Ingimar Halldórsson sendi mér póst: Í Vísnahorni er spurt um gamla stöku. Í Vísnasafni sem Jóhann Sveinsson frá Flögu tók saman og kom út árið 1947 er vísan svona: Latur maður lá í skut, latur var hann, þegar hann sat, latur oft fékk lítinn hlut, latur þetta kveðið gat

Ingimar Halldórsson sendi mér póst: Í Vísnahorni er spurt um gamla stöku. Í Vísnasafni sem Jóhann Sveinsson frá Flögu tók saman og kom út árið 1947 er vísan svona:

Latur maður lá í skut,

latur var hann, þegar hann sat,

latur oft fékk lítinn hlut,

latur þetta kveðið gat.

Steindór Finnsson

Neðanmáls stendur: Alm. þjóðv. 1914. 106. Heimilda að feðrun vísunnar er ekki getið.

Ég hef kunnað þessa vísu lengi og þá í þessari útgáfu.

Ingólfur Ómar skrifaði mér: Varðandi vísuna um komu lóunnar sem birtist í Mogganum í dag 26. mars vil ég koma á framfæri leiðréttingu vegna hennar. Eins og þú munt átta þig á er hún ekki alveg rétt bragfræðilega séð en það getur öllum orðið á. Svona hljómar þá vísan:

Ennþá herðir kuldakló

krapi jörð er þakin.

Eigrar lóan út um mó

illa köld og hrakin.

Enn skrifaði Ingólfur Ómar mér, sagði að sér hefði dottið í hug að slá á létta strengi svona rétt áður en páskahelgin gengur í garð.

Nautnalíf er þarft að þakka

það mig gleður oft um nætur.

Víf að faðma, vín að smakka

vermir mér um hjartarætur.

Gunnar J. Straumland skrifar á Boðnarmjöð:

Þjóð fékk sér innskráningsamboð

því ekkert er henni nú samboð-

ið nema frægð

- ef frægð er í lægð

má skrá sig í forsetaframboð.

Eyjólfur Óskar Eyjólfsson yrkir um Hlutskipti látins manns:

Er ég loks upp af er hrokkinn

með ánægju grafa menn skrokkinn

en mæddur ég ligg

og maðkana tygg

og hugsa um Framsóknarflokkinn.

Veðurspáin eftir Hjálmar Freysteinsson:

Vond er hún þessi veðurspá,

verma því bælin hyggnir.

Stórhríðar vænta að morgni má,

um miðjan daginn svo rignir.

Síðdegis brestur aftur á

illviðri – þar til lygnir.

(7-1-18)

Öfugmælavísan:

Lóminn smíða leit ég skrá,

lóu fríða hrafni makast

rakka skíðum renna á

reyr í blíðu veðri skakast.