Fjártækni Bankar eyða tíma og peningum í að forrita sömu eða sambærilegar lausnir, hver í sínu horni.
Fjártækni Bankar eyða tíma og peningum í að forrita sömu eða sambærilegar lausnir, hver í sínu horni. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans segir mikilvægt fyrir hefðbundna banka að skoða af meiri alvöru aukna samvinnu við fjártæknifyrirtæki. Að öðrum kosti eigi þeir á hættu að sitja eftir í þróuninni

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans segir mikilvægt fyrir hefðbundna banka að skoða af meiri alvöru aukna samvinnu við fjártæknifyrirtæki. Að öðrum kosti eigi þeir á hættu að sitja eftir í þróuninni. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að bálkakeðjutæknin, sem mörg ný forrit eru byggð á, sé orðin það fullkomin að raunverulegar áþreifanlegar lausnir séu að verða til utan hins hefðbundna bankaheims. Þær muni höfða sterkt til yngri kynslóða sem séu opnar fyrir notkun á fjölbreyttum nýtískulegum lausnum í snjallsímum. Unga fólkið muni ekki endilega eiga bankareikninga í hefðbundnum bönkum eins og foreldrar þeirra gerðu.

Monerium fram hjá bönkum

Sem dæmi nefnir Gunnlaugur íslenska rafeyrisfyrirtækið Monerium. Eins og ViðskiptaMogginn greindi frá síðasta sumar varð fyrirtækið þá það fyrsta í heiminum til að gera viðskiptavinum kleift, í samvinnu við Gnosis Pay, að fá venjulegt VISA-kort sem inniheldur rafmyntir til að borga fyrir hinar ýmsu vörur og þjónustu, eins og kaffi og bensín. Þannig fari fyrirtækið fram hjá hefðbundnum bönkum.

Eins og Gunnlaugur útskýrir er bálkakeðjutæknin orðin 15 ára gömul og hefur þróast mikið í áranna rás. „Það er mjög mikið að gerast í þessum geira. Það er með þennan bransa eins og aðra að menn hafa lengi talað um að eitthvað sé að fara að gerast en lengst af hefur verið erfitt að spá fyrir um hvenær hlutirnir springa út. Gott dæmi er gervigreindarbyltingin. Menn voru byrjaðir að spá því fyrir mörgum áratugum að gervigreind yrði mjög áhrifamikil. En það var fyrst á síðasta ári sem almenningur sá með eigin augum hvers hún er megnug í raun.“

Gunnlaugur segir að lausnir byggðar á bálkakeðjunni komi til með að bylta fjármálaþjónustu. Engum blöðum sé um það að fletta. „Það má líkja bálkakeðjunni við internetið. Þetta er opið vistkerfi þar sem hægt er að búa til ýmiss konar lausnir án þess að fá samþykki einhverra sem stjórna aðgengi að keðjunni. Það er mikið talað fyrir samstarfi fjártæknifyrirtækja og banka en í hvert skipti sem fjártæknifyrirtækið kemur með nýja lausn og ræðir hana við bankann þá er það bankinn sem ræður ferðinni og ákveður hverjum hann vinnur með. Hann ræður þar af leiðandi hvort viðkomandi lausn kemst á legg.“

Sætasta stelpan á ballinu

Gunnlaugur segir að bankar, með öll sín grunnkerfi og viðskiptavini, hafi lengi verið sætasta stelpan á ballinu. „Fjártæknifyrirtæki hafa lengi verið ólm í að nýta sér útbreiðslu bankans á vörum og viðskiptavinaneti, ásamt öppum, heimabanka og slíku, til að koma vörum sínum á framfæri.“

Sem dæmi nefnir Gunnlaugur hugbúnaðarfyrirtækið Meniga sem hefur gert samninga við banka víða um heim. Fyrirtækið hjálpar viðskiptavinum banka m.a. að spara í heimilisbókhaldinu.

„Í nýjum fjármálaheimi sem er að myndast munu hefðbundnir bankar ekki verða með þá sterku stöðu sem þeir eru með í dag, nema þeir grípi tækifærin og opni dyr sínar fyrir fjártæknifyrirtækjunum. Þeir þurfa að taka þátt í byltingunni. Þessu mætti líkja við það ef Blockbuster-vídeóleigan hefði borið gæfu til að horfa fram á við og fjárfesta í streymisveitunni Netflix í árdaga þess fyrirtækis. Ef þú setur þig í spor fjártæknifyrirtækis í dag þá spyr það sig eðlilega: á það að fara í biðröðina í bankanum og bíða eftir samstarfi eða leita annarra leiða?“

40 þúsund bankar

Eins og Gunnlaugur bendir á eru um 40 þúsund bankar í heiminum. Allir eyði tíma og peningum í að forrita sömu eða sambærilegar lausnir, hver í sínu horni. Mikið væri hægt að spara og auka framþróun ef unnið væri í meiri mæli með aðilum utan bankans og þeir tengdir við sín innri kerfi viðskiptavinum til heilla.

Bálkakeðjan er opinn vettvangur sem allir geta forritað á móti, eins og Gunnlaugur útskýrir. „Mun neytandinn í framtíðinni fara til banka sem býður 2-3 lausnir sem hann forritar sjálfur eða skoðar hann þær þúsundir fjártæknilausna sem hannaðar eru til að gera lífið auðveldara og er hægðarleikur að nálgast og nota?“ spyr Gunnlaugur.

Hann líkir bálkakeðjunni einnig við tilkomu PC-tölvunnar á síðustu öld. „Hún var opin og margir gátu forritað fyrir hana. Hún laðaði að sér notendur sem voru ekki að horfa til vélbúnaðarins heldur hugbúnaðarins. Tölvan laðaði að sér mikla flóru hugbúnaðar.“

Þunginn er að aukast

Gunnlaugur segir að bankar verði samt alltaf til sem sá aðili sem miðli fjármagni. Þeir njóti trúnaðar viðskiptavina sem sé verðmætur. Gömlu bankarnir þekki fjármálaheiminn best. „Það er því mjög mikilvægt að þeir nýti sér þá stöðu fremur en að leyfa einhverjum nýjum minni aðilum að eignast allt sviðið á þeirra kostnað.“

Fimm ár eru síðan Gunnlaugur stofnaði Fjártækniklasann. Hann segir að á þeim tíma hafi hann verið með óljósari mynd af því hvernig þetta kæmi til með að þróast. Nú sé aftur á móti komið að tímamótum. Auðvelt sé að sjá raunveruleg skref fram á við. Þunginn í þá átt sé að aukast.