Dagmál Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, ræðir Landsbankamálið.
Dagmál Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, ræðir Landsbankamálið. — Morgunblaðið/Hallur
Landsbankinn vill ekki birta hagsmunaskrá bankaráðsmanna eða staðfesta að enginn þeirra eigi hlutabréf í Kviku banka. Þetta kemur fram í Dagmálum Morgunblaðsins, en þar er rætt við Hörð Ægisson, ritstjóra Innherja, um kauptilboð bankans í TM tryggingar af Kviku

Landsbankinn vill ekki birta hagsmunaskrá bankaráðsmanna eða staðfesta að enginn þeirra eigi hlutabréf í Kviku banka. Þetta kemur fram í Dagmálum Morgunblaðsins, en þar er rætt við Hörð Ægisson, ritstjóra Innherja, um kauptilboð bankans í TM tryggingar af Kviku.

Í svari bankans til Morgunblaðsins segir að hagsmunaskrá bankaráðsmanna verði ekki birt. Spurningu blaðsins um hvort stjórnendatrygging bankaráðsmanna næði til skaðabóta ef rifta þyrfti tilboðinu var ekki heldur svarað.

Möguleg afturköllun tilboðsins gæti bakað bankanum skaðabótakröfu Kviku, en bankinn kynni að eiga endurkröfu á bankaráðsmennina. Stjórnendatryggingin kynni hins vegar að skera þá og bankann úr þeirri snöru, reynist ákvörðunin hafa verið tekin í umboðsleysi og þvert á eigendastefnu bankans.

„Ég get ekki séð hvað ætti að vera óþægilegt við það eða háð bankaleynd að upplýsa um þessa hagsmunaskráningu,“ segir Hörður. „Það að bankinn svari því ekki er bara til þess fallið að búa til óþarfa tortryggni um ferlið.“

Hörður telur svör bankaráðsins til þessa ósannfærandi, rakin hafi verið upplýsingagjöf vegna annars tilboðs en spurt var um. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum fjármálaráðherra í hlaðvarpi, en ekki minnst á fund ráðherrans með lykilstjórnendum bankans 21. febrúar, þar sem andstaða við áformin var ítrekuð.