Sveitafólk „Stillum dæminu þannig upp að tekjur fyrir afurðir skili eðlilegri framlegð og okkur tveimur þokkalegum launum. Þetta er fjölskyldubú,“ segir Aðalbjörg hér í viðtalinu. Hér eru þau Eyvindur saman í fjósinu, en verkin þar eru samvinna þeirra tveggja og ekkert er gefið eftir við mjaltir og gegningar.
Sveitafólk „Stillum dæminu þannig upp að tekjur fyrir afurðir skili eðlilegri framlegð og okkur tveimur þokkalegum launum. Þetta er fjölskyldubú,“ segir Aðalbjörg hér í viðtalinu. Hér eru þau Eyvindur saman í fjósinu, en verkin þar eru samvinna þeirra tveggja og ekkert er gefið eftir við mjaltir og gegningar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinnusemi og vanafesta eru mikilvægir þættir svo búskapur gangi sem best. Þetta segja Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson, bændur í Stórumörk undir Eyjafjöllum, sem fengu Landbúnaðarverðlaunin 2024 sem matvælaráðherra afhenti á Búnaðarþingi á dögunum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vinnusemi og vanafesta eru mikilvægir þættir svo búskapur gangi sem best. Þetta segja Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson, bændur í Stórumörk undir Eyjafjöllum, sem fengu Landbúnaðarverðlaunin 2024 sem matvælaráðherra afhenti á Búnaðarþingi á dögunum. Viðurkenningu þessa hlutu bændurnir fyrir framúrskarandi árangur við innleiðingu loftslagsvænna búskaparhátta. Þess utan eru kýrnar í Stórumörk einstaklega nytháar, svo eftirtekt hefur vakið. Eigi að síðustu segja þau Merkurbændur að gera þurfi betur og mikilvægt sé að fá nýtt afurðagott kúakyn til landsins. Þar megi í raun engan tíma missa afkomunnar vegna.

Snemma vorar undir Eyjafjöllum

Stóramörk er undir Vestur-Eyjafjöllum. Leiðin þangað er sú, að þegar komið yfir Markarfljótsbrú úr vestri er beygt til vinstri og svo ekið áleiðis inn í Þórsmörk. Þá er brátt komið að Stórumörk; jarðirnar þar eru nokkrar og byggingar á staðnum mynda í raun lítið þorp. Hér er hefð fyrir myndarlegum búskap og Aðalbjörg Ásgeirsdóttir er fimmti ættliðurinn sem situr jörðina Stórumörk III.

Þau Aðalbjörg og Eyvindur, sem er upprunninn í Holtunum í Rangárþingi ytra, komu inn í búskap í Stórumörk árið 2010. Tóku alfarið við fyrir ári af foreldrum Aðalbjargar, þeim Ásgeiri Árnasyni og Rögnu Aðalbjörnsdóttur. Jafnframt keyptu þau þá jörðina Stórumörk I og tóku við öllum búpeningi þar og framleiðslurétti. Samkvæmt pappírunum búa þau á báðum jörðum, en búreksturinn er allur í Stórumörk III, þar sem í fjósi eru um 130 kýr og afurðirnar ein milljón mjólkurlítra á ári. Útihúsin á bænum eru öll hin bestu og skilyrði til búrekstrar sömuleiðis. Þekkt er sömuleiðis að hvergi á landinu vorar fyrr en undir Eyjafjöllum. Fyrsta slátt þar hafa bændur gjarnan tekið áður en maímánuður er úti.

Gengið að öllu vísu

„Að ganga að öllu vísu og hafa verkin alltaf í svipuðu fari skilar hagræði. Nákvæmni í vinnu er þýðingarmikil og þannig má forðast mistök, sem vissulega geta þó verið lærdómsrík,“ segir Eyvindur. Þau Aðalbjörg ganga til útiverka í fjósinu klukkan átta á morgnana. Líta þá eftir kúnum sem sjálfar ganga eftir þörfum að róbot, sem við mjaltir les af hverri nákvæmar upplýsingar um heilsu hennar og stöðu. Þau gögn fara svo í tölvu sem bændurnir lesa af og sjá hvort inngripa sé þörf.

