Fjölbýli ON fagnar því að frelsi ríki á hleðslumarkaðnum.
Fjölbýli ON fagnar því að frelsi ríki á hleðslumarkaðnum. — Morgunblaðið/Hari
Orka náttúrunnar, ON, ætlar ekki að kæra ákvörðun raforkueftirlits Orkustofnunar (ROE) til úrskurðarnefndar raforkumála. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær var það niðurstaða ROE að ON hefði brotið 18

Orka náttúrunnar, ON, ætlar ekki að kæra ákvörðun raforkueftirlits Orkustofnunar (ROE) til úrskurðarnefndar raforkumála. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær var það niðurstaða ROE að ON hefði brotið 18. grein raforkulaga með því að selja raforku fyrir aðra notkun en á hleðslustöðvum í fjöleignarhúsi.

ON var einnig brotlegt í sama tilviki gegn ákvæði reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar „með því að fara út fyrir heimildir þjónustuveitanda raforku“.

Í svari ON til Morgunblaðsins kemur fram að umrætt fyrirkomulag í fjöleignarhúsum sé á 19 stöðum. Unnið hafi verið að því að taka þennan búnað út, og nýjar slíkar stöðvar ekki verið settar upp síðan 2021. Þær hafi verið barn síns tíma. Áætlar ON að stöðvarnar fari út fyrir sumarlok, í samráði við viðkomandi húsfélög.

„Í okkar huga er hins vegar stóra fréttin sú, og fagnaðarefni um leið, að það sé mat Orkustofnunar að atvinnufrelsi ríki á hleðslumarkaði sem verndað sé af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Engar hömlur hafa verið settar á markaðnum og starfsemi á honum því heimil öllum að því gefnu að virt sé tilkynningarskylda til Orkustofnunar og að virt séu ákvæði raforkulaga um samkeppni. ON er því heimilt að starfa á markaðnum eins og öðrum og það þrátt fyrir að vera líka raforkusali með söluleyfi samkvæmt raforkulögum.

ON er meðvitað um mikilvægi þess að samkeppni uppfylli áskilnað bæði raforkulaga og samkeppnislaga og gætir þess í hvívetna að svo sé, til að mynda með því að setja sér samkeppnisstefnu og samkeppnisréttaráætlun sem eru leiðarljós í störfum félagsins og starfsfólks þess á samkeppnismarkaði,“ segir í svari ON til blaðsins.