Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallar um ástandið á Sahel-beltinu sunnan Sahara í pistli á mbl.is. Þar bendir hann á að Frakkar, sem reynt hafa að stilla þar til friðar, séu á förum en í staðinn hafi komið rússneskir málaliðar. Það eru slæm skipti fyrir íbúa svæðisins.
Sigurður Már bendir á að íbúarnir hafi mátt þola átök tengd íslömskum öfgamönnum, jihadistum, „í löndum eins og Búrkína Fasó, Malí og Níger. Það er til viðbótar við hömlulaus upplausnarástand í norðurhluta Nígeríu þar sem stjórnvöld eru í að því er virðist vonlausri baráttu gegn hryðjuverkamönnum Boko Haram og afleggjurum þeirra. Þessi átök ná meðal annars til fjögurra landa umhverfis Tsjadvatn. Í Súdan er borgarastríð, rjúkandi þjóðernisátök í norðurhluta Eþíópíu og í suðri eru hryðjuverkamenn al-Shabab allsráðandi í Sómalíu. Af þessu sést að fjöldi landa hefur dregist inn í þessi átök sem hafa hugmyndafræðilegan bakgrunn en enga þekkta forystu og mjög óljósa framtíðarsýn.“
Átökin á svæðinu hafa valdið skelfilegum hörmungum og hátt í fjörutíu milljónir manna eru „í brýnni þörf fyrir lífsbjörgunaraðstoð og vernd“. Þremur milljónum fleiri en í fyrra. Eins og Sigurður Már segir er þetta svæði í Afríku helsta átakasvæði heimsins í dag. Hörmungar íbúanna eru ólýsanlegar og erfitt að sjá hvernig stilla má til friðar. Það er þó ekki til að bæta ástandið þegar Vesturlönd draga úr afskiptum sínum eða loka jafnvel alveg augunum fyrir vandanum.