[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það væri mikilvægt að smitast ekki af bölsýninni vegna þess að „bölsýni gerir þig óvirkan“.

Tveimur árum eftir upphaf allsherjarinnrásar í Úkraínu 24. febrúar 2022 sit ég í næturlest á leið landshorna á milli og skrifa hjá mér punkta til að koma skikki á hugsanir mínar fyrir þessa grein.

Serhí er látinn. Irína grætur. Það er í lagi með Mílu.

Ha ha! Hann er í sólbaði! (Hann er dáinn.)

Fram undan er 24 klukkustunda ferðalag þannig að það er nægur tími til að hugsa. En hvar á að byrja? Í fyrstu finnst mér eins og það sé erfitt að sjá samhengi í þessu öllu. Úkraínumenn sárvantar stórskotaliðssprengjur sem bandamenn þeirra lofuðu að afhenda, en samt er víglínan meira eða minna á sama stað og í lok árs 2022. Þó eru sumir sannfærðir um að Rússar séu við það að brjótast í gegn og ná undir sig mun meira landi. Tilfinningarnar eru í rússíbana og á hinum ólíku vígstöðvunum gerast hlutirnir á mismunandi hraða. Úkraínumenn eru undir miklum þrýstingi á landi. Á Svartahafi hafa Úkraínumenn hrakið Rússa til baka. Þeim hefur tekist að rjúfa sjóherkví Rússa á útflutningi þeirra á korni. Erfitt er að átta sig á hver er með yfirhöndina í netstríðinu þar sem báðir aðilar takast hart á um að stela upplýsingum og gera innviði óvinarins óvirka. Hvorugur talar um ósigra nema þeir blasi við og ekki sé hægt að fela þá.

Fyrir tveimur árum var Kænugarði bjargað með sprengjuvörpum, sem menn báru á öxlum sér til að granda skriðdrekum. Síðan þá hafa langdræg sprengjukerfi og stórskotaliðskerfi gerbreytt vígvellinum. Nú snýst kapphlaupið um að sjá til þess að Úkraína hafi næg skotfæri og sérstaklega gamaldags stórskotaliðssprengjur. En Úkraínumenn eru líka í vígbúnaðarkapphlaupi við Rússa um dróna, í rafhernaði og um búnað til að trufla stýringuna á drónum. Á öllum þessum sviðum er þróunin geigvænlega hröð og hlutfall hermanna sem falla eða særast vegna dróna miðað við stórskotaliðsárásir hækkar mjög hratt. Á undanförnum vikum hafa Úkraínumenn gert árásir með drónum á rússneskar olíuhreinsunarstöðvar sem eru allt að 800 km frá landamærum Úkraínu. Það er nýtt.

Þegar við erum í miðju stríði er erfitt að reyna að hnýta þessa ólíku þætti saman og komast að niðurstöðu sem skiptir máli. Ekki síst vegna þess að frá fyrsta degi hafa sérfræðingarnir og einnig almenningur í Úkraínu ávallt haft rangt fyrir sér.

Nú er bölsýni dagskipunin. Það er ekki að ástæðulausu, en við höfum verið þar áður. Vikurnar áður en Rússar gerðu árás skrifaði ég um hvað fáir Úkraínumenn gætu fengið sig til að trúa að Vladimír Pútín ætlaði í raun og veru að gera allsherjarárás. Margir sérfræðingar efuðust líka um að hann myndi gera það. Þeir sögðu að vígvæðingin á landamærunum væri látalæti. Á daginn kom að Pútín vildi og vill enn eyðileggja Úkraínu sem ríki og endurheimta það sem hann lítur á sem rússneskt land. 4. mars flutti Dimitrí Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og núverandi varaformaður öryggisráðs landsins, sem Pútín veitir forsæti, fyrirlestur fyrir framan landakort þar sem sjá mátti örlitla Úkraínu framtíðarinnar með Kænugarð í miðjunni. Afganginn hafði Rússland gleypt í sig og hlutar af vesturhlutanum farið til Póllands, Ungverjalands og Rúmeníu. „Einn af fyrrverandi leiðtogum Úkraínu sagði einhvern tímann að Úkraína væri ekki Rússland,“ sagði Medvedev. „Sú hugmynd þarf að hverfa fyrir fullt og allt. Það er engin spurning að Úkraína er Rússland. Sögulegir hlutar landsins verða að koma aftur heim.“

