[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1938 „Útiverur, göngur og ferðalög gera menn lystuga. Það er gott að hafa jafnan kröftugan næringarmikinn og góðan mat við hendina.“ Silli og Valdi.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Gamlir Moggar eru ekki bara uppfullir af fréttum og fróðleik, heldur varðveita þeir einnig, betur en flest annað, tíðarandann hverju sinni. Á fjórða áratugnum eða í þristinum, eins og unga fólkið myndi segja, var forsíða blaðsins lengst af helguð smáauglýsingum. Ekkert annað efni var þar að finna, nema þá helst þegar dró til stórtíðinda í landinu eða heiminum. Kenndi þar ýmissa grasa.

Í byrjun apríl 1938 var vor í lofti og hvað gera menn þá? Jú, bresta í dans. KR-ingar eru ekkert öðruvísi en aðrir í þeim efnum og þennan dag, sem var laugardagur, auglýstu þeir Arsenaldansleik í heimili sínu vestur í bæ kl. 10 um kvöldið. Jú, þið lásuð rétt, Arsenaldansleik. „Aðgöngumiðar á kr. 2.50 fást eftir kl. 8. Styrkið málefni íþróttamanna og dansið hjá ARSENAL,“ stóð í auglýsingunni.

Bændur og búalið létu ekki sitt eftir liggja, en beint fyrir neðan Arsenaldansleikinn var auglýstur dansleikur á Klébergi á Kjalarnesi. Lofað var góðri músík og Kjalnesingar ætluðu að telja í klukkustund fyrr en KR-ingar. Það var enginn skreppitúr þangað upp eftir á þessum tíma en borgarbúar gátu tekið bíl frá Mjólkurbílastöðinni. Veðja má á að áhangendur Tottenham Hotspur hafi í öllu falli látið sig hafa ferðalagið, frekar en að arka vestur í bæ.

Vorhattarnir komnir

Ekki þurftu dömurnar að mæta með gamla hatta á dansleikina, en eigandi Hattaverslunar Margrjetar Leví var nýkominn heim með e.s. Gullfossi eftir að hafa verið á helstu tískusýningum í London, Berlín og Kaupmannahöfn og kynnt sér þar vor- og sumartískuna á þessu ágæta ári.

Vor- og sumarhattarnir voru líka komnir í Hatta og skermabúðina hjá Ingibjörgu Bjarnadóttur og til stóð að taka barnahöfuðföt upp vikuna á eftir. Margt barnið hefur sofnað spennt eftir að hafa fengið þau tíðindi í æð.

Minna var dansað fyrir norðan téða helgi en menn gátu þó skellt sér á tónleika Karlakórs Akureyrar í Gamla bíói á sunnudeginum. Stjórnandi var Áskell Snorrason frá Öndólfsstöðum í Reykjadal.

Nýja og Gamla bíó hér syðra auglýstu gjarnan á forsíðunni á þessum árum, hvort í sínu horninu uppi. Mánuði síðar, í byrjun maí, voru engar smástjörnur á tjaldinu; annars vegar Shirley Temple og hins vegar Ginger Rogers og Fred Astaire. Við erum að tala um Swing Time og Litla Willie Winkie.

Sama dag auglýsti Bókaverslun Sig. Kristjánssonar, Bankastræti 3, nýja bók um hænsnarækt. Svona fyrir þá sem ekki nenntu í bíó.

Bíleigandi óskast

Einstaklingar keyptu líka auglýsingar, ef því var að skipta. Vigdís Ketilsdóttir hafði eftirfarandi að segja í maíbyrjun: „Þakka hjartanlega öllum, nær og fjær, sem á margan hátt sýndu mjer vinarhug á 70 ára afmæli mínu 30. apríl s.l.“

Þetta verður ekki mikið heimilislegra. Saklaus veröld, lítil og hlý. Sem átti svo sem fljótt eftir að breytast. Við munum að árið er 1938.

Philips-„útvarpsgrammophone“ var til sölu, með tækifærisverði. Gripurinn var til sýnis á Viðgerðarstofu Útvarpsins. Eins var jörðin Skjöldólfsstaðir föl. Upplýsingar gaf Árni Jónsson frá Múla.

