Þjálfarinn Óskar Bjarni segist spenntur fyrir komandi leik gegn Steaua Búkarest á laugardagskvöld.
Þjálfarinn Óskar Bjarni segist spenntur fyrir komandi leik gegn Steaua Búkarest á laugardagskvöld. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum þakklátir fyrir að vera í þessari stöðu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á Hlíðarenda í gær. Valur fær rúmenska liðið Steaua Búkarest í heimsókn í Valsheimilið í átta liða úrslitum Evrópubikarsins á laugardaginn

Handbolti

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

„Við erum þakklátir fyrir að vera í þessari stöðu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á Hlíðarenda í gær.

Valur fær rúmenska liðið Steaua Búkarest í heimsókn í Valsheimilið í átta liða úrslitum Evrópubikarsins á laugardaginn. Valsmenn unnu sterkan útisigur í fyrri leik liðanna í Rúmeníu, 36:35, á sunnudaginn og eru því með eins marks forystu fyrir leikinn á Hlíðarenda.

Óskar Bjarni er spenntur fyrir komandi verkefni og er sáttur við eins marks forystuna. Hann tekur þó fram að margt þurfi að bæta í leik sinna manna.

„Stemmningin er góð. Sigurinn úti var mikilvægur fyrir okkur. Byrjunin var góð og við hefðum í raun og veru viljað vera fimm eða sex mörkum yfir í fyrri hálfleik. Eins og seinni hálfleikurinn þróaðist erum við þó sáttir við að vera yfir í einvíginu.

Við erum allir mjög spenntir fyrir þessum leik á laugardaginn. Undanúrslitin bíða okkar. Við komumst þangað árið 2017 og mættum einmitt rúmensku liði, Potaissa Turda, þá þar sem mér fannst við vera dæmdir úr leik, en við erum mjög þakklátir og í raun auðmjúkir yfir því að vera í þessari stöðu,“ sagði Óskar Bjarni.

Verðum að spila betur

Þrátt fyrir að hafa misst forskotið mestmegnis niður í seinni hálfleik telur Óskar það geta verið jákvætt því að það sé auðvelt að missa einbeitinguna ef munurinn er mikill.

„Það getur verið fínt fyrir okkur að vera ekki með nokkurra marka forystu, það heldur mönnum á tánum. Við í Val verðum að sýna góða frammistöðu á laugardaginn. Við verðum að spila miklu betur en við gerðum í seinni hálfleik úti. Þeir hlupu mun meira en við bjuggumst við, miðað við stærð og þyngd.

Þeir voru eiginlega með furðulega mikið af tæknifeilum sem við lifðum á í fyrri hálfleik. Ef þeir koma út agaðri og spila leikinn eins og hann þróaðist í seinni hálfleik erum við í vandræðum. Við höfum verið í sveiflum í þessum leikjum og þurfum því góða frammistöðu og fólkið með okkur til að mynda alvöru stemmningu.“

Óskar Bjarni fór yfir andstæðingana frá Rúmeníu sem lítið er vitað um. Þjálfarinn talaði um að liðið væri ekta austantjaldslið eins og við hefðum fengið að kynnast hjá landsliðum Austur-Evrópulanda.

„Þeir eru stórir og þungir og með sterka línumenn. Annar þeirra er landsliðsmaður Svartfjallalands og hinn er landsliðsmaður Írans. Þeir eru með sterkan markmann sem er góður að verja úr dauðafærum mótherjans.

Liðið hefur þó verið í vandræðum í allan vetur og alltaf með tvo til þrjá leikmenn meidda.

Gegn okkur spilaði til dæmis leikmaður sem við höfðum aldrei séð áður. Þess vegna er búið að vera örlítið erfitt að greina þá. Við erum með helling af efni og leikjum en það hafa alltaf verið mismunandi leikmenn fjarverandi. Þetta er stór og breiður hópur af sterkum leikmönnum. Þeir eru góðir og við verðum að fá að spila okkar leik. Um leið og við missum það sem einkennir okkar leik lendum við í vandræðum.“

Valsliðið fór mikinn í Evrópudeildinni í fyrra sem er mun sterkari en Evrópubikarinn, þar sem liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum eftir tap gegn þýska stórliðinu Göppingen. Mikil stemmning myndaðist í kringum leiki Vals í Evrópudeildinni og vonast Valsarar til þess að það sama verði uppi á teningnum á laugardaginn.

„Umgjörðin í fyrra var frábær og sú keppni var stórkostleg. Hvernig félagið nálgaðist hana var til fyrirmyndar. Eitt íslenskt félag á að vera í þeirri keppni á hverju ári. Það gefur íslenskum handbolta svo mikið.

Það er meiri möguleiki á að komast lengra í þessari keppni sem við erum í núna. Þessi umgjörð og sú stemmning sem myndaðist í fyrra er eitthvað sem við verðum að taka með okkur inn í leikinn gegn Steaua Búkarest, eitthvað sem íslenskur handbolti þarf að fá inn.“

Hver keppni hefur sinn sjarma

Spurður hver væri helsti munurinn á Evrópukeppni og hefðbundinni deildarkeppni sagði Óskar:

„Í þessum Evrópuleikjum mætum við leikmönnum sem við höfum ekki mætt áður. Þú veist ekki alveg við hverju er að búast, sem er öðruvísi en hér heima. Þó þú sért búinn að klippa og sjá þá verða leikirnir alltaf aðeins öðruvísi sem er skemmtilegt. Deildin hér heima er líka öðruvísi heldur en bikarinn og loks úrslitakeppnin. Það er gaman að vera að keppa á öllum vígstöðvum því hver keppni hefur sitt líf.

Það er erfitt prógramm í kringum þetta líka. Við mætum Gróttu í kvöld sem verður hörkuleikur en erum að tala um annan leik hér, sem er ekki eftirlæti þjálfarans. Hið klassíska „einn leik í einu“ á alltaf við en nú á morgun er skírdagur og svo föstudagurinn langi. Þess vegna verðum við að hafa blaðamannafundinn í dag. Til að stuðla að virðingu allra sem þurfa að fá sitt frí á skírdag og á föstudaginn langa, svo er kominn leikdagur á laugardaginn. Við verðum því að vinna í kringum þetta allt saman.

Það stefnir í hörkuleik gegn Gróttu í kvöld, Grótta er lið sem er að berjast um sæti i úrslitakeppninni og mun leggja allt í sölurnar. Það er mikið af leikjum núna, sem er skemmtilegt.“ Valur og Grótta áttust við í gærkvöldi en nánari umfjöllun um þann leik má nálgast á mbl.is.

Er markmiðið svo að vinna keppnina?

„Við byrjum á laugardeginum en auðvitað er stefnan sett á það. Þetta er tíundi Evrópuleikurinn okkar í vetur og við erum komnir í átta liða úrslit og eigum möguleika á því að komast í undanúrslitin. Ef allir eru heilir og spila vel þá stefnum við eins langt og hægt er. Þó byrjum við á laugardeginum,“ bætti Óskar Bjarni við í samtali við Morgunblaðið.