Finnur Jónsson (1892-1993) Örlagateningurinn, 1925 Olía og blaðgull á striga 45 x 45 cm
Finnur Jónsson (1892-1993) Örlagateningurinn, 1925 Olía og blaðgull á striga 45 x 45 cm
Finnur Jónsson nam ungur teikningu, síðan gullsmíði og að lokum málaralist í einkaskóla í Kaupmannahöfn. Hann hélt svo til Þýskalands árið 1921, fyrst Berlínar en svo Dresden. Þar stundaði hann nám til 1925 en á þessum árum var Dresden leiðandi borg …

Finnur Jónsson nam ungur teikningu, síðan gullsmíði og að lokum málaralist í einkaskóla í Kaupmannahöfn. Hann hélt svo til Þýskalands árið 1921, fyrst Berlínar en svo Dresden. Þar stundaði hann nám til 1925 en á þessum árum var Dresden leiðandi borg í menningarlífi Þýskalands og einn helsti vettvangur framúrstefnu í myndlist. Fyrst nam Finnur við útlendingadeild Listaháskóla borgarinnar, þar sem Oskar Kokoschka, einn helsti expressjónisti þessa tíma, var meðal kennara hans. Finnur var síðar nemandi við einkaskólann Der Weg Schule für Neue Kunst. Kúbismi, expressjónismi, súprematismi Kazimirs Malevich og konstrúktívismi voru meðal nýjunga í myndlist þriðja áratugarins og Finnur málaði nokkur verk með sterkum vísunum til þessara strauma og stefna – Örlagateningurinn er eitt þeirra.

Kúbísk áhrif eru augljós í uppbrotinni myndbyggingu og myndrými verksins, sem svo sterklega markast af skálínum. Hugmyndir konstrúktívista og súprematista, sem fram komu í skrifum þeirra Wassilys Kandinsky og Malevich um geómetrísk form í myndheimi er vísar jafnt til hlutveruleikans og handanheims, eru einnig sýnilegar. Yfir verkinu öllu hvílir óútskýrð dulúð.

Í Þýskalandi voru nokkur verk eftir Finn á farandsýningu Der Sturm, útgáfufyrirtækis og sýningarhaldara sem sýndi list framúrstefnunnar, og þótti það mikill heiður fyrir ungan listamann. Sá heiður náði þó ekki yfir hafið til Íslands. Árið 1925 sýndi Finnur afrakstur Þýskalandsáranna á Íslandi, þar á meðal nokkur hálfabstrakt-verk. Sýningin vakti athygli og seldust mörg fígúratíf verk en ekkert hinna. Eftir það tóku fígúratívu verkin yfirhöndina og málaði Finnur síðan fígúratíf verk með góðum árangri í áratugi, landslag og myndir af sjómönnum og sjávarlandslagi, en tók svo aftur upp þráðinn í abstraktmálverkum á sjöunda áratugnum. Um svipað leyti hlutu hin einstöku abstraktverk Finns frá upphafi ferils hans athygli á alþjóðavettvangi og þykir merkasta framlag hans til íslenskrar myndlistar felast í þessum framúrstefnulegu verkum frá þriðja áratugnum.

Finnur Jónsson og Guðný Elísdóttir eiginkona hans ánöfnuðu allar eigur sínar Listasafni Íslands.