Sumar auglýsingarnar voru óræðari en aðrar. Eins og þessi: „Bíleigandi óskast í ódýran útilegutúr um Noreg, Svíþjóð og Danmörku, með 3 öðrum í 5-6 vikna tíma. Bensín og flutningur á bílnum eigandanum að kostnaðarlausu. Tilb., merkt „Kammerat“, sendist Morgunbl. fyrir 10. maí.“

Í byrjun júní voru hinir frægu dönsku skopleikarar Litli og Stóri mættir í Nýja bíó í kvikmyndinni Reimleikarnir á herragarðinum og Ásta og Gulla höfðu opnað hárgreiðslustofu í Austurstræti 6, uppi. Gott píanó var líka til sölu á þúsund kall. Er ekki með uppreiknarann við höndina. Þá var hægt að næla sér í ágætt saltkjöt í Heildverslun Garðars Gíslasonar, í 1/1, 1/2 og 1/4 tunnum.

Opna átti Þrastalund daginn eftir.

Í byrjun júlí lögðu verslanirnar Silli og Valdi og Liverpool undir sig nær alla forsíðu Morgunblaðsins enda lá ekki lítið við – sumarfrí flestra Reykvíkinga var að hefjast. „Eitt er sameiginlegt fyrir alla,“ sögðu Silli og Valdi. „Hvort sem farið er langt eða skamt, verðið þjer að hafa það á tilfinningunni að þjer sjeuð vel útbúinn með alt sem snertir daglega fæðu. Útiverur, göngur og ferðalög gera menn lystuga. Það er gott að hafa jafnan kröftugan næringarmikinn og góðan mat við hendina, þegar hvílst er og matast, safna orku fyrir næsta áfangann.“

Samkeppnisaðilinn var ekkert að flækja málið: „Þið sem eruð að leggja upp í ferðalög. Tryggið yður fylstu ánægju af ferðalaginu með því að kaupa nestið í Liverpool.“

Neðst á síðunni var svo auglýstur kappleikur milli Víkinga og Þjóðverja, sá þriðji í röðinni. „Hvað skeður nú? Allir út á völl!“

Liverpool kvaddi sér einnig hljóðs í byrjun ágúst. Þá voru skilaboðin einföld: Sultutauglös fyrirliggjandi.

Stórt danskt kartöflufirma

Stórt danskt kartöflufirma óskaði líka eftir að komast í viðskiptasamband við innflytjanda af kartöflum, máske neytendur eða umboðssala.

Bifreiðastöð Steindórs sat ekki auðum höndum, en næsta hraðferð til Akureyrar var þremur dögum síðar og heildsala Sig. Þ. Skjaldberg var ekki í vafa um að Wessanen’s Cacao væri best. Þá var Litla bílstöðin opin allan sólarhringinn. Ekki amalegt!

Barnlaus hjón óskuðu eftir þriggja herbergja nýtísku íbúð 1. okt. „Greiðsla fyrirfram ef óskað er.“

September byrjaði vel, en þá auglýsti Óskar Þórðarson læknir að hann væri kominn heim. Ekki fylgdi sögunni hvar hann hefði verið, blessaður.

Garðyrkjusýning í Markaðsskálanum við Ingólfsstræti var opnuð þennan dag og um kvöldið voru auglýstir hljómleikar, þar sem aðgöngumiðinn gilti jafnframt sem happdrættismiði.

Sumt var ekki alveg eins gott að skilja. „Hjartanlegustu þakkir færum við heiðurshjónunum á Vatnsnesi við Keflavík, fyrir hina rausnarlegu gjöf, sem þau færðu okkur hinn 29. júlí s.l. Guð blessi ykkur! Björg Magnúsdóttir. Sveinn Ingvarsson, Keflavík.“

Menn láta vitaskuld ekki Chevrolet frá sér svo gjörla. Þennan dag var fimm manna bifreið af því tagi til sölu af sérstökum ástæðum. Uppl. í síma 3137 eða 3500.

Loka átti Þrastalundi.