Svekkelsi Vonbrigði leikmanna voru gríðarleg í leikslok á þriðjudag. Albert Guðmundsson skoraði glæsilegt mark Íslands í 2:1-tapinu fyrir Úkraínu.
Svekkelsi Vonbrigði leikmanna voru gríðarleg í leikslok á þriðjudag. Albert Guðmundsson skoraði glæsilegt mark Íslands í 2:1-tapinu fyrir Úkraínu. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Frammistaðan var mjög góð í fyrri hálfleik, mjög góður og agaður varnarleikur og allt gott um það að segja. Þetta leit vel út, við skoruðum frábært mark og leiðum í hálfleik,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið

EM-umspil

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Frammistaðan var mjög góð í fyrri hálfleik, mjög góður og agaður varnarleikur og allt gott um það að segja. Þetta leit vel út, við skoruðum frábært mark og leiðum í hálfleik,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Þar var hann beðinn að rýna í 2:1-tap íslenska karlalandsliðsins fyrir því úkraínska í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í Wroclaw í Póllandi á þriðjudagskvöld. Áður hafði Ísland lagt Ísrael örugglega að velli, 4:1, í undanúrslitum umspilsins í Búdapest fyrir viku.

Úrslitin á þriðjudag þýða að Úkraína fer á EM í Þýskalandi í sumar en Ísland situr eftir með sárt ennið.

Nánast sex manna varnarlína

„Frammistaðan var mjög góð og varnarlega fannst mér við ekki gefa mikið af færum á okkur. Við vörðumst vel en þegar fór að síga á seinni hlutann í fyrri hálfleik vorum við farnir að færast fullaftarlega.

Þegar líður á leikinn verður þetta meiri varnarleikur og við föllum allt of djúpt. Úkraínumenn þrýsta okkur neðar á völlinn og það er aldrei gott þegar kantmenn í þessu leikkerfi sem við spilum, 4-4-2 eða 4-4-1-1, detta svona neðarlega.

Við vorum nánast komnir með sex manna varnarlínu þegar leið á síðari hálfleik. Þegar þú vinnur boltann eru kantmennirnir mjög neðarlega og þú kemst aldrei út úr þessu, náum aldrei að halda boltanum og koma okkur fram völlinn.

Við kannski föllum fulldjúpt og stundum gerist þetta í fótbolta. Menn eru að verja eitthvað og ætla að halda í 1:0 með kjafti og klóm, sem gerist ósjálfrátt. Hvort þetta hafi verið ákveðin taktík eða ekki get ég ekki sagt til um en svona þróaðist þetta,“ hélt Rúnar áfram.

Ofboðslega stutt á milli

Hvað vantar upp á hjá íslenska landsliðinu?

„Við höfum spilað síðustu landsleiki nokkuð vel og sjáum bætingu. Auðvitað fengum við þennan möguleika með því að komast í þessa úrslitaleiki og þá er þetta oft 50/50.

Á 75.-80. mínútu eigum við smá kafla. Jón Dagur [Þorsteinsson] fær gott skotfæri eftir góða sókn. Albert [Guðmundsson] kemst skömmu síðar í góða stöðu og það þarf ofboðslega lítið til þess að við stelum sigrinum þá.

Þá er staðan 1:1 og við fáum fín færi til þess að komast yfir. Þetta var allt of stuttur kafli en hefði getað gefið okkur eitthvað, en því miður var þetta dálítið þungt að verjast svona mikið og lengi þannig að við höfðum kannski ekki kraft í þetta.

Svo ná þeir inn sigurmarkinu þegar varnarlínan okkar öll og kantmennirnir eru í sex manna varnarlínu. Það gerir að verkum að þeir fá frítt skot frá vítateig sem þú vilt nánast aldrei fá á þig.

Það var það sem kannski varð okkur að falli en með smá heppni hefðum við getað unnið. Þetta hefði getað lukkast á þessum stutta kafla sem kom þegar við fengum þessi tvö færi og það er ofboðslega stutt á milli í þessu,“ sagði hann.

Fleiri leikmenn í betri deildum

Beðinn að fara yfir stöðuna á landsliðinu í dag sagði Rúnar:

„Ég held að þetta lið hafi aldrei verið tilbúið að fara á EM þótt við hefðum öll viljað sjá það þar. Það hefði held ég orðið mjög erfitt. Það er búið að búa til lið sem við getum litið björtum augum á inn í framtíðina.

