Áfram kraumaði í Sundhnúkagígaröð, skammt frá Grindavík, en það kraumaði svo sem víðar í þjóðfélaginu, þó ekki mætti nú jafna því við neinar náttúruhamfarir.
Áfram kraumaði í Sundhnúkagígaröð, skammt frá Grindavík, en það kraumaði svo sem víðar í þjóðfélaginu, þó ekki mætti nú jafna því við neinar náttúruhamfarir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vorboðarnir eru farnir að koma til landsins einn af öðrum og til marks um það kom lóan í Garðinn suður með sjó undir liðna helgi. Eldvirknin við Sundhnúkagíga breyttist, þannig að hún var að mestu bundin við 1-2 gíga og ýmis merki þess að draga færi úr gosinu

23.3.-29.3.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Vorboðarnir eru farnir að koma til landsins einn af öðrum og til marks um það kom lóan í Garðinn suður með sjó undir liðna helgi.

Eldvirknin við Sundhnúkagíga breyttist, þannig að hún var að mestu bundin við 1-2 gíga og ýmis merki þess að draga færi úr gosinu.

Bankaráð Landsbankans svaraði bréfi Bankasýslunnar án þess að nokkuð nýtt kæmi fram. Spurningum um skuldbindandi tilboð bankans í TM tryggingar var svarað með svörum um annað tilboð.

Fasteignagjöld í landinu hafa að jafnaði hækkað um 12,7% á liðnu ári.

Umhverfisráðherra lýsti sig andvígan innleiðingu á Evróputilskipun um skólphreinsun. „Ekki á minni vakt,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, sem telur 100-160 milljarða króna fráveitu fráleita.

Enginn má raska ró Alþingis en Birgir Ármannsson forseti Alþingis á í reglulegum samskiptum við lögregluna vegna óspekta Palestínuvina við þinghúsið.

Kjósverjar höfðu betur í langvinnri deilu við Íslandspóst og póstáritunin þangað verður héðan í frá 276 Kjós en ekki 276 Mosfellsbær. Byggðastofnun úrskurðaði en fæstir Mosfellingar botna í málinu.

Úlfar Snæfjörð Axelsson, kaupmaður og lengi fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði, dó 83 ára.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu segjast merkja nokkra fækkun ferðamanna fyrstu fimm mánuði ársins, þó bókanir fyrir sumarið séu svipaðar og fyrr. Verðlagi á Íslandi er þar m.a. kennt um.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði fögnuðu hins vegar breytingum á búvörulögum, sem þau segja gefa mikla möguleika til hagræðingar fyrir milljarða króna.

Þrátt fyrir vorboðana alla var veturinn ekki fyrir bí. Sums staðar snjóaði ögn en meira bar á fallegu vetrarveðri, sem margir notuðu til skíða.

Ríkisendurskoðandi var gagnrýndur fyrir að hafa aðstoðað Íslandspóst við kostnaðarútreikninga til þess að féfletta skattgreiðendur, en nú eigi hann að leggja mat á eigin útreikninga.

Til stendur að auka íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ verulega á næstu árum og eru um 3.500 íbúðir á teikniborðinu nú þegar.

Sveitarstjórn Ölfuss gagnrýndi sveitarstjórnina í Hveragerði harðlega fyrir frumhlaup um stofnframkvæmdir við leikskóla, sem sveitarfélögin eiga og reka saman.

Efnt verður til sveitarstjórnarkosninga í nýsameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar hinn 4. maí.

Þó loðna hafi ekki fundist við landið fyrir vertíð virðist sem hvalur vaði í loðnu undan Snæfellsnesi. Hún verður ekki veidd, en á hinn bóginn kann þorskstofninn að njóta hennar.

Matvælastofnun stöðvaði þjálfun hesta fyrir sjónvarpsþáttagerð Baltasars Kormáks vegna illrar meðferðar hrossanna.

Lögregla hafði af tilviljun hendur í hári ungs manns frá Póllandi, sem eftirlýstur er af Interpol.

Vorboðarnir komu áfram, en á Hólmavaði í Aðaldal bar ærin Hvönn lambhrútnum Depli, fyrstu lamba í ár.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hélt til Wroclaw í Póllandi til þess að etja kappi við Úkraínumenn. Um 500 íslenskir forsetaframbjóðendur fylgdu liðinu utan.

