Jesús á að hafa fastað í 40 daga í eyðimörkinni.
Jesús á að hafa fastað í 40 daga í eyðimörkinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á páskum lýkur hinu hefðbundna föstutímabili í kristnum sið. Fastan er einnig nefnd langafasta eða sjöviknafasta, þar sem upphaf tímabilsins er reiknað út frá sunnudeginum sjö vikum fyrir páska

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Á páskum lýkur hinu hefðbundna föstutímabili í kristnum sið. Fastan er einnig nefnd langafasta eða sjöviknafasta, þar sem upphaf tímabilsins er reiknað út frá sunnudeginum sjö vikum fyrir páska. Fyrstu dagarnir eru föstuinngangur og teljast ekki eiginlega með; þá er hreint ekki til siðs að halda aftur af sér í mat eða drykk. Bakarar keppast við að gleðja okkur á bolludaginn og þá er ekki síður matarhátíð á sprengidaginn. Þriðjudagurinn sá er mikil gleðihátíð víða um hinn kristna heim. Því næst hefst hin eiginlega 40 daga fasta á miðvikudeginum, með öskudegi sem sé. Nafnið er dregið af því að litið hafi verið á ösku sem iðrunartákn. Tímabil föstunnar á sögulegar rætur í föstu gyðinga í 40 daga fram að páskahátíð þeirra, þar sem tíðkaðist að slátra lambi, eins og við erum minnt á með trúartákninu páskalambi. Í kristnum sið er tímalengdin jafnframt tengd 40 daga föstu Jesú í eyðimörkinni.

Föstur eru þekktur þáttur í siðum og menningu þjóða og trúarhópa víða um heim. Í gyðingdómi, kristni og íslam hafa föstur meðal annars tengst ákveðnum tímabilum, eins og kunnugt er. Meðal múslíma nefnist hefðbundið föstuhald ramadan þar sem fastað er frá morgni til sólarlags í 29-30 daga. Nú um mánaðamótin hafa íslenskir múslímar fastað samkvæmt ramadan undanfarnar þrjár vikur eða svo.

Nafnorðið fasta þekktist þegar í fornum germönskum málum í þessari merkingu, þ.e. að neyta ekki matar; sbr. í norrænu fasta, og í vesturgermönsku málunum fornsaxnesku fastunnia og fornháþýsku fasta, fasto. Orðið er af sömu rót og lýsingarorðið fastur og atviksorðið fast og má líta svo á að það að fasta felist í því að halda fast við reglu eða ásetning um að halda aftur af sér. Gotneska var austurgermanskt mál, ólíkt hinum fyrrnefndu, og er löngu horfið, en varðveittar eru merkar og heillegar minjar um orðaforða þess og málfræði, meðal annars um nafnorðið fastubni, fasta, og sagnorðið fastan sem þýddi að halda einhverju föstu, halda fast við eitthvað eða halda aftur af sér; einnig að fylgjast gaumgæfilega með. Í Matteusarguðspjalli er frásögn með frægum ummælum Jesú um föstuhald. „Þá koma til Jesú lærisveinar Jóhannesar og segja: „Hví föstum við og farísear en þínir lærisveinar fasta ekki?“ Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir meðan brúðguminn er hjá þeim?“ Og Jesú bætir við: „En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.“ Þessar síðastnefndu setningar meistarans voru í gotnesku biblíunni þýddar á þessa leið: „iþ atgaggand dagos, þan afnimada af im sa bruþfaþs, jah þan fastand“. Hér getum við sem tölum gamla norræna tungu skemmt okkur við að sjá út tengingar: atgaggand dagos / „að-gangandi“ = komandi dagar; afnimada / „af-nema“ = nema brott; sa bruþfaþs / „sá brúðgumi“; fastand / „fasta“.