Trausti Hjálmarsson
Trausti Hjálmarsson
Það er hins vegar afskaplega ánægjulegt að algjör einhugur virðist um það grundvallaratriði að bændur fái hærra verð fyrir afurðir sínar.

Trausti Hjálmarsson

Það eru auðvitað ákveðin vonbrigði að sjá að sumir hafi horn í síðu nýrra búvörulaga sem opna möguleika á langþráðum hagræðingartækifærum í kjötgreinum íslenska landbúnaðarins. Það er hins vegar afskaplega ánægjulegt að algjör einhugur virðist um það grundvallaratriði að bændur fái eðlilegt verð fyrir afurðir sínar. Fyrir þann hlýja hug ber að þakka. Öllum virðist það ljóst að haga þurfi málum með þeim hætti að bændum sé gert það fjárhagslega kleift að halda áfram störfum sínum og að neytendur hafi sem fyrr aðgang að fyrsta flokks matvöru á viðráðanlegu verði. Í sjálfu sér eru markmiðin því hvorki flókin né skrýtin en vel kann að vera að alltaf verði ólík sjónarmið um hvernig þessu jafnvægi verði best náð.

Bændasamtökin fagna allri málefnalegri umræðu um það rekstrarumhverfi sem íslenskum bændum og landbúnaðinum í heild sinni er búið. Við lítum á það sem langþráðan áfanga að ný búvörulög heimili sláturhúsum og afurðastöðvum í kjötgreinum að lækka tilkostnað sinn með auknu samstarfi og eftir atvikum sameiningu til hagræðingar. Væntanlega getur enginn sett sig á móti því að lækka framleiðslukostnað ef gæðin verða þau sömu eða jafnvel meiri. Rétt er að undirstrika það að heimildin til hagræðingar er bundin við fyrirtæki í meirihlutaeigu bænda og að mínu mati er því ekki ástæða til þess að óttast að bændur verði fórnarlömb einhvers konar misnotkunar í skjóli fákeppni. Áætlað er að 40% ábata gæti runnið til bænda með hækkuðu afurðaverði, 40% til neytenda í formi lægra vöruverðs en ella og að lokum 20% til afurðastöðva. Engin ástæða er til að ætla að horfið verði frá þessum viðmiðunum.

Íslenskir bændur bera sig saman við kollega sína í nágrannalöndum og keppa við þá með ýmsum hætti. Það er af hinu góða. Aftur á móti er það grundvallaratriði að bæði liðin lúti sömu leikreglum. Að aðstæður þeirra séu jafnar hvað varðar regluverkið sem unnið er eftir. Hagræðingarheimild í kjötgreinunum er skref í þá átt enda í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Íslenskir bændur munu samt vitaskuld aldrei sitja við sama borð og kollegar þeirra í Evrópu. Því veldur meðal annars smæð heimamarkaðarins og fjarlægðir yfir hafið, bæði fyrir innflutning aðfanga og mögulegan útflutning afurða. Að auki höfum við langt í frá sama aðgang að langtímafjármagni og íslenska vaxtaumhverfið er auðvitað gjörólíkt því sem bændur annarra landa búa við. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við höfum aðgang að ómetanlegum sjálfbærum náttúruauðlindum, brynnum húsdýrum okkar með sama vatni og við drekkum sjálf, búum við landfræðilega einangrun sem gerir okkur kleift að lágmarka sýklalyfjagjöf og vel kann að vera að meira að segja norðlægu slóðirnar okkar verði síðar að framleiðslu- og markaðstækifæri í hlýnandi loftslagi heimsbyggðarinnar.

Það er ekki hlutverk bænda að grípa til varna þegar gagnrýni beinist að stjórnvöldum vegna breytinga á búvörulögum. Það er hins vegar okkar að gera þá skýlausu kröfu að við fáum að starfa á sambærilegum forsendum og landbúnaður í nágrannalöndum okkar býr við. Öðruvísi er leikurinn ójafn og væntanlega alltaf fyrir fram tapaður. Þess vegna fögnum við málefnalegri umræðu um íslenska landbúnaðinn og það sameiginlega markmið allra landsmanna að halda honum sem fyrr í forystuhlutverki hvað varðar gæði og hreinleika.

Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands.