Sjálfstæðismaður Sveinn Benediktsson fylgdi föður sínum í Framsóknarflokkinn, en átti illa heima þar.
Sjálfstæðismaður Sveinn Benediktsson fylgdi föður sínum í Framsóknarflokkinn, en átti illa heima þar. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt neitaði að skrifa undir Jónasarplaggið Benedikt Sveinsson gekk til liðs við Framsóknarflokkinn árið 1927. Hann taldi það ráðlegt þar sem annars hefði hann átt það á hættu að tapa miklu fylgi í kjördæmi sínu

Benedikt neitaði að skrifa undir Jónasarplaggið

Benedikt Sveinsson gekk til liðs við Framsóknarflokkinn árið 1927. Hann taldi það ráðlegt þar sem annars hefði hann átt það á hættu að tapa miklu fylgi í kjördæmi sínu. Hann var ekki tryggur flokksmaður og rakst raunar illa í Framsókn. Synir hans, Sveinn og Bjarni, munu hafa unnið fyrir Framsókn í bæjarstjórnarkosningunum í Reykavík í ársbyrjun 1930 þegar Hermann Jónasson var efstur á lista flokksins. Báðir voru þeir mjög óánægðir með störf Knuds Zimsen borgarstjóra og má vera að það hafi ráðið afstöðu þeirra frekar en stuðningur við stefnu Framsóknarflokksins og Hermann Jónasson. Hermann var raunar óskrifað blað á þessum árum; sjálfstæðismenn höfðu gengið á eftir honum með grasið í skónum, en eins og Ólafur Thors sagði: „Jónas var búinn að tala við hann.“

Líklega hefur Tryggvi forsætisráðherra skipað Svein í verksmiðjustjórnina vegna þekkingar hans á síldarútveginum og til þess að útgerðarmönnum þætti þeir eiga málsvara í stjórninni. Tryggvi hefur talið að Sveinn væri að minnsta kosti ekki andstæðingur Framsóknarflokksins en það virðist hafa verið almenn skoðun um þessar mundir. Sósíalistar hafa þau orð um Svein að hann sé „vikapiltur ríkisstjórnarinnar í síldarverksmiðjustjórninni“. Viðhorf Sveins til Framsóknar áttu eftir að gjörbreytast – fyrir tilstilli Jónasar Jónssonar frá Hriflu.

Benedikt Sveinsson var enginn samherji Jónasar þótt heita ætti að þeir væru í sama flokki. Benedikt setti sig oft á móti skoðunum og fyrirætlunum Jónasar, líkt og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins. Ýfingar ágerðust eftir því sem leið á ráðherratíð Jónasar og náðu hámarki eftir að Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi og svili Benedikts, kvaðst telja ráðherrann veikan á geði. Jónas svaraði með því að leysa Helga frá störfum og hugðist fá alla þingmenn Framsóknarflokksins og marga fleiri til þess að skrifa undir stuðningsskjal við sig og fordæmingu á Helga. Dag einn hélt Jónas upp á Skólavörðustíg í þeim tilgangi að fá Benedikt til að skrifa upp á skjalið. Benedikt tók á móti honum og bauð honum til stofu.

Þar settust þeir niður gegnt hvor öðrum. Ráðherrann, hataður af mörgum og undir grun virts læknis um að vera ekki heill á geði, og alþingisforsetinn, enginn veifiskati, og meinilla við gestinn. Það andaði köldu milli þeirra. Þeir tóku tal saman. Jónas bar strax upp erindið og Benedikt svaraði að bragði að hann myndi ekki skrifa undir þetta plagg. Þeir þæfðu þetta fram og aftur og Jónas varð stöðugt æstari. Benedikt sagði nei og aftur nei. Jónas rauk upp úr stólnum og það lá við að það hrikti í timburhúsinu. Jónas hvíldi síðan á öðru hnénu fyrir framan Benedikt og steytti hnefann framan í hann. Benedikt hélt ró sinni. Ráðherrann strunsaði síðan út og gekk í þungum þönkum niður Skólavörðustíginn.

Framsóknarmönnum sveið framkoma foringja síns

Jónas var þekktur fyrir allt annað en að fyrirgefa andstæðingum sínum. Það sannaðist líka í þessu tilfelli. Hann var ákveðinn í því að ná sér niðri á Benedikt og það svo um munaði. Benedikt lýsti samskiptum sínum við Jónas í bréfum til Péturs, sonar síns, sem fluttur var til útlanda. Er sagt frá bréfunum í bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Pétur Benediktsson. Í hinu fyrra segir Benedikt að hann hafi farið norður í Þingeyjarsýslu til þess að vera fulltrúi stjórnvalda við vígslu brúar yfir Hafralónsá. Þar gaf Björn Kristjánsson kaupfélagsstjóri á Kópaskeri sig að honum og greindi frá því að Jónas heimtaði að hann færi í framboð á móti Benedikt í næstu kosningum. „Má og vel skilja það í sjálfu sér, ef maður setur sig í hans spor, með hans sjónarmið í Helga-máli, þar sem hann getur ekki treyst mér sem sínum fylgismanni, þótt ég hafi leitt það mál hjá mér, eins og ég sagði Birni. Kvað Björn sér hafa liðið mjög illa „síðan í sumar“ út af þessu „erindi“, sem Jónas hefði fengið honum,“ skrifaði Benedikt í bréfinu.

