Passía eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur verður frumflutt á tónleikum í Breiðholtskirkju á morgun, föstudaginn langa, kl. 17. „Passía er samin fyrir blandaðan kór, fjóra einsöngvara, fjóra hljóðfæraleikara og lesara

Passía eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur verður frumflutt á tónleikum í Breiðholtskirkju á morgun, föstudaginn langa, kl. 17. „Passía er samin fyrir blandaðan kór, fjóra einsöngvara, fjóra hljóðfæraleikara og lesara. Í verkinu, sem tekur rúma klukkustund í flutningi, er píslarsagan sögð með einstökum hætti. Völdum erindum úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar er fléttað saman við frásagnir guðspjallanna sem greina frá atburðum föstudagsins langa,“ segir í viðburðarkynningu. Einsöngvarar eru Ásta Sigríður Arnardóttir og Bergþóra Linda Ægisdóttir sem fara með hlutverk guðspjallamanna, Áslákur Ingvarsson sem syngur Pílatus og Hafsteinn Þórólfsson sem syngur hlutverk Jesú. Guðný Einarsdóttir leikur á orgel, Össur Ingi Jónsson á enskt horn, Katrin Heymann á þverflautu og Óskar Guðjónsson á saxófón. Kór Breiðholtskirkju syngur. Stjórnandi flutningsins og lesari er Örn Magnússon. Aðgangur er ókeypis.