Þegar árásin hófst 2022 var mál þeirra, sem gerst vissu, þar með talið vitaskuld Pútíns, að Úkraína myndi falla á nokkrum dögum. Ekki var nóg með að hún féll ekki, heldur höfðu Rússar í lok árs verið hraktir til baka frá Kænugarði, Kerson og stórum landflæmum í norðri í kringum Karkív. Þessi árangur og ósigrar Rússa urðu til þess að pendúlar tilfinninga og skoðana sveifluðust í átt að öfgafullri bjartsýni. Nú drógu sérfræðingar og fréttastofur línur á kort sem sýndu hvernig væntanleg sumarsókn Úkraínu að Asóvshafi myndi kljúfa heri Rússa og sigra þá. Úkraínumenn fóru að segja við vini sína að næst þegar þeir sæjust myndu þeir drekka kaffi í Krím, sem Rússar hernámu og innlimuðu í Rússland árið 2014. Þeir voru sannfærðir um að sigur, sem var skilgreindur sem endurheimt yfirráða Úkraínu yfir öllu sínu landi innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra, væri innan seilingar.

Vandinn var sá að þótt aðstoðin, sem Úkraína þurfti á að halda fyrir sóknina, bærist var það of lítið og of seint. Þess utan sólunduðu Rússar ekki tímanum eftir Karkív-sóknina. Þeir reistu voldugar varnarlínur, sem reyndist ógerningur að rjúfa. Rúmlega 100.000 úkraínskir hermenn hafa verið sendir til NATO-landa í herþjálfun, en algengt er að það heyrist að mikið af því sem þeir læra sé gagnslaust því að reynslu kennara þeirra frá Írak og Afganistan sé ekki hægt að yfirfæra á nútímaskotgrafahernað; hvernig eigi að fást við mörg hundruð kílómetra jarðsprengjusvæði og kljást við óvin sem er tæknilega vel búinn og getur séð til þín nánast allan sólarhringinn og þú getur séð líka á víglínunni, þökk sé drónum. Og nú þegar gagnsóknin hefur brugðist, aðeins tókst að ná nokkrum þorpum og Rússar eru komnir í sína eigin gagnsókn hefur baráttuandinn í Úkraínu hrapað. Einnig eru margir erlendir greinendur komnir í undanhaldsham sem mest þeir mega og draga upp eins dökka mynd og þeir geta.

Fánaberi úkraínskra bóka

Mig langaði til að heimsækja margt af því fólki sem ég hef skrifað um áður. Ég rakti slóð mína eftir austur- og suðurvígstöðvunum og hitti margt nýtt fólk. Þar á meðal var Oleksí Erintsjak. 16. febrúar opnaði hann stóra, nýja bókabúð, sem heitir Sens, á Krestsjatík, breiðgötunni glæsilegu í Kænugarði. Það er augljóslega merki um að menn séu vongóðir þegar þeir fjárfesta í stríði. Hann talaði um hvers vegna, jafnvel þótt hann væri af rússneskumælandi fjölskyldu og kæmi frá rússneskumælandi bæ, hann hefði viljað að búðin yrði fánaberi úkraínskra bóka. „Til þessa höfum við lifað í rússneskri bólu,“ sagði hann, vegna þess að úkraínskri menningu hefði alltaf verið ýtt til hliðar og litið niður á hana. Á neðri hæðinni sat fólk og las og vann fyrir framan nútímalega bókastanda og á þeirri efri var enn verið að smíða aðstöðu fyrir fyrirlestra og viðburði.

Á miðju gólfi á ókláraðri efri hæðinni rak ég augun í stóra tækjakistu með áletrun á ensku á hliðinni: „Allt er upplýst.“ Ég hafði nýlesið samnefnda skáldsögu Jonathans Safrans Foers (Everything Is Illuminated) frá 2002 og hún gerist í Úkraínu. Ég spurði því Erintsjak hvort þetta væri bókmenntabrandari. Hann sagðist aldrei hafa heyrt um skáldsöguna og hafa ályktað að þetta stæði þarna út af „einhverju í sambandi við lýsingu“. Við höfðum upp á rafvirkjanum, sem sagðist enga hugmynd hafa um hvað þetta snerist, og yfirmaður hans var ekki á staðnum. Erintsjak sýndi mér þá að verið væri að gera við veggina. Hann sagði að utan frá litu þessar byggingar frá Sovéttímanum glæsilega út, en í raun væru þær hrákasmíði. Ég hefði getað notað þetta til að búa til líkingu um vígstöðvarnar, en lét það ógert. En ég hugsaði „já, einmitt!“ þegar hann svaraði spurningu minni um baráttuhugann og núverandi andrúmsloft bölsýni. Hann sagðist hvorki drekka áfengi né kaffi og ekki neyta sykurs og bætti við: „Ég er ekki með dópamíntoppa í lífi mínu!“ Hann sagðist hafa lesið bækur um síðari heimsstyrjöld og hafa áttað sig á að víglínan hreyfðist „vegna þess að það er stríð“ og „við getum ekki alltaf unnið og við getum ekki alltaf tapað“. Hann kvaðst sannfærður um að Úkraína myndi sigra að lokum og þess vegna væri nauðsynlegt að hann gerði sitt með því að opna bókabúð, sem myndi hjálpa við að koma úkraínskri menningu á framfæri. Þannig legði hann sitt af mörkum við að skapa skilning á að hún væri hluti af evrópskri menningu, en ekki eitthvað „austrænt“.

Stríð vinnast ekki með sjúkrastarfi

Þar með er ekki sagt að afskrifa eigi slæmar fréttir. Þær eru alvarlegt mál. 17. febrúar féll litli bærinn Avdívka í austrinu. Þetta var fyrsti mikilvægi staðurinn sem Rússar náðu á sitt vald síðan þeir tóku Bakmút í maí í fyrra. Avdívka liggur rétt handan Dónetsk, sem Rússar og handbendi þeirra tóku 2014. Avdívka er líka hluti af oblastinu eða héraðinu Donetsk, einu þeirra fjögurra sem Pútín innlimaði í Rússneska ríkjasambandið 2022. Avdívka stendur hátt og var umkringd svæði undir yfirráðum Rússa á þrjá vegu. Hún var rækilega víggirt og þótt vitað hefði verið vikum saman hvað væri í vændum var fall hennar samt áfall sem hafði áhrif í byggðarlögunum meðfram allri austurvíglínunni og um Úkraínu alla. Í huga hinna svartsýnu markaði fallið rof á molnandi víglínu og nú myndu hjarðir rússneskra vígamanna streyma í gegnum hana. Ródíon Kúdrjasjov, varayfirmaður þriðju áhlaupssveitar, tók í annan streng. Hann hafði farið fyrir mönnum sínum þegar þeir hörfuðu frá bænum og hefur barist við Rússa í áratug. „Við höfum tapað lítilli orrustu, en við höfum ekki tapað stríðinu,“ sagði hann.

Í fyrrasumar sendi ég fréttir frá Kúpíansk, sem Rússar tóku á sitt vald í febrúar 2022, misstu í september 2022 og voru nú að reyna að ná aftur á sitt vald. Síðan fór ég með kollega yfir ána Oskil, sem væri náttúruleg varnarlína ef þeir næðu svo langt, en vegna sprengjuregns komumst við ekki lengra. Nú ókum við í gegnum litla bæinn Petropavlívka, sem lagður hefur verið í rúst, og handan hans sáum við gaddavírslengjur, jarðsprengjusvæði og steyptar skriðdrekagildrur, sem kallast drekatennur, teygja sig langt út í buskann. Eftir að gagnsóknin brást segja Úkraínumenn að þeir beiti nú „strategískri vörn“. Ég hugsa að það sem þeir hafa komið upp hér og eru að koma upp meðfram allri víglínunni sé spegilmynd af nánast órjúfanlegum varnarlínum, sem Rússar hafa komið upp nokkra kílómetra í burtu og dugðu til að hrinda sókn Úkraínumanna í fyrrasumar. Í fjarska heyrðust látlausar drunur frá sprengjum stórskotaliðanna. Í sprengjubyrgjum, sem höfðu verið grafin niður í jörðina og treyst með trjábolum og umvafin þykkri, seigfljótandi leðju, kvörtuðu hermenn undan þreytu og skotfæraskorti. Hermaður með kallmerkið Tíhí sagði mér að hann væri frá Lúhansk-héraði, sem nú er undir yfirráðum Rússa og þar sem kona hans og börn byggju enn. Hann bætti við að það væri alls ekki ólíklegt að 19 ára gamall sonur hans hefði verið kallaður til vopna og væri nokkra kílómetra í burtu í rússneska hernum.

Þegar við fórum til baka í gegnum Kúpíansk fórum við að skoða leifar af brú, sem hafði verið hróflað upp við hliðina á einni af helstu brúm bæjarins, sem hafði verið sprengd í loft upp í upphafi innrásarinnar fyrir tveimur árum. Ég vildi sjá staðinn þar sem Serhí Sjalihín hafði fallið fyrir sprengju 19. september í fyrra, 52 ára gamall. Hann var einn af stofnendum Pjatikatkí-Bam, hjálparsveitar með aðsetur rétt fyrir utan Karkív. Hann var með félaga sínum í litlum sendibíl. Konurnar tvær, sem þeir höfðu verið að sækja, létu lífið ásamt tveimur öðrum sem þeir höfðu tekið upp í bílinn á leiðinni og félaga hans. Tína Pírosjenkó, sem hafði verið sambýliskona hans í átta ár, ók í bíl á eftir þeim. Ég hafði verið á ferðinni með Sjalihín, skeggjuðum og kátum, og Pjatikatkí-Bam í tvo daga þegar ég skrifaði um þau í lok árs 2022.

Áður en ég sneri aftur til Kúpíansk hitti ég Pírosjenkó og móður Sjalihíns við höfuðstöðvar sveitarinnar fyrir utan Karkív. Þær sögðust ekki vilja tala um hann, þær kæmust í of mikið uppnám. Í horni í herberginu er lítið skrín, sem þær gerðu til að minnast hans. Þar eru tvær myndir af honum. Á annarri er hann í einkennisbúningi, en hinni borgaralega klæddur og heldur umhyggjusamlega utan um Pírosjenkó, sem er í rauðum kjól, og fyrir framan þau stendur móðir hans. Fyrir framan myndirnar eru tvö minningarkerti, snafsastaup og við hlið borða með fánalitum Úkraínu Snickers-súkkulaði. Pírosjenkó sagði að fólk væri dapurt og niðurdregið. Hin tékkneska Alice Mirovská hefur verið sjálfboðaliði hjá Pjatikatkí-Bam stóran hluta síðustu tveggja ára. Ef til vill var það af því að hún er útlendingur, en hún bætti við nokkrum atriðum sem Úkraínumönnum gæti þótt vandræðalegt að nefna við erlendan blaðamann. Hún sagði að það væri vaxandi spenna „milli þeirra sem eru að gera eitthvað“ fyrir landið og „þeirra sem halda bara áfram að lifa sínu lífi“. Hinir fyrrnefndu eru reiðir út í hina síðarnefndu. „Mörgum Úkraínumönnum er skítsama,“ sagði hún. Hún er ekki eina manneskjan sem ég hef talað við undanfarið og hefur nefnt spennu af þessum toga. „Fólk á ekki peninga og þetta virðist engan enda ætla að taka,“ sagði hún.

Árið 2022 voru höfuðstöðvar og geymslur Pjatikatkí-Bam yfirfullar af stæðum af aðstoð fyrir óbreytta borgara sem voru á hrakhólum eða í mikilli neyð vegna þess að vistir náðu ekki til þeirra. Nú var minna um það og meira af gögnum fyrir hermenn. Það voru raðir af litlum stálofnum fyrir byrgi og niðursuðudósum með heimagerðum kertum úr vaxi og pappa sem gefa ekki bara frá sér ljós heldur einnig hita og kössum með kúlulegum. Þær eru ætlaðar í sprengjur, sem eru látnar falla úr drónum og eiga að valda manntjóni.

Seinna þegar við vorum að aka suður frá Kúpíansk fylgdi okkur sprengjugnýr frá víglínunni í fjarska. Landið er flatt og skógi vaxið og heyra má stórskotahríðina í allt að 40 kílómetra fjarlægð. Um nóttina þegar ég og kollegi minn ókum þrönga krókaleið eftir skógarvegi til að komast að bráðabirgðabrú að næturstað okkar sáum við herfarartæki á ferð í skjóli myrkurs. Á miðjum vegi var hermaður á fjórhjóli og virtist hafa sofnað. Dádýr stökk yfir veg rétt hjá. Þar sem enginn vill lenda í því að skjóta á veiðimenn á ferli í misgripum fyrir Rússa eða að Rússar geti reynt að villa á sér heimildir sem veiðimenn hafa veiðar verið meira eða minna bannaðar frá því að allsherjarinnrásin var gerð. Fyrir vikið hefur dádýrum snarfjölgað ásamt refum, villisvínum og öðrum villtum dýrum og fuglum.

