Frá götuhæð Hér er boðið upp á annað sjónarhorn af fyrirhugaðri skrifstofubyggingu.
Frá götuhæð Hér er boðið upp á annað sjónarhorn af fyrirhugaðri skrifstofubyggingu. — Teikningar/Batteríið arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fasteignaþróunarfélagið Klasi er að hefja uppbyggingu á fjögurra hæða skrifstofu- og þjónustubyggingu suður af Smáralind. Byggingin, Silfursmári 12, verður Svansvottuð. Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa segir áætlað að framkvæmdum ljúki eftir 15 til 16 mánuði

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fasteignaþróunarfélagið Klasi er að hefja uppbyggingu á fjögurra hæða skrifstofu- og þjónustubyggingu suður af Smáralind. Byggingin, Silfursmári 12, verður Svansvottuð.

Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa segir áætlað að framkvæmdum ljúki eftir 15 til 16 mánuði. Samkvæmt því gæti húsið komið til afhendingar í sumarlok 2025.

Batteríið arkitektar hanna húsið. Það verður 2.500 fermetrar og með 26 stæða bílakjallara.

„Hugsunin er að byggja Svansvottað skrifstofu- og þjónustuhúsnæði. Jafnframt að byggingin verði ólík aðliggjandi fjölbýlishúsum. Það er önnur nálgun og annað útlit.“

Hvernig metið þið eftirspurnina eftir slíku húsnæði?

„Við teljum að það sé þörf fyrir svona húsnæði á markaðnum. Hönnunin miðast við að geta skipt hverri hæð upp fyrir allt að þrjá notendur. Við teljum að það sé eftirspurn eftir slíku húsnæði. Staðsetningin er góð og miðsvæðis og húsið verður búið öllum þeim kerfum sem nútímaskrifstofuhúsnæði þarf að hafa.“

Hver er framkvæmdatíminn?

„Hann er frekar stuttur. Húsið verður byggt úr steypu, krosslímdu timbri og stáli. Það er verið að undirbúa framkvæmdir og áformað að þeim verði lokið eftir 15-16 mánuði,“ segir Ingvi að lokum.

Alls eru um 690 íbúðir í Smárabyggð og eru um 500 íbúðir á vegum Klasa. Smárabyggð er eitt stærsta þéttingarverkefnið í sögu höfuðborgarsvæðisins en ætla má að um 2.000 manns muni búa í hverfinu.