Auðvitað þurfum við fleiri leikmenn sem spila í betri deildum í Evrópu en þeir eru að gera. Fyrir einhverjum árum, þegar við áttum okkar besta landslið, þá var lunginn úr því liði að spila í topp fimm bestu deildum Evrópu. Okkur vantar að eiga leikmenn í þeim deildum til að ná árangri með landsliðið og komast lengra.

Við þurfum að koma fleiri leikmönnum í betri lið og eignast betri fótboltamenn til þess að eiga einhvern möguleika á að komast upp úr þessum riðlum og inn í þessar stóru keppnir sem okkur langar alla til að komast í.“

Búið að taka fullmikinn tíma

„Við erum lítil þjóð og þegar það verða breytingar þar sem þessi kynslóð sem er núna að klára sinn tíma, liðin sem fóru á EM og HM, þarftu að búa til nýtt lið.

Það eru ekki alltaf allir tilbúnir og lítil þjóð getur ekki átt endalaust af leikmönnum í bestu deildunum þannig að þetta verður dálítið kaflaskipt hjá okkur.

Við erum að ganga í gegnum tíma núna þar sem verið er að reyna að byggja upp og mér finnst það búið að taka fullmikinn tíma. Menn hafa ekki fengið sénsa nægilega snemma, sumir hverjir, finnst mér.

Við erum núna komnir með ágætisgrunn en vantar tilfinnanlega þessa sterku varnarmenn. Við höfum verið að leysa hægri bakvörðinn með Guðlaugi Victori [Pálssyni], sem er ekki hans upphaflega staða þótt hann leysi hana vel.

Hörður Björgvin [Magnússon] er meiddur og við erum með Davíð [Kristján Ólafsson], sem hefur ekki verið með undanfarið en hafði verið að spila einhverja leiki. Guðmundur [Þórarinsson] er að spila vinstri bakvörð sem er kannski ekki hans uppáhaldsstaða þótt hann leysi hana ágætlega.

Það vantar þessa ekta varnarmenn sem við vorum með áður í Kára [Árnasyni], Ragga [Ragnari Sigurðssyni] og Sölva [Geir Ottesen]. Þetta voru alvöruvarnarmenn sem stýrðu allri varnarlínunni. Birkir Sævars og Ari Skúla, þetta voru allt leikmenn sem spiluðu í góðum liðum og höfðu mikla reynslu.

Það er ekki auðvelt að fylla þau skörð þó svo að Sverrir [Ingi Ingason] sé mjög góður og mér fannst Daníel Leó [Grétarsson] leysa þetta mjög vel líka. Það eru kannski bakvarðarstöðurnar sem hafa verið okkar vandamál, við höfum leyst þær stöður með mönnum sem eru kannski ekki bakverðir,“ bætti hann við.

Góður bragur á liðinu

Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide er með samning til loka ársins 2025. Finnst Rúnari íslenska liðið á réttri leið undir stjórn Norðmannsins?

„Maður sér allavega góðan brag á liðinu og hann veit alveg hvað hann er að gera. Taktíkin sem hann notast við er ekkert ólík því sem bæði Lars [Lagerbäck] og Heimir [Hallgrímsson] höfðu verið að gera á undan.

Ég held að árangur hans sé alveg á pari og maður geti ekki vænst mikils meira. Auðvitað hefði maður viljað fá fleiri stig í riðlakeppninni sjálfri og eiga meiri möguleika þar,“ sagði hann.

„Varnarlínan er aldrei sú sama, það er aldrei sama lið í hverjum leik og búið að hræra svolítið í því. Það er kannski ekki alltaf þjálfaranum að kenna. Það getur ýmislegt komið upp á; meiðsli, leikbönn og annað slíkt.

Við höfum ekki fundið þá línu. Á sama tíma er Hákon [Arnar Haraldsson] búinn að spila mjög mikið og kemur sterkur inn. Jón Dagur og margir strákanna eru búnir að fá mikla reynslu og geta orðið framtíðarleikmenn fyrir okkur,“ sagði Rúnar að lokum í samtali við Morgunblaðið.