Pokrovsk er 45 kílómetra norður af Avdívka. Þar var allt fullt af hermönnum sem höfðu hörfað þaðan. Sumir höfðu komið sér fyrir á smekkfullum pitsastað sem heitir Corleone. Þegar ég spurði þá hvort þeir væru niðurbrotnir eftir fall Avdívka sögðu þeir það sama og hermenn, sem ég hafði talað við annars staðar. Allir væru að einbeita sér að sínum verkefnum, samherjum sínum, því svæði sem þeir væru að verja og yfirmönnum sínum. Ef þeir treystu honum til að hætta ekki lífi þeirra að óþörfu og treystu honum til að taka skynsamlegar ákvarðanir réði það mestu um baráttuandann. Vitaskuld var enginn þeirra ánægður með að Avdívka skyldi hafa fallið, en enginn, sem ég ræddi við, sá eftir að hafa hörfað. Þeir sögðu að það hefði verið ábyrgðarleysi að berjast áfram. Það hefði verið tilgangslaus sóun á mannslífum eins og í Bakmút þar sem þúsundir manna féllu áður en borgin féll. Þeir sögðu að sú staðreynd að Bandaríkin og fleiri lönd hefðu látið undir höfuð leggjast að senda skotfærin, sem þeir hefðu þurft, hefði verið ein helsta ástæðan fyrir missi Avdívka, en ekki sú eina. Rússar hefðu lagt allt kapp á að ná borginni. Drónastjórnandi sagði mér að hann hefði horft á rússneska hermenn reyna að hlaupa yfir opið landsvæði og aðeins helmingurinn hefði komist yfir á lífi. Þeir hefðu hlaupið tveir og tveir saman til að vera ekki auðvelt skotmark fyrir stórskotalið, en margir þeirra hefðu fallið í árásum dróna í staðinn. Rússarnir vörpuðu líka ótrúlega öflugum og skaðlegum svifsprengjum sem hægt er að láta falla úr flugvélum í margra tuga kílómetra fjarlægð utan seilingar úkraínskra loftvarna. Engin furða að Volodimír Selenskí forseti Úkraínu grátbæði um fleiri Patriot-loftvarnarkerfi á blaðamannafundi nokkrum dögum síðar í Kænugarði.

Í öðrum bæ varð á vegi mínum Míla Makaróva, sem ég hafði líka skrifað um áður. Árið 2022 var hún sjúkraliði nærri vígstöðvunum. Nú stjórnaði hún flutningum særðra á sjúkrastöð, sem er fyrsti viðkomustaður þeirra áður en þeir eru sendir á sjúkrahús. Hún sagði að ég yrði að koma að næturlagi því að það væri venjulega rólegt yfir daginn. Ástæðan væri sú að sjúkraflutningar frá vígstöðvunum færu fram í skjóli myrkurs. Þetta kvöld þegar ég var á staðnum var komið með þá fyrstu um klukkan hálftíu. Flestir voru með heilahristing eftir sprengingar eða sár eftir sprengjubrot. Enginn var í lífshættu. Hún kynnti mig fyrir starfsfélögum sínum, þar á meðal Andrí Semíankív, sem er svæfingarlæknir og yfir stöðinni. Hún sagði að hann væri „þekktur rithöfundur“, nokkuð sem ég meðtók ekki þegar hún sagði það.

Þau sögðu mér frá vaxandi vandamáli. Nú væru á milli 30-40% sára af völdum dróna, en fyrir hálfu ári hefði varla nokkur særst af þeirra völdum. Hér áður fyrr þegar einhver særðist hefðu félagar hans getað sótt hann og komið í skjól og síðan hefði verið hægt að koma honum burt í bíl. Nú biðu stjórnendur drónanna, sem í það minnsta á meðan dagsbirtu nýtur sjá allt sem gerist hinum megin víglínunnar, þar til reynt væri að bjarga særðum mönnum og létu þá til skarar skríða. Þannig gætu þeir fellt fleiri í einni atlögu. Fyrir vikið tæki lengri tíma að koma hinum særðu undan og það þýddi að fleiri létu lífið því að hjálp gæti ekki borist nógu hratt. Þess vegna færu björgunarleiðangrar aðallega fram á nóttunni. Rússarnir byggju reyndar yfir drónum sem næmu hita og gætu greint fólk í myrkrinu, en þeir ættu mun færri slíka en venjulega dróna, sem ekki byggju yfir þessari tækni. Læknir á annarri sjúkrastöð sagði mér að helmingur særðra hefði orðið fyrir árásum dróna.

Við vorum í stórri byggingu og það hafði verið neglt fyrir gluggana. Að utan barst aðeins örlítil ljósglæta. Makaróva hamraði á því að ég mætti ekki segja hvar sjúkrastöðin væri því að Rússarnir væru að reyna að ná þeim. Mér fannst þetta bera keim af ofsóknarkennd. Það er enginn vafi á að ég hafði rangt fyrir mér. Viku síðar var gerð hrikaleg sprengjuárás á bæinn ásamt öðrum bæjum í austrinu og önnur árás nokkrum dögum síðar. Ég sagði Makaróvu og kollegum hennar að þau væru að vinna ótrúlegt starf og gætu borið höfuðið hátt. En hún svaraði að það væri „ekki nóg. Sama hvað við stöndum okkur vel, stríð vinnast ekki með sjúkrastarfi.“

Þegar árásirnar voru gerðar var ég kominn aftur til Kænugarðs og fór að safna saman í pakka hlutum til að senda henni. Þegar ég var að taka viðtalið við Erintsjak í nýju bókabúðinni við Krestsjatík-götu, spurði ég hvort hann gæti mælt með bók til að senda henni. Hann spurði mig um Makaróvu og sagði svo að „henni gæti líkað þessi bók“. Dansað með beinum er ein mest selda skáldsagan í búðinni hans. Hún er eftir Semjankív, starfsfélaga Makaróvu. Þegar við hittumst spurði ég hann hvort hann væri að skrifa eitthvað og hann svaraði að svo væri ekki, hann ætti nóg með að einbeita sér að starfinu í sjúkrastöðinni. Þar fær hann hins vegar örugglega meiri efnivið en flestir núlifandi rithöfundar geta átt von á að fá í sinn hlut.

Svona talaði enginn fyrir tveimur árum

Á suðurvígstöðvunum eru Rússar að reyna að ná aftur Robótín, einum af fáum stöðum sem tókst að endurheimta í gagnsókninni í fyrrasumar. Vörninni er stjórnað frá Orikív, litlum bæ rétt þar fyrir norðan. Hver einasta bygging í bænum hefur verið skemmd eða eyðilögð og hann hefur á sér yfirbragð draugabæjar. Yfirmaður þriðju herdeildar þjóðvarðliðanna, sem er með kallmerkið Foringinn, sat í kjallara í blokk fyrir framan skjái þar sem mátti sjá beint streymi frá eftirlitsdrónum. Nokkrir samherjar hans voru einnig límdir við skjái. Í einu streyminu lá Rússi á bakinu við gíg eftir sprengju. Hann var látinn, en þeir höfðu í flimtingum að hann væri sólbaði. Skyndilega tók annar hermaður á rás milli tveggja bíla og við fylgdumst með þegar árásardróni með sprengju flaug yfir honum og lét sprengjuna falla. Stórt flygildi, sem getur borið 15 kíló af sprengjum, stóð úti í horni. „Rússarnir kalla hann „Baba Jaga“,“ sagði Foringinn. Baba Jaga er nafn á norn í slavneskum þjóðsögum. Fyrir tveimur árum hefði verið ógerningur að segja til um hve hratt eðli stríðsrekstursins hér myndi breytast.

Nú býr úkraínski herinn við tilfinnanlegan skort á skotfærum, en herforingjarnir, sem ég talaði við, sögðu að þetta þýddi að þeir yrðu að velja sér skotmörk af mikilli vandvirkni. Rússar gætu hins vegar valið stórt svæði og einfaldlega látið sprengjunum rigna yfir það. Stór ástæða fyrir því að Úkraínumenn vantar sprengjur er að Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa staðið í vegi fyrir að 60 milljarða dollara pakki með aðstoð til Úkraínu færi í gegnum þingið. Á sama tíma hafa Evrópuríki aðeins útvegað helming þess sem þau höfðu lofað, en Tékkar hafa á síðustu vikum haft upp á 800 þúsund sprengjum víða um heim, sem hægt væri að kaupa handa Úkraínu. Nú er hafið kapphlaup við tímann um að kaupa þær og koma á vígstöðvarnar áður en Rússum tekst að láta kné fylgja kviði eftir fall Avdívka. Sprengjur eru hins vegar ekki eina vandamálið.

Á fyrstu mánuðum stríðsins gengu tugþúsundir manna í herinn til að berjast við Rússa, en nú er þessi ákafi horfinn og þótt milljón manna (og þar á meðal eru líka konur) séu undir vopnum, er það ekki nóg. Of margir þurfa að vera of lengi á vígstöðvunum án þess að vera leystir af og aftan víglínunnar eru farnar að heyrast spurningar sem aldrei hefði verið spurt fyrir tveimur árum. „Hér er enn svo mikil spilling,“ sagði Kíríló sjómaður, sem hafði verið í landi í heimabæ sínum Dnípró þegar allsherjarinnrásin hófst og gat því ekki farið aftur á sjóinn þar sem flestum körlum á aldrinum 18 til 60 ára var bannað að fara úr landi. Hann sagði að þetta þýddi ekki að hann vildi ekki að Úkraína sigraði, en ef og þegar hann yrði kvaddur í herinn, yrði hann ekki sérlega áfjáður í að ganga til orrustu.

Í Dnípró sagði mér líka leigubílstjóri að hann væri hermaður, sem hefði barist í Bakmút, en væri nú á skrifstofu hjá hernum. Hann kvartaði undan því að fá illa borgað og þess vegna keyrði hann leigubíl þegar hann væri ekki í vinnunni. Ég sagði þá að hermenn á víglínunni fengju 3.000 dollara á mánuði, sem væru mjög há laun á mælikvarða Úkraínu. „Já, en kannski bara í viku og þá er allt búið hjá þeim,“ svaraði hann.

