggu þar uppi voru fleiri en fjölskyldumeðlimir hússins. Seinna var byggt við húsið en það varð húsnæði hússtjórnarskólans árið 1942.“

Skírnir segir að það sé svolítið eins og að vera í löngum sumarbúðum að stunda nám í þessu gamla húsi sem áður var heimili fólks.

„Fyrstu vikuna höfðu margir nemendur orð á því, enda byrjum við alla daga á að borða saman morgunmat hér í borðstofunni, drekkum Egils-þykkni, fáum hafragraut og ristað brauð og svo Nesquick í kaffitímanum. Ekki ólíkt því sem er í skátasumarbúðum,“ segir Skírnir og bætir við að aðeins fjórar stelpur búi á heimavistinni í húsinu.

„Ein þeirra sem þar búa er önnur þeirra sem eru yngstar í nemendahópnum, 16 ára, en Húsó er í raun framhaldsskóli og tekur við nemendum beint eftir grunnskóla. Við hin sem búum ekki á heimavistinni erum eldri og búum úti í bæ. Elsti nemandinn er 45 ára.“

Köllum það hart og klístur

Við förum upp á næstu hæð þar sem eru mjög bjartar kennslustofur með dýrlegu útsýni.

„Dagurinn er þéttskipaður hjá okkur, eftir morgunmat hefst kennsla og okkur nemendum er skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn er í matreiðslukennslu og sér um að matreiða hádegismatinn og þá þarf að undirbúa vel og fá kennslu, enda allt gert frá grunni og stundum erum við með þriggja rétta hádegismat. Við tökum í lokin próf sem felst í að sjá alfarið sjálf um að elda ákveðinn rétt og eftirrétt. Þetta er í raun verklegt próf þar sem kennari fylgist með og gefur okkur einkunn að því loknu, en inn í þá einkunn kemur líka hreinlæti í kringum matargerðina og hversu vel við þrífum eftir okkur. Matreiðsluhópurinn er líka í vefnaði en eftir vetrarfrí fer hann í fatasaum og þá víxla hóparnir hlutverkum, fatasaumshópurinn fer yfir í matreiðsluna. Við saumum fyrst barnaföt en svo veljum við okkur verkefni, að sauma kjól, skyrtu eða aðra flík á okkur sjálf. Við lærum að taka mál, skera út málið, finna efni og svo framvegis. Allir eru í útsaumi, prjóni, hekli og bróderingum, núna er ég til dæmis að læra að gera harðangur og klaustur, sem þótti mjög fínt hér áður. Ég hélt að það væri miklu flóknara en það er,“ segir Skírnir og bætir við að þau krakkarnir hafi ekki alltaf munað þessi heiti, harðangur og klaustur, og kallað það hart og klístur.

Mamma var tossi í hannyrðum

Skírnir segist hafa meiri áhuga á matreiðslu en fatasaum eða öðrum hannyrðum.

„Matreiðslan er mitt áhugasvið en flestir nemendur sem eru með mér í skólanum eru með góðan grunn í hannyrðum, hafa lært margt af þessu að einhverju leyti af foreldrum og eða ömmum, en mamma mín var mikill tossi í handavinnutímum, hún kenndi mér þetta aldrei. Ég hef því engan grunn, kem alveg ferskur inn hér því ég ólst ekki upp við neinar hannyrðir, nema kannski hana ömmu að gera við göt á flíkunum mínum. Hún prjónar reyndar árlega peysur á mig og bróður minn, svo hún er mín eina fyrirmynd, enda fór hún í Húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði þegar hún var ung. Þar var allt svakalega strangt og ekki mátti fara út eftir klukkan átta á kvöldin og það var bannað að reykja og hitta aðra. Hér í Húsó er allt mjög frjálst núna, þetta er ekki eins strangt á heimavistinni og sýnt var í sjónvarpsþáttunum Húsó.“

Námið eykur sjálfstraust

Skírnir segir helst hafa komið sér á óvart hversu mikið og fjölbreytt námið sé í skólanum.

„Við þurfum að gera mjög mörg verkefni yfir önnina og við þurfum líka að vinna heima. Í vefnaðinum verðum við að koma í skólann til að sinna verkefnum því vefstólarnir eru hér í húsinu. Þetta er mjög skemmtilegt nám sem mun klárlega nýtast mér vel, sérstaklega allt sem ég hef lært í matargerðinni en líka um ræstingar, ég er strax byrjaður að nýta mér það. Núna um helgina tók ég þátt í vorhreingerningum heima og veit að ég þarf alltaf að vera með tvær tuskur, eina blauta og eina þurra, nota brúnsápu og fleira sem okkur hefur verið kennt tengt ræstingum. Ég hef líka lært að fægja silfur, pússa skó og fleira sem nýtist öllum í lífinu. Ég hef verið að elda svolítið sjálfur síðustu ár, í tengslum við lyftingar og líkamsrækt sem ég stunda, því þá þarf ég að huga að öllum fæðuflokkum og ég þarf að borða meira en aðrir fjölskyldumeðlimir heima hjá mér. Ég bý heima hjá foreldrum mínum og elda stundum fyrir fjölskylduna, til dæmis heimagerðar pizzur því pabba finnst leiðinlegt að gera gerdeig. Ég hef verið minna í bakstri, en ég lærði heilmikið tengt bakstri hér í skólanum, til dæmis um muninn á hrærðu deigi og þeyttu og annað sem ég var ekki mjög kunnugur. Ég mæli hiklaust með námi hér við hússtjórnarskólann fyrir hvern sem er, fólk hefur engu að tapa og lærir mikið af þessu. Þetta er líka svo margslungið, ég hélt þetta væri bara matreiðsla og prjón, en þetta er svo miklu meira. Markmið skólans er að veita menntun sem nýtist í daglegu lífi og vera góður undirbúningur undir frekara nám. Námið hér undirbýr nemendur fyrir störf í ýmsum greinum samfélagsins og hér læra nemendur vandvirkni. Námið eykur líka sjálfstraust og frumkvæði.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir