Götur borgarinnar eru grútskítugar og átak í hreinsun þeirra eru löngu tímabært

Veðrið er fallegt á suðvesturhorninu þessa dagana. Þótt kalt sé í lofti er lygnt og sólin skín.

Við þessar aðstæður kemur líka í ljós óþrifnaðurinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Eftir veturinn er lag af grút á götum borgarinnar. Þegar þær eru þurrar þyrlast mökkurinn upp, því meiri eftir því sem ökutækið er þyngra. Vörubílar hverfa jafnvel í rykið eins og þeim væri ekið eftir malarvegi.

Þar sem umferðin er þyngst er oft þykkur rykmökkur. Þegar sólin er lágt á lofti lýsir hún upp rykagnirnar þannig að það er nánast eins og ekið sé í gegnum þoku. Loftið þar sem mökkurinn er er heldur ekki beinlínis heilsusamlegt.

Það er merkilegt hversu sjaldan götur borgarinnar eru þrifnar. Það er eins og ráðamönnum finnist ekki taka því vegna þess að þær verði jafnharðan skítugar aftur. Það minnir á verslunarmanninn sem nennti ekki að bjóða upp á Prins póló vegna þess að það seldist alltaf upp og þá þurfti að panta meira.

Í borgum í Bandaríkjunum eru iðulega skilti á götum þar sem segir hvenær þær verði þrifnar og það jafnvel tvisvar í mánuði. Þá er eins gott að leggja ekki þeim megin því að það er ekki gaman að láta draga bílinn sinn. Þau skilti eru ekki sett upp þegar götuþrif eru í vændum eins og hér er gert þegar kemur að hinni árlegu vorhreingerningu. Þau eru alltaf á sínum stað eins og hver önnur umferðarskilti.

Á meðan útgjöld borgarinnar bólgna út er grunnþjónusta við borgarbúa iðulega vanrækt. Það er hluti af því að halda borginni hreinni og fallegri að hreinsa göturnar svo að þær séu ekki eins og í niðurníddum útkjálkabæ.

Átak í hreinsun gatna er löngu tímabært og yrði mikil bragarbót frá því sem nú er.