„Allar áherslur í búskapnum hér reynum við að hafa einfaldar. Stillum dæminu þannig upp að tekjur fyrir afurðir skili eðlilegri framlegð og okkur tveimur þokkalegum launum. Þetta er fjölskyldubú og óhjákvæmilegt er að slíkar einingar stækki. Litlu búin standa ekki undir sér,“ segir Aðalbjörg. Hún bendir í því sambandi á nýlega útreikninga Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem sýni að meðgjöf bænda með hverjum mjólkurlítra sem fer í afurðastöð sé 19 krónur. Veigamikill þáttur í því sambandi sé sú mikla vinna sem liggur að baki búrekstrinum, án þess að eðlilegar tekjur komi þar á móti.

„Bændur leiðrétta þessa skekkju í afkomunni með því að bæta við sig vinnu, oft utan bús og heimilis. Slíkt heldur í raun búskapnum uppi mjög víða, sem auðvitað gengur ekki til lengdar. Á þessu þarf endurskoðun og nýja nálgun. Mikið vinnuálag leiðir svo af sér að andleg heilsa fólks getur gefið eftir svo þetta verður í raun vítahringur,“ segir Eyvindur.

Til róttækrar skoðunar

Ársnyt hverrar kýr á Merkurbúinu er 8.903 lítrar að jafnaði borið saman við landsmeðaltalið sem er 6.400 lítrar. Munurinn þarna er tæplega 30%. Og formúlan að þessu er einföld segja Aðalbjörg og Eyvindur; gott gróffóður sem er hey úr rúlluböggum og svo kjarnfóðurgjöf.
„Engar æfingar,“ segir Aðalbjörg um búskap og heyöflun af túnum sem eru 130 hektarar. Þau hafa á síðustu árum mörg verið unnin upp og endurræktuð og þar sáð rauð- og hvítsmára. Þetta eru belgjurtir sem framleiða áburðargefandi köfnunarefni sem munar um. Með slíku þarf síður og stundum ekki að nota tilbúinn áburð á túnin, sem er loftslagsvænt. Gott skipulag á heyverkun í rúllur þýðir líka minni notkun á olíu og plasti og meiri nyt á hverja kú kemur inn plúsmegin í loftslagsbókhaldinu. Hvað vinnur með öðru og útkoman er góð.

„Ég tel mjög nauðsynlegt að nú verði tekið til róttækrar skoðunar að fá nýtt kúakyn í íslenskan landbúnað. Íslenska kýrin skilar ekki nándar nærri sömu nyt og gerist til dæmis í Noregi. Þangað eigum við að horfa. Norskar kýr mjólka um 40% meira en íslenskar og kjötafurðirnar eru 50% meiri. Hafa verður í huga að 80% af innlendri nautakjötframleiðslu hérlendis eru af mjólkurkúm,“ segir Aðalbjörg. „Til lengdar gengur ekki að bændur þurfi endalaust að ganga á höfuðstólinn til að lifa af og þó er útkoman eitt hæsta verð mjólkurvara í heimi. Slíkt er ekki hægt að bjóða neytendum til lengdar; innflutningur hlýtur þá að koma til ella gefa tollmúrar eftir. Vandséð er að ríkið muni mæta þessari stöðu kúabænda með hækkun beingreiðslna til mjólkurframleiðslu. Raunar eigum við bændur orðið fullt í fangi með að framleiða magnið sem búvörusamningar segja til um.“

Tillaga felld við aðrar aðstæður

Á fundi deildar nautgripabænda innan Bændasamtaka Íslands var á dögunum samþykkt tillaga Aðalbjargar um að tekið verði til skoðunar að kanna áhuga mjólkurframleiðenda á að taka til skoðunar innflutning á erfðaefni í íslenskar mjólkurkýr til Íslands. Endurbæta þannig íslenska kúastofninn. Bent er á að norsku kýrnar séu sýnu afurðahærri en þær íslensku. Einmitt í því liggi hundurinn grafinn, eins og máltækið segir. Engin fórn felist heldur í því að taka kýr af norskum stofni til mjólkurframleiðslu á Íslandi, samanber að holdanaut hér séu af nokkrum stofnum. Reynslan af því sé með ágætum.

„Bændur virðast sumir brenndir af umræðu sem tekin var í kringum aldamót í aðdraganda þess að kosið var um innflutning á norsku kúakyni til landsins. Þar var tillaga um slíkt felld, það er við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi og af annarri kynslóð en nú er mest áberandi í bændastétt. Við þurfum nýtt kúakyn, sem vonandi verður á næstu árum,“ segir Aðalbjörg í Stórumörk að síðustu.