Kunningi, sem vinnur í almannatengslum og vildi ekki láta nafns síns getið, sagði að honum „gæti ekki staðið meira á sama um Donbas“, sem er megnið af austurhluta Úkraínu. Hann óttaðist að vera kvaddur í herinn vegna þess að þjálfunin væri léleg, það væri engin leið að vita hversu lengi herkvaðningin stæði og það væru of margir lélegir foringjar sem hæglega gætu sent mann út í opinn dauðann. Svo væri skorturinn á skotfærum farinn að draga baráttuandann jafnvel enn meira niður. Svona talaði enginn fyrir tveimur árum.

Í iðnaðarbænum Saporísja hitti ég Irínu, sem er 67 ára og bað mig að gefa ekki upp eftirnafn sitt. Hún stjórnar teymi sem sér um dreifingu fyrir matarfyrirtæki. Fyrirtækið er með sínar eigin verslanir og sér einnig sjúkrahúsum á staðnum fyrir birgðum. Yfirvöld færast undan þegar spurt er um mannfall í hernum, en eftir því sem stríðið dregst á langinn er ljóst að ekki er heldur látið uppi manntjón í röðum almennra borgara. Vinur minn sagði mér sögu, sem ég gat ekki fengið staðfesta. Hann sagði að skammt frá vinnustað hans hefði fallið sprengja á verksmiðju sem framleiddi gögn fyrir herinn og talið væri að tugir manna hefðu dáið. Engar fréttir birtust um þessi dauðsföll. Mér var sagt að það sama ætti við í Rússlandi þar sem færist í vöxt að Úkraínumenn geri árásir. Irína sagði mér að þótt það væri „grófur mælikvarði“ vissi hún að eitthvað verulega slæmt hefði gerst þegar spítalar pöntuðu skyndilega „helmingi meira af kartöflum, 200 kg í staðinn fyrir 100 kg“. Ótti hefur gripið um sig í Saporísja eftir fall Avdívka, að hennar sögn. Rússar innlimuðu Saporísja-hérað í september 2022 og eru með 70% héraðsins á sínu valdi þannig að höfuðborgin, þar sem helmingur íbúa héraðsins býr og mikið af iðnaðarframleiðslu þess er að finna, er ábyggilega í sigtinu hjá Pútín. Eftir fall Avdívka, sagði hún, „hef ég bannað fólkinu á skrifstofunni hjá mér að tala um fréttirnar. Ef þau byrja á því geta þau ekki einbeitt sér og allur dagurinn er farinn í súginn.“

Á félagsmiðlum ganga alls kyns kvittir sem grafa undan baráttuþrekinu og lítill vafi er á að Rússar eigi alla vega þátt í að breiða þá út. „Ég átta mig á að þeir geta skipulagt útbreiðslu þessara skilaboða,“ sagði hún, „en ég veit að fullt af fólki gerir það ekki.“ Síðan sýndi hún mér frétt á Telegram um að tólf almennir borgarar, þar á meðal fimm börn, hefðu fallið tveimur dögum áður í Odesa. Af tvö þúsund manns, sem höfðu brugðist við með einhverjum hætti, höfðu rúmlega tvö hundruð smellt á tilfinningatáknin hjarta, broskarl eða þumal upp í loftið. Auðvitað gæti verið að þarna hefðu verið að verki menn í Rússlandi eða fólk að vinna á rússnesku nettröllabýli eða þess vegna í Perú, ef út í það er farið, en þetta hefðu líka getað verið nágrannar. Hún brast í grát. Það er ekkert síður hluti af hernaðaraðferðum Rússa að brjóta fólk niður og grafa undan vilja þess til að veita mótspyrnu, en að varpa stöðugt sprengjum á vígstöðvarnar, bæi við þær og borgir um alla Úkraínu. Þremur vikum síðar gerðu Rússar árás á vatnsorkuverið í Saporísja. Stíflan þar er einnig fyrir umferð yfir ána Dnépr og tengir saman borgarhlutana.

„Aðeins þeir sem gerðu eitthvað lifðu af“

Þrátt fyrir efnahagsþvinganir hefur efnahagur Rússa ekki hrunið. Þar er hagkerfið nú rekið á stríðsgrunni og í landinu er ekkert pólitískt afl til að leggjast gegn því að fórna tugum þúsunda manna á vígvöllum Úkraínu. Samkvæmt rússneskum og úkraínskum heimildum féllu 16-17.000 Rússar á fimm mánuðum í tilraun þeirra til að ná Avdívka. Milli 1979 og 1988 misstu Sovétmenn 15.000 menn í misheppnaðri tilraun sinni til að koma Afgönum á kné.

