Bráðavanda þarf að mæta af hraða og festu

Ný orkuspá Orkustofnunar sem út kom í liðinni viku staðfestir það sem áður hafði í raun ítrekað komið fram, að á Íslandi er orkuskortur. Í landi fullu af orku er þetta með miklum ólíkindum og hefur komið töluvert á óvart því að lengi vel hafa landsmenn gengið að því vísu að hér væri næg orka, ljós og hiti væri ekki vandamál þrátt fyrir skammdegi og kulda og að hér væri hægt að stunda mikla og margvíslega atvinnustarfsemi sem byggðist á orkunotkun.

Þessi mikla orka hefur verið einn helsti grundvöllur þeirrar velferðar sem hér ríkir og hefur ríkt áratugum saman. Án nýtingar orkunnar, hvort sem þar er horft til jarðhita eða vatnsafls, væri Ísland ekki það velmegunarríki sem raun ber vitni.

Með vaxandi og viðvarandi orkuskorti, eins og útlit er fyrir á næstu árum og áratugum að óbreyttu, er augljóst að lífskjör landsmanna munu skerðast. Í stað þess að geta haldið áfram að byggja upp atvinnustarfsemi sem nýtir þá hreinu orku sem hér er að finna, er hætt við að sú uppbygging stöðvist og jafnvel að úr henni dragi eftir því sem landsmönnum fjölgar, ekki síst ef ætlunin er að halda áætlun um orkuskipti, sem verður reyndar æ óraunsærri.

Ráðherra orkumála hefur boðað endurskoðun rammaáætlunar og skipað starfshóp til að undirbúa þá endurskoðun. Fram hefur komið að starfshópurinn skuli meðal annars horfa til gagnrýninnar sem rammaáætlunarferlið hefur fengið á sig og er full ástæða til. Vandinn er þó sá að vinna slíks starfshóps tekur tíma. Gert er ráð fyrir að hægt verði að leggja fram frumvarp á grundvelli þessarar vinnu ekki síðar en á næsta löggjafarþingi og ljóst er að það verður ekki fyrr.

Það sem er einnig ljóst er að orkuskorturinn bíður ekki eftir því að þessari vinnu ljúki og þess vegna þarf að stíga enn ákveðnari skref til að leysa bráðavandann. Í því sambandi er tæpast um annað að ræða en að setja sérlög um tilteknar virkjanaframkvæmdir sem hægt er að ráðast í með skömmum fyrirvara.

Þá er full ástæða til að meta, hvort sem er í vinnu starfshópsins, innan ráðuneytisins eða á þingi, hvort ekki er tímabært að leggja rammaáætlun af í stað þess að reyna að lappa upp á hana. Í öllu falli er ljóst að eigi að byggja á henni áfram þarf að verða grundvallarbreyting á framkvæmdinni svo að slíkt ferli gangi ekki fyrst og fremst út á að koma í veg fyrir virkjanir, líkt og raunin hefur orðið.