Gígaröðin Nokkuð myndarlegir gígar hafa myndast undanfarna daga og er sá hæsti á við fjögurra til fimm hæða hús.
Gígaröðin Nokkuð myndarlegir gígar hafa myndast undanfarna daga og er sá hæsti á við fjögurra til fimm hæða hús. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hæsti gígurinn í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni mælist nú um 20 metra hár. Stendur hæsti punktur gígsins í um 155 metra hæð yfir sjávarmáli. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, var við mælingar á Sundhnúkagígaröðinni í gær

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Hæsti gígurinn í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni mælist nú um 20 metra hár. Stendur hæsti punktur gígsins í um 155 metra hæð yfir sjávarmáli. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, var við mælingar á Sundhnúkagígaröðinni í gær.

„Það er mjög svipuð hæð á þessum gíg og hæsta gígnum við Litla-Hrút áður en hann brast,“ segir Ármann í samtali við Morgunblaðið. Þrír gígar virðast virkir við fyrstu sýn.

„Það sem er merkilegt að sjá er að það rennur úr stóra gígnum ofan í gíginn við hliðina á. Það er bara gat ofan í hann,“ segir Ármann. Mun lægri staða er í minni gígunum, jafnvel þótt slettur standi upp úr öðrum þeirra. „Við sáum það svo sem líka í Geldingadölum,“ segir Ármann.

Hraun rennur áfram í hrauná til suðurs frá gígunum að mestu ofan á hraunbreiðunni sem myndaðist á fyrstu dögum gossins.

Ekki langt í goslok

Eldgosið hófst 16. mars og hefur því staðið yfir í að verða 12 daga. Hefur það staðið óvenjulega lengi yfir til samanburðar við fyrri þrjú gosin á Sundhnúkagígaröðinni. Ármann telur það munu lognast út af yfir páskahelgina þótt ekki séu enn merki um að eldgosinu sé að ljúka. „Kvikan verður alltaf þyngri og þyngri og nú er gasið farið að stíga hraðar upp,“ segir Ármann.

Mikill strókur var yfir eldgosinu í gær og sást langar leiðir. Segir Ármann það aðallega vera gufu sem sést svo langt að, ekki gas, því að kalt var í lofti í gær og heiðskírt.

Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en mun hægar en það hefur gert fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi. Lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.