Í sama mund var greint frá því að Ísland myndi veita Úkraínu hernaðaraðstoð með framlagi til kaupa á stórskotum og búnaði fyrir kvenhermenn.

Skjálftahrina í Öskju er enn ein vísibendingin um að þar kunni að draga til tíðinda, en eldfjallafræðingar segja að þar komi eldgos fyrr eða síðar, mögulega sprengigos.

Áhugi erlendra ferðamanna á þyrluflugi yfir gosstöðvar hefur aukist mikið og hafa þyrluþjónustur ekki undan að sýna útlendingunum undrin.

Í öðrum flugfréttum er að öðrum en fuglum verður bannað að fljúga undir 3.500 fetum við Látrabjarg.

Strætó bs. fær að jafnaði tíu athugasemdir frá almenningi á dag, flestar vegna framkomu vagnstjóra eða aksturslags.

Landlæknir er gagnrýndur fyrir að fara ekki að útboðsskyldu vegna hugbúnaðarkerfa á hans snúrum.

Endurkoma Svandísar Svavarsdóttur úr veikindaleyfi á Alþingi var óvænt boðuð eftir páska, en það reyndist mega rekja til sjálfvirkra mistaka hjá þinginu.

Íslendingar töpuðu naumlega fyrir Úkraínumönnum í undankeppni fyrir Evrópumótið í fótbolta karla. Forsetaframbjóðendur þar lýstu margir djúpstæðum áhyggjum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sagði aftur á móti að hann hefði fengið fjölda áskorana um að hætta við að hætta. Hann myndi þó ekki gera það „nema afar ríkar ástæður séu til“.

Íslandsbanki hyggst gefa starfsmönnum sínum 70 milljónir króna í sumargjöf, sem virðist hugsað sem framlag til launaskriðs á vinnumarkaði.

Lögregla gerði hins vegar víðtæka leit að mönnum sem stálu 20-30 milljónum króna úr peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar við Hamraborg í Kópavogi. Bíllinn var mannlaus en ekki peningalaus og með handhægar rúður sem þjófarnir brutu.

Vörubílstjóri úr annarri vídd ók á fullri ferð með pallinn uppi og tók niður umferðarmerkjabrú á Kringlumýrarbraut skammt frá gatnamótum við Miklubraut.

Orka náttúrunnar (ON) braut lög þegar hún seldi raforku í fjölbýlishús til annars en hún er ætluð.

Landsbankinn vill ekki birta hagsmunaskrá bankaráðsmanna og segir einnig stjórnendatryggingu bankans trúnaðarmál. Hún gæti þó skipt miklu máli fyrir bæði bankann og bankaráðsmenn sem einstaklinga, reynist þeir hafa gert kauptilboð í TM tryggingar í umboðsleysi.

Eftir því sem fleiri lífskúnstnerar gáfu sig fram til forsetakjörs jókst þrýstingur á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að hún gæfi kost á sér.

Það vorar og fjöldi Íslendinga er á faraldsfæti. Það má m.a. marka af því að bílastæðin við Leifsstöð eru nú annað tveggja mannvirkja heims sem sjást úr geimnum. Eða gera það að minnsta kosti 1. apríl.

Fram kom í könnun að 55% landsmanna eru óánægð með fyrirætlanir ríkisbankans Landsbanka um að kaupa TM tryggingar. Aðeins 13% voru ánægð með fyrirtækið.

Skjálftahrina hófst við Kleifarvatn, en hún er ekki talin standa í beinu sambandi við eldsumbrot.

Erlent flutningaskip með 800 tonn af kolmunnalýsi tók niðri í Fáskrúðsfirði og fór eitthvað af lýsi í sjóinn. Skipið laskaðist ekki og hélt svo sína leið.

Óútskýrðar sprengingar heyrðust hér og þar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla telur líklegast að þar séu óknyttapiltar á ferð sem gert hafi sprengjur úr flugeldatundri.

Flaggað var við hún við Háskóla Íslands á föstudaginn langa. Vísindin efla alla dáð og því lét háskólinn sér segjast og dró fánana í hálfa stöng eftir aðfinnslur.