Guðspjall „The Gospel of Mary eða Guðspjall Maríu (2021) er það besta sem höfundurinn hefur ritað að mínum dómi,“ skrifar rýnir um verk Huga Guðmundssonar. Myndin af tónskáldinu er frá 2014.
Guðspjall „The Gospel of Mary eða Guðspjall Maríu (2021) er það besta sem höfundurinn hefur ritað að mínum dómi,“ skrifar rýnir um verk Huga Guðmundssonar. Myndin af tónskáldinu er frá 2014. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumkraftar að verki ARCHORA / AIŌN ★★★★★ Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eva Ollikainen (stjórnandi). Sono Luminus DLS-92268, árið 2023. Heildartími: 61:48 mín. Anna Þorvaldsdóttir er eitt fremsta tónskáld samtímans

Frumkraftar að verki

ARCHORA / AIŌN

★★★★★

Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eva Ollikainen (stjórnandi). Sono Luminus DLS-92268, árið 2023. Heildartími: 61:48 mín.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt fremsta tónskáld samtímans. Verk hennar beisla krafta eða réttar sagt frumkrafta og birtingarmyndin er einstakt tónmál. Hljóðheimur Önnu er þannig engu líkur en hún dregur upp ákveðna mynd í verkum sínum, hvort sem er í lágstemmdu og örfínu tónmáli eða risavöxnum hendingum. Hún nýtir þannig hljómsveitina til hins ýtrasta.

Hljómsveitarverkið ARCHORA (2022) var samið sérstaklega fyrir PROMS-tónlistarhátíð breska ríkisútvarpsins, BBC, þar sem það var frumflutt í fyrra og hlaut mikið lof. Verkið vísar til hugmynda um frumkraft og hliðstæða veröld sem ýmist er kyrrstæð eða þá síbreytileg – allt á sama tíma. Verkið hefur verið flutt hér á Íslandi, nú síðast í Hallgrímskirkju í október síðastliðnum, en birtist nú í útgáfu útgáfufyrirtækisins Sono Luminus. Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands er prýðilegur en verkið var hljóðritað í Norðurljósasal Hörpu. Eva Ollikainen þekkir verk Önnu eins og lófann á sér og laðar fram bæði smáatriði í raddskránni ásamt því að mynda eina órofa heild. Hljómsveitarverkið AIÕN (2018) skiptist í þrjá kafla (I. Morphosis, II. Transcension og III. Entropia) og er kannski að einhverju leyti sinfónískara en ARCHORA. Það sama er upp á teningnum í túlkun Evu Ollikainen og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, mikil blæbrigði sem þó eru ekki á kostnað heildarinnar. Upptökum stjórnaði Ragnheiður Jónsdóttir og hljóðið er fyrirtak (útgáfunni fylgir Pure Audio Blue-ray™-útgáfa verkanna).

Ferðalag um dimmar slóðir

Atmospheriques, Vol. I

★★★★½

Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Missy Mazzoli, Daníel Bjarnason, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Báru Gísladóttur. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Daníel Bjarnason (stjórnandi). Sono Luminus DSL-92267, árið 2023. Heildartími: 58:57 mín.

Það er ekki bara mikilvægt að flytja samtímatónlist, það skiptir líka máli að hljóðrita hana og varðveita þannig. Útgáfufyrirtækið Sono Luminus hefur sent frá sér diskinn Atmospheriques (Vol. I) sem hefur að geyma fimm aðskilin verk eftir jafn mörg tónskáld. Fyrsta verkið á disknum er CATAMORPHOSIS (2020) eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Eins og ég hef áður sagt er hljóðheimur Önnu einstakur og hún svíkur ekki hlustendur sína hér í rúmlega 20 mínútna ferðalagi um ótroðnar slóðir. Frábær flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar spillir ekki fyrir.

