Grindavík Mörg hús eru skemmd.
Grindavík Mörg hús eru skemmd. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteigna hjá HMS, segir að síðasta haust hafi sérfræðingar HMS byrjað að leita að eignum í Grindavík og nágrenni þar sem brunabótamat var af einhverjum ástæðum of lágt. Ástæðan geti m.a. verið sú að fólk hafi aukið byggingarmagn en ekki óskað eftir endurmati.

„Þannig að við vorum byrjuð á þessari vinnu áður en fyrsta eldgosið og stóri jarðskjálftinn varð við Grindavík. Strax í kjölfar jarðskjálftans höfum við fengið endurmatsbeiðnir í hverri viku. Meðalafgreiðslutími endurmatsbeiðna á fyrrgreindu tímabili frá 1. nóvember til dagsins í dag hefur verið 17 dagar eða rúmar tvær vikur. Eðli málsins samkvæmt hefur lengst í afgreiðslutímanum síðastliðnar vikur eða frá því að athyglin fór að beinast að brunabótamati sem stofni bótafjárhæðar.

Að meðaltali þrjár vikur

Sé horft á tímabilið frá því að frumvarpið um uppkaup eigna í Grindavík var kynnt hefur meðalafgreiðslutími verið þrjár vikur. Nú erum við að gefa út fjórar vikur sem áætlaðan afgreiðslutíma. Athuga ber að gríðarleg fjölgun hefur verið á endurmatsbeiðnum alls staðar af landinu í kjölfar umfjöllunar um mikilvægi brunabótamats. Nú eru um 156 óafgreiddar endurmatsbeiðnir varðandi Grindavík. Þar af tæplega hundrað sem falla undir uppkaup Þórkötlu.“

Hversu mikið er brunabótamatið að breytast að meðaltali í milljónum?

„Verðmæti eigna er að breytast mismikið og miklar breytingar á einstökum eignum lyfta meðaltalinu upp. Miðgildi breytinganna er hins vegar um sjö milljónir króna. Reynslan af Grindavík kennir okkur að eignir eru mikið til vanskráðar og að húseigendur eru ekki nægjanlega upplýstir um að sækja um endurmat brunabótamats þegar þeir fara í veigamiklar endurbætur á húsnæði sínu,“ segir Tryggvi Már.

Um 550 umsóknir

Fasteignafélaginu Þórkötlu hafa borist um 550 umsóknir um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu, segir félagið stefna að því að vera komið langt með að afgreiða umsóknirnar í lok apríl.

Ásdís Ósk Valsdóttir, löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls fasteignasölu, segir tafir á uppkaupum ríkisins á fasteignum í Grindavík hafa tafið gerð kaupsamninga.

„Margir Grindvíkingar eru að kaupa og því hanga margar keðjur á Grindvíkingum. Þannig að við getum ekki klárað kaupsamningana fyrr en Þórkatla kaupir,“ segir Ásdís Ósk.

Munu þessar tafir skapa uppsafnaðan fjölda kaupsamninga þegar stíflan brestur?

„Já. Og þá má eiga von á háum tölum yfir fjölda kaupsamninga,“ segir Ásdís Ósk. Mikil læti séu á markaðnum og hröð sala. baldura@mbl.is