Jevhen Hlíbovitskí, sem leiðir hugveituna Frontier Institute, sagði að þrátt fyrir að erfið staða blasti við sæi hann engin merki þess að Úkraínumenn myndu brotna eða samþykkja að láta undan þrýstingi um að semja við Rússa um að gefa eftir landsvæði, sem þegar væri í þeirra höndum, fyrir frið. Hann sagði að það væri „engin krafa“ um þetta vegna þess að það væri ljóst að það myndi aðeins gefa Rússum tíma „til að vígvæðast að nýju og halda áfram“. Vandinn væri að hans mati að þótt vestræn ríki vildu ekki að Rússar ynnu sigur óttuðust þau einnig afleiðingarnar af ósigri þeirra og því fengju Úkraínumenn ekki „skilvirk tól“ til að tryggja sér sigur. Hann sagði að í millitíðinni hefðu „Úkraínumenn lagað sig að og héldu áfram að laga sig að langvarandi stríði“. Það væri mikilvægt að smitast ekki af bölsýninni vegna þess að „bölsýni gerir þig óvirkan“.

Míkola Kaptíonenkó, sem kennir alþjóðasamskipti við Taras Sevsjenkó-háskóla í Kænugarði, segir að stóri munurinn á hugarfarinu núna og fyrir tveimur árum sé að Úkraínumenn séu ekki jafn tilfinninganæmir í mati sínu á stríðinu og mun raunsærri. Hann hafi minni áhyggjur af því að Rússar vinni mikinn sigur á vígstöðvunum en þeirri einföldu staðreynd að þeir hafi á að skipa fleiri mönnum sem vilji og geti barist en Úkraína. Nú eru úkraínskir þingmenn að ræða ný lög um herkvaðningu, sem gæti haft í för með sér að allt að hálf milljón manna yrði kvödd í herinn. Hann segir að þá muni Úkraínumenn „sitja uppi með sama vanda á næsta ári og árið eftir það og ég sé engar langtímaáætlanir“. Hann segir að í heimi nútímans séu stríð ófyrirsjáanleg og það geti verið erfitt fyrir mun öflugra herveldi að bera sigurorð af veikari andstæðingi. Þar sem Rússar séu hins vegar að laga sig að því að stríðið geti orðið langvinnt verði „mjög erfitt fyrir okkur að hafa betur til lengri tíma litið og knýja fram sigur eftir okkar höfði“. Þar á hann við að endurheimta allt land sem Úkraína hefur misst síðan 2014.

Það getur verið. En eins og Kapítonenkó segir eru stríð ófyrirsjáanleg. Fyrir tveimur árum var Dmítro Lisoví framkvæmdastjóri hjá Samsung og Júrí Ganúsjak hjólreiðaþjálfari með drónakappflug að áhugamáli. Í fyrra stofnuðu þeir fyrirtæki og fóru að framleiða rafhlöður fyrir dróna og kerfi til að trufla fjarstýringu á drónum. Í hverjum mánuði eru tugir þúsunda dróna ýmist smíðaðir í Úkraínu eða fluttir inn. Þýðir það að drónar, hvort sem þeir eru notaðir til eftirlits, til að varpa sprengjum eða einfaldlega sem sprengjur, hafi dregið úr mikilvægi stórskotaliðs? Á verkstæði þeirra í Kænugarði þar sem hópur manna sat og lóðaði og setti saman rafhlöður fyrir dróna var viðkvæðið að þeir gætu ekki komið í stað stórskotaliðs, en verið mikilvæg viðbót.

Þar skipta mestu drónar búnir myndsendingarbúnaði þannig að stjórnendur þeirra gætu eins verið um borð í þeim. „Þeir hjálpa okkur að komast af meðan á sprengjuskortinum stendur,“ sagði Lisoví. Tvímenningarnir skiptast nú á upplýsingum við fyrirtæki sem eru að þróa gervigreindarkerfi til að verjast rafhernaðarkerfum sem geta sent árásardróna af leið sekúndubroti áður en hann hittir í mark. Þegar ég nefndi að bölsýni væri farin að grafa um sig svaraði Ganúsjak: „Við erum hvorki bjartsýnismenn né bölsýnismenn. Við erum bara að vinna okkar starf. Við gerum það sem við getum. Þetta er eins og saga úr Auschwitz. Hinir fyrstu til að gefast upp voru hinir bjartsýnu, síðan hinir bölsýnu. Aðeins þeir sem gerðu eitthvað lifðu af.“

Tim Judah er höfundur bókarinnar In Wartime: Stories from Ukraine. Judah hefur verið í Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst. Útgáfa af þessari grein birtist fyrst undir fyrirsögninni Gloom in Ukraine í The New York Review of Books, © 2024 Tim Judah.

Höf.: Texti og ljósmyndir: Tim Judah