Þverholt 11 Stefnt er að því að þarna verði innréttaðar íbúðir í framtíðinni.
Þverholt 11 Stefnt er að því að þarna verði innréttaðar íbúðir í framtíðinni. — Morgunblaðið/sisi
Áformað er að innrétta íbúðir í DV-húsinu við Þverholt. Húsið hefur nokkur undanfarin ár verið nýtt undir skólastarfsemi. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að að lóðarhafi láti gera tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðina í samræmi við ábendingar sem hann setur fram

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Áformað er að innrétta íbúðir í DV-húsinu við Þverholt. Húsið hefur nokkur undanfarin ár verið nýtt undir skólastarfsemi.

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að að lóðarhafi láti gera tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðina í samræmi við ábendingar sem hann setur fram.

Skráð stærð fasteignarinnar Þverholts 11 er 4.127 fermetrar. Brunabótamat er 1.472 milljónir. Húsið var byggt árið 1984 fyrir starfsemi dagblaðsins DV og ætíð nefnt DV-húsið í þá daga. Það er sex hæðir auk kjallara. Listaháskóli Íslands hefur haft húsið á leigu en mun nú flytja starfsemina annað.

Stefnt er að því að í framtíðinni verði öll starfsemi skólans í Tollhúsinu við Tryggvagötu.

Við þessi tímamót hefur eigandi húsins, FÍ fasteignafélag slhf:, sent fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur og óskað eftir afstöðu hans til þess að húsinu verði alfarið breytt í íbúðarhús. Skipulagsfulltrúi vísaði fyrirspurninni til umsagnar hjá verkefnastjóra.

Í umsögn hans segir m.a. að lóðarhafi þurfi að sýna fram á raunhæft fyrirkomulag íbúða í húsinu þar sem tryggð eru viðunandi gæði hverrar íbúðar, ekki síst með tilliti til birtustigs. Bent er á að almennt er gerð krafa um að íbúðir hafi glugga til a.m.k. tveggja átta.

Með það í huga er bent á að hæðir 1-4 í húsinu hafa einungis gluggahliðar til vesturs og norðausturs og húskroppurinn sé nokkuð djúpur. Íbúðir sem útbúnar voru á 5. og 6. hæð hafa til viðbótar svalir og glugga til austurs sem ekki er hægt að koma fyrir á neðri hæðum.

Af þessum sökum geti verið flókið úrlausnarefni að koma fyrir íbúðum á hæðunum þannig að birtustig sé fullnægjandi, gæði tryggð og brunavarnir uppfylltar.

Fram kemur í fyrirspurninni að í júní 2008 hafi byggingafulltrúi Reykjavíkur samþykkt teikningar að íbúðum á 5. og 6. hæð ásamt bílastæðum og geymslum í kjallara.

Er í eigu lífeyrissjóða

FÍ fasteignafélag er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Stærstu hluthafar eru Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 19,9% hlut hvor og Gildi 15,9%

Félagið á 11 fasteignir, 10 í Reykjavík og eina í Kópavogi. Samanlagður fermetrafjöldi fasteignanna er 25.202. Kvika eignastýring sér um rekstur félagsins fyrir hönd eigenda. Það sér um þjónustu við leigutaka og stýrir rekstri og viðhaldi fasteigna.

Í eignasafni félagsins eru fasteignir við Amtmannsstíg 1, Ármúla 1, Álfheima 74, Bankastræti 2, Bankastræti 7, Borgartún 25, Hverfisgötu 103, Lækjargötu 3, Laufásveg 31, Víkurhvarf 3 og Þverholt 11.

Heildareignir félagsins námu 13,8 milljörðum króna í lok árs 2022. Það ár voru rekstrartekjur félagsins 888,5 milljónir.