Neytendur Forstjóri Stjörnugríss segir mistök hafa valdið merkingunni.
Neytendur Forstjóri Stjörnugríss segir mistök hafa valdið merkingunni. — Morgunblaðið/Kristinn
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is „Þetta voru mistök í framleiðslunni. Mönnum yfirsást þetta og þeir brugðust strax við,“ segir Geir Gunnar Geirsson forstjóri Stjörnugríss spurður út í stjórnvaldssekt sem Neytendastofa lagði á fyrirtækið og mbl.is greindi frá á skírdag.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Þetta voru mistök í framleiðslunni. Mönnum yfirsást þetta og þeir brugðust strax við,“ segir Geir Gunnar Geirsson forstjóri Stjörnugríss spurður út í stjórnvaldssekt sem Neytendastofa lagði á fyrirtækið og mbl.is greindi frá á skírdag.

Sektin nam 500 þúsund krónum og var tilefni hennar merking umbúða fyrir grísarif, sem voru flutt inn frá Þýskalandi, með íslenskum fánaröndum. Neytendastofa hafði áður tekið ákvörðun um að Stjörnugrís væri óheimilt að merkja umbúðir fyrir Smassborgara með þessum hætti, í júní síðastliðnum.

Geir segir að ekki sé verið að reyna að svindla eða villa um fyrir neytendum. Upprunaland varanna sé tilgreint á umbúðunum þrátt fyrir að íslenskar fánarendur hafi verið þar sömuleiðis.

Hann segir að búið sé að taka fánarendurnar af umbúðunum en að þær hafi óvart verið notaðar.

Í rökstuðningi til Neytendastofu lýsir Stjörnugrís því að fyrirtækið verði að kaupa erlent grísakjöt til að uppfylla kröfur kaupenda en að það sé einungis brot af framleiðslu fyrirtækisins. Ekki nokkur starfsmaður Stjörnugríss hafði tekið eftir mistökum við merkingu grísarifjanna fyrr en Neytendastofa benti á það.

Fyrirtæki verði að vanda sig

„Það er alveg glatað að neytendur skuli vera blekktir. Það er forsenda upplýstra ákvarðana að upplýsingar séu réttar,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í samtali við Morgunblaðið.

„Það er líka alveg glatað að fyrirtæki skuli ekki einu sinni, heldur ítrekað, merkja vörur sínar ranglega og gefa það í skyn að vörur sem eru erlendar séu íslenskar.“

Spurður hvort mál af þessum toga séu algeng kveðst hann ekki hafa forsendur til að meta það. „Ég held að vandvirk fyrirtæki geri ekki svona.“

Aðspurður segist Breki trúa því að um mistök sé að ræða ef uppákomur af þessu tagi gerist einu sinni. „En þegar þetta gerist svona ítrekað þá lítur þetta út fyrir að vera einbeittur brotavilji.“

„Fyrirtæki verða að vanda sig þegar þau veita neytendum upplýsingar.“

Höf.: Kári Freyr Kristinsson