Það sama má segja um flutning á verkunum Sinfonia (2014) eftir Missy Mazzoli og Clockwork for Orchestra (2020) eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur; hvort tveggja grípandi verk í sínum stundum nokkuð dimma einfaldleika. Harðast undir tönn er verkið Ós (2018) eftir Báru Gísladóttur, sem var samið til að minnast 100 ára fullveldisafmælis Íslands, en það er eftir sem áður vel þess virði að hlýða á.

Ég var þó kannski hrifnastur af verki Daníels Bjarnasonar, From Space I Saw Earth (2019) sem var samið undir áhrifum af Apollo 11-leiðangrinum. Verkinu er skipt á milli þriggja hljómsveitarhópa sem hver hefur sinn stjórnanda. Ásamt tónskáldinu sjálfu halda Eva Ollikainen og Kornilios Michailidis á tónsprotanum og ungmenni úr Ungsveit SÍ, Listaháskóla Íslands og Bjöllukór Tónlistarskólans í Reykjanesbæ taka þátt í flutningnum. Verkið var upphaflega samið fyrir Fílharmóníusveitina í Los Angeles og frumflutt þar undir stjórn Zubins Mehtas, Esa-Pekkas Salonens og Gustavos Dudamels, hvorki meira né minna! Mér fannst verkið afar sannfærandi, sem og flutningurinn. Upptökum stjórnaði Ragnheiður Jónsdóttir og hljóðið er afbragð (útgáfunni fylgir Pure Audio Blue-ray™-útgáfa verkanna).

Vegferð til innri visku

The Gospel of Mary

★★★★★

Verk eftir Huga Guðmundsson. Berit Norbakken (sópran). Schola Cantorum Reykjavicensis. Århus Sinfonietta. Hörður Áskelsson (stjórnandi). Dacapo Records 8.224736, árið 2023. Heildartími 61:38.

Ég hef heyrt nokkur verk eftir Huga Guðmundsson en vil taka það fram hér í upphafi að The Gospel of Mary eða Guðspjall Maríu (2021) er það besta sem höfundurinn hefur ritað að mínum dómi. Það er samið við texta þeirra Nilu Parly and Niels Brunse við rit frá 5. öld sem lengi var haldið leyndu sökum þess að það var talið stangast á við kristilegan rétttrúnað þess tíma. Verkið var flutt á Listahátíð í Reykjavík árið 2022 og kom fram í lýsingu á verkinu þá að Guðspjall Maríu væri „óhefðbundin og framsækin túlkun á boðskap Jesú Krists sem vegferð til innri andlegrar visku á sama tíma og það hafnar þjáningum og dauða sem leiðum til eilífs lífs. Einnig er ýjað að því að María Magdalena hafi verið postuli sem hefur þótt eldfimur boðskapur. Þetta forna helgirit talar sterkt inn í okkar samtíma og tónskáldið lyftir guðspjallinu upp yfir stað og stund.“

Það var Hörður Áskelsson sem pantaði verkið fyrir hönd Listvinafélags Reykjavíkur og hann heldur einmitt á tónsprotanum á upptökunni sjálfri. Verkið er samið fyrir einsöngvara, kór og kammersveit og hér er það norska sópransöngkonan Berit Norbakken sem syngur einsöngshlutverkið og gerir það afar vel. Kammerkórinn Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér í hóp fremstu kóra á sínu sviði og söngur hans á upptökunni er fyrirtak. Þá er það Århus Sinfonietta (Kammersveitin í Árósum) sem leikur hljómsveitarpartinn og er það, eins og annað á upptökunni, fyrsta flokks.

Óratorían The Gospel of Mary (Guðspjall Maríu) er afar sannfærandi verk og það skiptir máli að hafa hljóðritað það. Öllum sem að upptökum komu er sómi að en annars stjórnaði títtnefnd Ragnheiður Jónsdóttir upptökum og hljóðið er fyrsta flokks hjá útgáfufyrirtækinu Dacapo.

Höf.: Magnús Lyngdal Magnússon