Hverjum þykir sinn fugl fagur, er sagt, og í þeim fáu orðum felst mikill sannleikur. Vandfundin er til að mynda sú móðir sem ekki lítur á nýfætt barn sitt og hefur ekkert fegurra séð. Eða faðir þessa sama barns sem mundi ekki gera hvað sem er til að verja það og vernda.

Hverjum þykir sinn fugl fagur, er sagt, og í þeim fáu orðum felst mikill sannleikur. Vandfundin er til að mynda sú móðir sem ekki lítur á nýfætt barn sitt og hefur ekkert fegurra séð. Eða faðir þessa sama barns sem mundi ekki gera hvað sem er til að verja það og vernda.

Sömuleiðis lítur fólk á heimili sitt og nærumhverfi og nýtur sín þar og óvíða betur. Þar vill fólk njóta öryggis og friðar þó að dæmin sanni, og þau ófá, að þeim sjálfsögðu réttindum er stundum ýtt til hliðar af yfirgangi og jafnvel mannvonsku.

Fólki er einnig annt um lönd sín stór og smá og fagnar mjög þegar landinu gengur vel en líður verr og oft illa ef landið lendir í hrakförum, stórum eða smáum. Meira að segja sakleysislegir kappleikir geta ýft upp miklar tilfinningar. Íslendingar voru til að mynda heldur niðurlútari eftir tap gegn Úkraínumönnum í vikunni en alla jafna, en geta þó einnig glaðst með þeirri vinaþjóð yfir sigrinum sem hún þurfti á að halda. Hann var þó hverfandi smár miðað við þann sigur sem Úkraínumenn þurfa helst á að halda en alls óvíst er hvort þeir fá að njóta.

Og fólki þykir þjóðsöngur lands síns almennt öðrum betri, að öðrum ólöstuðum að sjálfsögðu. Fá lög og ljóð hrífa eins og fagur þjóðsöngur og sá sem Íslendingum hefur hlotnast er sannarlega einstakur. Hann er þó ekki aðeins ættjarðarljóð, heldur ekki síður og enn frekar sálmur. Fer vel á því nú um stundir eins og jafnan, en ef til vill enn fremur nú.

Sálmurinn sem Matthías Jochumsson orti í Skotlandi og lauk við í Englandi fyrir réttum 150 árum var ekki ætlaður sem þjóðsöngur en var þó saminn í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar og fyrst fluttur í Dómkirkjunni í Reykjavík af því tilefni að viðstöddum Kristjáni IX. konungi sem hingað var kominn að færa íslensku þjóðinni stjórnarskrá. Konungur hafði áður ákveðið að þessara tímamóta skyldi minnst myndarlega með guðsþjónustum í kirkjum landsins og var biskupi Íslands falið að útfæra það nánar, þar með talið umfjöllunarefni prestanna. Biskup valdi 90. sálm Davíðs sem ræðutexta við hátíðarguðsþjónustur í öllum höfuðkirkjum landsins og sá sálmur, eða bæn guðsmannsins Móse, varð einnig grunnur lofsöngs Matthíasar Jochumssonar, eins og glöggt má sjá.

Fyrsta erindið er það sem segja má að þjóðin þekki og syngi, þó að óhætt sé að fullyrða að menn ráði mjög misvel við það enda lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar jafn erfitt og það er fagurt. Hin erindin tvö eru þó einnig mögnuð og í því þriðja eru meðal annarra þessi vísuorð:

Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,

sem að lyftir oss duftinu frá.

Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,

vor leiðtogi í daganna þraut

og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf

og vor hertogi á þjóðlífsins braut.

En þó að sálmi Matthíasar Jochumssonar hafi ekki verið ætlað að verða þjóðsöngur vann hann á meðal þjóðarinnar og varð í raun þjóðsöngur Íslendinga þegar þjóðin fékk fullveldi árið 1918.

Það var þó ekki fyrr en löngu síðar, árið 1983, að Alþingi samþykkti lög um þjóðsönginn og festi stöðu hans þannig formlega í sessi, en enginn hafði svo sem áratugina á undan efast um stöðu hans meðal þjóðarinnar eða þýðingu fyrir hana.

Þjóðsöngurinn var og er eitt af mikilvægum táknum um fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði. Íslendingar þurfa, ekki síður en aðrar þjóðir, að minna sig stöðugt á mikilvægi þeirra sigra sem í þessari stöðu þjóðarinnar felast, því að þeir eru ekki sjálfsagðir, að þeim er oft sótt og þeim er hægt að glutra smám saman niður verði þjóðin værukær og líti á fullveldi sitt og sjálfstæði sem sjálfsagðan hlut.

Eins og áður segir er þjóðsöngur Íslendinga ekki síður sálmur og hann minnir þannig einnig á trúarlega sögu þjóðarinnar og mikilvægi kristni og kirkju fyrir stöðu þjóðarinnar og sem grundvöll þess sem hér hefur verið byggt upp.

Þýðingarmesti boðskapur kristinnar kirkju felst í páskahátíðinni. Matthías Johannessen skáld og ritstjóri orti meðal annars sálma líkt og nafni hans sem að framan er nefndur. Einn þeirra má finna í Sálmabók íslensku kirkjunnar og fjallar um krossfestinguna og undur upprisunnar. Honum lýkur með þessum erindum:

Og þó að páskahretin hurðir lemji

er hitt jafn víst að sólin brýst í gegn.

Í þessum heimi illra verka’ og ótta

er ekkert það sem honum er um megn.

Ég krýp að lokum kvíðalaus við fætur

þér, Kristur minn – og senn er líf mitt allt.

Og lífsins brauðs ég neyti, nú er goldið

með naglasárum brot mitt þúsundfalt.

Svo heiti’ eg loks á hurðir þínar, Jesús,

ó, heyr þú mig er stend ég þar við dyr.

Ég kalla’ á þig og krýp í þínu nafni,

ó, Kristur minn, sem barnið áður fyr.

Morgunblaðið óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra páska.