Í seinna bréfinu segir Benedikt að Jónas hafi kallað hann á sinn fund í Stjórnarráðinu þar sem hann tróð illsakir við hann út af „Helga-málinu“ og sagði að Norður-Þingeyingar væru sínir menn og hvorki þeir né hann gætu sætt sig við að hafa annan þingmann framvegis en þann sem fylgdi sér í þessu máli. Bölsótaðist Jónas yfir því að Pétur sonur Benedikts hefði skrifað af hatri um sig í Vísi – fyrir því hefði hann fullar sannanir úr prentsmiðju blaðsins. Kvaðst hann ætla að láta koma niður hefnd á þér fyrir þetta. Síðan sagði:

„Jónas átaldi Benedikt jafnframt fyrir að hafa ekki fylgt sér í einu og öllu á þingi og myndi hann ekki aðeins beita sér fyrir því að Björn á Kópaskeri byði sig fram í næstu kosningum fyrir Framsóknarflokkinn í Norður-Þingeyjarsýslu, heldur að Jörundur Brynjólfsson yrði kjörinn forseti neðri deildar á næsta þingi. Sagðist hann vilja hraða afgreiðslu þingmála og Benedikt væri ekki nógu harður þingforseti.“

Jónas fékk því ráðið að Björn Kristjánsson bauð sig fram á móti Benedikt í Norður-Þingeyjarsýslu í kosingunum sumarið 1931. Björn var frændi Benedikts. Hann bar svipmót Víkingavatnsættarinnar, mikill héraðshöfðingi „og hefur án efa gengið hálfnauðugur til þess leiks, að bjóða sig fram á móti Benedikt, sem var okkar flokksmaður og hefur sennilega þurft að leggja fast að honum til þess,“ segir Bernharð Stefánsson í endurminningum sínum. Svo fóru leikar í kosningunum að Björn fékk 344 atkvæði og Benedikt 254 og féll þar með af þingi. Bóndi einn í kjördæminu sagði síðar: „En það heyrði ég talað, að margir kjósendur hefðu setið heima og ekki kosið vegna þess, að þeir treystu sér ekki til að gjöra upp á milli frambjóðendanna, sem báðir voru vinsælir og mætir menn.“

Framsóknarmönnum líkaði flestum illa hvernig Jónas kom fram við Benedikt. Ekki aðeins var þeim vel við hann heldur réð köld rökhyggja líka, eins og Steingrímur Steinþórsson rifjaði síðar upp: „Þetta frumhlaup Jónasar varð til þess að spyrna öllu fólki Benedikts frá Framsóknarflokknum, en áður voru synir hans mjög nærri okkar flokki. Ég tel að Jónas hafi þarna gert eitt sitt mesta asnaspark, því að sennilega hefði verið hægt að tryggja þá Benediktssyni, ef ekki hefði á þennan hátt verið sparkað í föður þeirra.“

Björn á Löngumýri var á sama máli: „Ég frétti það eftir Bjarna Benediktssyni, að öll fjölskylda hans hefði kosið Framsóknarflokkinn, þegar faðir hans bauð sig fram fyrir hann, en stutt Sjálfstæðisflokkinn eftir það. Þeir bræður Pétur og Sveinn og Bjarni líka, gátu aldrei fyrirgefið Jónasi, að hann skyldi koma föður þeirra af þingi; þeir hötuðu hann fyrir það, og Guðrún ekki minna en synir hennar.“ Víst má þó telja að skapferli þeirra feðga og trú þeirra á frjálst framtak og frelsi hefði leitt þá að Sjálfstæðisflokknum þótt þetta hefði ekki komið til.

Jónasi fannst það sjálfsagt einhver friðþæging fyrir sig vegna aðfarar að Benedikt að hann skipaði Benedikt bókavörð við Landsbókasafnið. Og alltaf birtir upp um síðir og sár gróa. Árið 1950 komu Jónas og Guðrún, kona hans, í heimsókn á Skólavörðustíginn og var vel tekið. Á áttræðisafmæli Jónasar frá Hriflu árið 1965 sendi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gamla manninum heillaskeyti, þar sem Jónas dvaldist í Oxford á Englandi: „Heill þér áttræðum. Þakkir fyrir hlutdeild í mörgum framfaramálum.“

Sveinn Benediktsson gerðist sjálfstæðismaður. Það lá raunar beint við. Í þann flokk skipuðu sér margir útgerðar- og athafnamenn og grunnhugmyndir flokksins um frelsi einstaklingsins og að honum yrði skapað olnbogarými féllu vel að hugmyndum Sveins. Og hann gat sannarlega tekið undir með forystumönnum flokksins í viðhorfum þeirra til Jónasar Jónssonar sem Ólafur Thors kallaði „djöfulóðan óþokka“ í hita leiksins.