Formaður „Flestir krakkar geta fundið íþrótt við sitt hæfi innan Fjölnis,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir.
Formaður „Flestir krakkar geta fundið íþrótt við sitt hæfi innan Fjölnis,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Áhugi á félagsmálum liggur í blóðinu og þátttaka í öllu íþróttastarfi finnst mér afar skemmtileg. Innan Fjölnis eru svo mörg spennandi verkefni sem sinna þarf. Mikilvægast nú er að koma af stað framkvæmdum við keppnisaðstöðu fyrir knattspyrnudeild nærri Egilshöll; verkefni sem hefur verið í undirbúningi undanfarin ár og getur vart beðið lengur,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, nýr formaður Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi í Reykjavík.

Breytingar urðu hjá Fjölni á aðalfundi félagsins sem haldinn var í síðustu viku. Jón Karl Ólafsson lét af formennsku sem hann hafði gegnt í fimmtán ár og Hanna var kjörin í hans stað. Hún er öllum hnútum kunnug í starfi Fjölnis og hefur setið í stjórnum og verið formaður fimleika- og handknattleiksdeilda, auk þess að sitja í stjórn frjálsíþróttadeildar um tíma. Hún var formaður meistaraflokksráðs karla í handknattleik og var varaformaður aðalstjórnar Fjölnis frá 2021 uns hún tók við formennskunni.

Bæta þarf knattspyrnuaðstöðu við Egilshöll

„Ég hef alltaf verið þátttakandi í íþróttum,“ segir Hanna sem prófaði ýmsar íþróttagreinar á æskuárum sínum vestur í Dölum. Tók svo þátt á stærri mótum undir merkjum Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga. Flutt til Reykjavíkur settu Hanna og fjölskylda sig niður í Grafarvogi – og þegar börnin tvö höfðu aldur til byrjuðu þau að æfa með Fjölni.

„Engin forvörn er börnum betri, að mínu mati, en þátttaka í íþróttastarfi og traust samvera með foreldrum. Að því leyti og raunar mörgu öðru skipta íþróttirnar samfélagið miklu máli. Helstu áherslumál mín sem formanns eru að minnsta kosti næsta árið að hlúa áfram að því frábæra starfi sem fram fer hjá félaginu. Þar eru aðstöðumál líklega efst á blaði og fyrsta stóra verkefnið er að landa bættri keppnisaðstöðu fyrir knattspyrnudeild við Egilshöll. Það verkefni hefur verið í undirbúningi með Regin og Reykjavíkurborg síðustu ár,“ segir Hanna. Hún er viðskiptalögfræðingur að mennt og starfar sem sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun.

Fjöldi íþróttagreina er styrkur

Alls um 3.300 börn og ungmenni æfa í dag með Fjölni, sem starfar í 11 deildum og er fjölmennasta íþróttafélagið í Reykjavík. Fjöldi greina skapar félaginu sömuleiðis styrk, segir formaðurinn, sem telur mikilvægt að halda í þessa breidd.

Fótboltinn er vinsælasta greinin í Fjölni; iðkendur þar eru um 800. Með fimleikadeild æfa um 650 nú. Aðstaða flestra greina er í Egilshöll, en þó er starfsemi líka í íþróttamiðstöðinni við Dalhús. Fótbolti er á báðum stöðum svo og körfubolti. Handbolta- og körfuboltakrakkar í yngstu flokkunum æfa meðal annars í íþróttahúsum grunnskóla í Grafarvogi og samstarf er við Árbæjarfélagið Fylki um æfingar og aðstöðu fyrir ákveðna flokka í handbolta. Þá hefur skákdeild Fjölnis aðstöðu í Rimaskóla. Listskautar, íshokkí og karate eru eingöngu æfð í Egilshöll. Í sumum greinum hefur þurft að leita út fyrir Grafarvog með æfingaaðstöðu, svo sem í tennis, sundi og frjálsum íþróttum.

„Ég held að flestir krakkar geti fundið íþrótt við sitt hæfi innan Fjölnis. Flestir iðkendur eru úr Grafarvogi, en þeir koma einnig til dæmis úr Grafarholti og Mosfellsbæ,“ segir Hanna. „Annars höfum við líka lagt okkur eftir því að Fjölnir sé félag fyrir alla í Grafarvogi. Innan frjálsíþróttadeildar er til dæmis starfræktur hlaupahópur sem er opinn öllum og þá er starfræktur hópurinn Frísk í Fjölni sem er hreyfingarhópur fyrir fólk 60 ára og eldri hér í hverfinu. Raunar er íþróttahefðin hér mjög sterk. Á öllum tímum má sjá fólk sem hér fer um götur og stíga gangandi, hlaupandi eða á hjóli. Svo höfum við hér í Grafarvogi einstaka aðstöðu til útiveru; búum við sjó í grónu umhverfi en þó í miðri borg.“

Þroskast og dafna

Hanna segir að viss eftirsjá fylgi því að hverfa nú frá þátttöku í starfi innan deilda Fjölnis og taka að sér formennsku í aðalstjórn. „Mér hefur alltaf fundist afar gefandi að starfa með börnunum, sjá þau þroskast og dafna í íþróttunum. Vinna sigra og takast á við töp. Mér finnst ég eiga aðeins í þessum krökkum sem æfa með Fjölni. Í rekstri félagsins eru yngri flokkarnir í ágætri stöðu, meðal annars vegna þess stuðnings sem kemur í gegnum frístundakort Reykjavíkurborgar. Þegar svo kemur að mótum og keppnisferðum leggjast allir á eitt við fjáröflun,“ segir Hanna og að síðustu:

„Rekstur meistaraflokka er oft þungur en við erum með átta slíka í fjórum greinum; knattspyrnu karla og kvenna, handknattleik, körfubolta og íshokkíi. Þar er þörf á sterkum bakhjörlum og hugsanlega nýjum leiðum í fjáröflun. Raunar eru í starfi íþróttafélags alltaf að koma upp nýjar aðstæður sem þarf að bregðast við. Þeim áskorunum er okkar í forystunni að leysa úr.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson