Atreides Timothée Chalamet á stórleik sem Paul „Muad Dib“ Atreides að mati gagnrýnanda Morgunblaðsins.
Atreides Timothée Chalamet á stórleik sem Paul „Muad Dib“ Atreides að mati gagnrýnanda Morgunblaðsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin, Smárabíó og Laugarásbíó Dune: Part Two ★★★★★ Leikstjóri: Denis Villeneuve. Handrit: Denis Villeneuve og Jon Spaihts, byggt á Dune eftir Frank Herbert. Aðalhlutverk: Timothée Chalamet, Zendaya, Rebecca Ferguson, Javier Bardem, Josh Brolin, Austin Butler, Florence Pugh, Dave Bautista, Christopher Walken, Léa Seydoux, Souheila Yacoub, Charlotte Rampling og Stellan Skarsgård. Bandaríkin 2024, 165 mínútur.

Kvikmyndir

Stefán Gunnar Sveinsson

Skáldsagan Dune eftir Frank Herbert, sem kom út árið 1965, er ein frægasta vísindaskáldsaga 20. aldarinnar. Líkt og algengt var á þessum árum birtist verkið fyrst sem stuttir kaflar sem dagblöð og tímarit birtu á árunum 1963-4 en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að sannfæra bókaútgefendur um að verkið ætti að koma út á bókarformi. Raunar „floppaði“ fyrsta útgáfa bókarinnar svo illa að forlagið rak ritstjórann sem mælti með því að gefa henni tækifærið.

Dune gat sér hins vegar gott orð meðal þeirra sem lögðu í að lesa hana. Smátt og smátt varð bókin nægilega vinsæl til þess að Herbert gæti gefið sig allan að skrifum um Dune-söguheiminn. Þungamiðjan þar er „kryddið“ Melange, en það veitir þeim sem neyta þess ýmsa hæfileika.

Þannig gerir kryddið sumum kleift að sjá framtíðina, en að auki er kryddið nú eina leið mannkynsins til þess að fljúga á milli stjarnanna. Það er því sjálfkrafa mikilvægasta auðlind mannkynsins, á sama tíma og það fyrirfinnst bara á einni plánetu: sandplánetunni Arrakis, sem einnig hefur viðurnefnið Dune. Sá sem ræður kryddinu ræður alheiminum.

Ofan á þetta baksvið stillti Herbert svo upp flóknu valdatafli, þar sem hin góða Atreides-ætt glímdi við hina vondu Harkonnen-ætt, sem hefur farið með völdin á Arrakis í umboði keisarans í mörg ár. Keisarinn hefur hins vegar ákveðið að færa Atreides-ættinni lénsvaldið yfir Dune, en ýmis brögð eru þar í tafli. Hvenær er gjöf ekki gjöf?

„Ókvikmyndanleg“ bók

Líkt og gerist með flesta hluti sem ná einhverjum vinsældum kom Hollywood bankandi á dyrnar. Fyrst reyndi fransk-síleski leikstjórinn Alejandro Jodorowski að búa til útgáfu, en tilraun hans strandaði á því að fá kvikmyndaver vildu búa til 14 klukkutíma langa kvikmynd sem virkaði eins og sýrutripp á sterum.

Næsta tilraun til þess að búa til kvikmynd úr Dune gekk öllu betur, þar sem hún endaði þó með kvikmynd sem rataði á hvíta tjaldið árið 1984. Leikstjórinn David Lynch hélt þar um alla þræði, en hann var hins vegar nokkuð langt frá því að fanga þá töfra sem drógu lesendur að bók Herberts. Þótti það renna stoðum undir þá tilgátu að bókin væri einfaldlega það flókin og stór í sniðum að engin leið væri að gera hana að sæmilegri kvikmynd. Hún væri „ókvikmyndanleg“.

Ég tel þess virði að rekja þessa þrautagöngu alla til þess að gefa lesendum smjörþefinn af því hvílíkt þrekvirki kanadíski leikstjórinn Denis Villeneuve (Arrival, Blade Runner 2049) hefur unnið með því að koma henni á hvíta tjaldið. Mér finnst því rétt að taka það fram strax áður en lengra er haldið: Bókin, sem ekki átti að vera hægt að kvikmynda, er nú ekki bara orðin ein af bestu „sci-fi“-myndum sögunnar heldur tvær(!) af bestu „sci-fi“-myndum sögunnar.

Handrit Villeneuves fyrir fyrri myndina, sem kom út árið 2021, er eitt besta dæmið um það hvernig eigi að „sýna en ekki segja“ hlutina. Villeneuve náði þar að forðast margar af þeim gildrum sem gerðu mynd Davids Lynch svo afkáralega. Villeneuve sneiddi til dæmis alfarið hjá því að sýna „Siglingafræðingana“, en það eru útúrdópaðir geimskipstjórar sem hafa notað kryddið svo mikið að þeir eru orðnir að afmynduðum ósköpnuðum.

En fyrri myndin sýndi bara hálfa söguna og skildi söguhetjur okkar, Paul Atreides og Jessicu móður, hans eftir í eyðimörkinni í fylgd með Fremennum, frumbyggjum Arrakis, sem einnig hafa glímt við Harkonnen-ættina vondu. Seinni hlutinn sýnir okkur því hvernig Paul kemur aftur undir sig fótunum og nær fram hefndum.

Það er ljóst frá fyrstu römmum seinni hlutans að Villeneuve ætlar sér að gera betur en í fyrri hlutanum, sem þó var mjög góður. Hann býr því til sjónræna veislu, þar sem hvert stórfenglega atriðið rekur annað undir magnaðri eyðimerkurtónlist Hans Zimmers og stórfenglegir sandormar og glæsileg geimskip liðast lipurlega yfir skjáinn.

Einn helsti hápunktur myndarinnar er svo um miðbik hennar, þegar Villeneuve fer með okkur til Giedi Prime, heimaplánetu Harkonnen-ættarinnar, en þar er sólin svört. Til að líkja eftir því hefur Villeneuve kvikmyndað þau atriði með innrauðri linsu, sem tekur allan lit úr myndinni og gefur plánetunni þar með nánast djöfullegan blæ, sem passar við Harkonnen-ættina.

Umbreyting í andhetju

Allar þessar flottu umbúðir væru til lítils ef leikarar myndarinnar kæmu innihaldinu ekki til skila, en sem betur fer er hér valinn maður í hverju rúmi.

Timothée Chalamet á skilið sérstakt hrós fyrir leik sinn sem Paul „Muad Dib“ Atreides. Paul ber þá byrði að spádómar Fremenna segja að hann sé hinn útvaldi, Lisan al-Gaib, en Paul hefur einnig séð framtíðina fyrir og veit sem er að þeir spádómar enda bara á einn veg, í heilögu stríði þar sem milljarðar manns munu farast í nafni Atreides-ættarinnar.

Hann reynir því allt hvað hann getur til þess að forðast að þeir verði að veruleika. En enginn má sköpum renna og þegar Paul hefur „sæst“ við hlutverk sitt sem „Messías“ þeirra Fremenna verður hann að allt öðrum manni. Chalamet umbreytist sjálfur í hlutverkinu og gefur áhorfandanum gæsahúð sem trúarleiðtoginn sem stýrir söfnuði sínum í átt að stríði og hörmungum.

Einnig ber að hrósa Austin Butler (Elvis), sem stígur nú í fótspor Stings úr mynd Davids Lynch sem Feyd-Rautha Harkonnen, ríkisarfi Harkonnen-ættarinnar. Butler eignar sér hlutverkið algjörlega og Feyd-Rautha verður í meðförum hans að svæsnu illmenni og „sósíópata“, nokkuð sem Sting réð alls ekki við í Lynch-myndinni. Má líkast til helst gagnrýna Villeneuve fyrir að hafa ekki kynnt okkur fyrir Feyd-Rautha mun fyrr.

Raunar gæti ég tekið nánast alla leikara myndarinnar fyrir og hrósað þeim. Ekki er hallað á neinn þó að Javier Bardem sé sérstaklega nefndur, en hann leikur Stilgar, einn af leiðtogum Fremenna, sem trúir heitt á Paul. Það er nánast tragíkómískt að sjá þá umbreytingu sem verður á Stilgar þegar hann breytist úr stóískum leiðtoga og verður að öfgamanni, sem lítur á allt sem Paul gerir sem kraftaverk. Til samanburðar má líta á Chani, sem Zendaya leikur, en í bók Herberts er hún viljug frilla Pauls, en Zendaya sýnir þá innri togstreitu sem Chani glímir við þegar ástmaður hennar breytist í öfgamann.

Hér helst því allt saman í hendur og gerir Dune: Part Two að einni af bestu myndum ársins til þessa. Handrit, kvikmyndataka, tæknibrellur og tónlist gera Arrakis að öðru og meiru en bara enn einni sandplánetunni á hvíta tjaldinu.

Þeir sem fóru á fyrri myndina og sáu ekkert nema „þrútna sandsperðla“ ættu því líklega að halda sig víðsfjarri. Unnendur fyrri myndarinnar geta hins vegar glaðst mjög, því að það sem Villeneuve ber hér á borð er ekkert annað en sjónræn veisla fyrir þá sem elska vísindaskáldskap.

„Púristar“ sem elska bókaflokkinn munu mögulega ekki sætta sig við þær breytingar sem Villeneuve hefur gert á hinni „helgu bók“ Herberts. Villeneuve til varnar fullyrði ég að breytingar hans gera bókina aðgengilega fyrir allan þorra almennings. Þeir sem hafa lesið bækurnar fá í raun fyllri mynd af því sem er að gerast á skjánum, án þess að aðrir missi af einhverju mikilvægu.

Dune-myndir Villeneuves munu því að mínu mati lifa um langa framtíð sem dæmi um hvernig eigi að gera hlutina rétt, þegar vísindaskáldskapur er annars vegar.