Áform Ný viðbygging við íþróttamiðstöðina verður um 700 fermetrar.
Áform Ný viðbygging við íþróttamiðstöðina verður um 700 fermetrar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við bindum vonir við að þetta verði lyftistöng fyrir svæðið,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps. Sveitarfélagið hefur óskað eftir tilboðum í byggingu 700 fermetra viðbyggingar við íþróttamiðstöðina á Borg í Grímsnesi

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við bindum vonir við að þetta verði lyftistöng fyrir svæðið,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.

Sveitarfélagið hefur óskað eftir tilboðum í byggingu 700 fermetra viðbyggingar við íþróttamiðstöðina á Borg í Grímsnesi. Viðbyggingin verður á tveimur hæðum og er langþráð viðbót við íþróttahúsið, að sögn sveitarstjórans. Á neðri hæðinni á að vera fullkomin líkamsræktaraðstaða; tækjasalur, hlaupabretti og jógasalur svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt verður hægt að opna út og færa æfingarnar þangað þegar vel viðrar. „Líkamsræktaraðstaðan í dag er mjög lítil. Það geta eiginlega bara tveir verið að æfa í einu með góðu móti. Sundlaugin okkar er gríðarlega vinsæl og þessi viðbót verður eflaust kærkomin fyrir íbúa og sumarhúsaeigendur. Við erum með 3.300 sumarhús í nágrenninu og í þeim dvelur fólk sem vill gjarnan teygja úr sér,“ segir Iða Marsibil.

Á efri hæð viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir skrifstofuhúsnæði. Jarðvegsvinna fer af stað á næstu vikum, að sögn sveitarstjórans, og byggingin gæti verið fullbúin á næstu 2-3 árum. Þá eru uppi hugmyndir um að bæta enn frekar hina vinsælu sundlaug. Segir Iða Marsibil að peningar hafi verið eyrnamerktir í hönnun á útisvæði laugarinnar og vinna við þær hugmyndir fari bráðlega í gang.

Fjöldi íbúða verður byggður

Þessar framkvæmdir haldast í hendur við fyrirhugaða húsnæðisuppbyggingu á Borg, að sögn sveitarstjórans. „Við erum að fara í gríðarlega stórt verkefni í úthlutun lóða. Þetta verður eins konar framlenging á þorpinu og þarna komum við fyrir í allt á þriðja hundrað íbúðum. Auk þess erum við að skipuleggja verslunar- og þjónustusvæði þar sem verður til að mynda stórt plan með hleðslustöðvum og hótel. Við vonumst til að fleira fólk sjái sér hag í að koma til okkar í sveitina.“