Friðrik Bergmann Guðmundsson fæddist í Reykjavík 4. október 1992. Hann lést á heimili sínu, Mánagötu 2, 19. febrúar 2024.
Móðir Friðriks er Sigríður Bergmann Gunnarsdóttir, f. 7.7. 1970, sambýlismaður hennar er Einar Geir Brynjólfsson, f. 15.7. 1976. Faðir Friðriks var Guðmundur Guðmundsson, f. 30.7. 1967.
Bræður Friðriks eru Gunnar Bergmann Guðmundsson, f. 23.8. 1988, Brynjar Bergmann Guðmundsson, f. 23.8. 1988, Vilhjálmur Bergmann Guðmundsson, f. 19.12. 1990, Tristan Bergmann Einarsson, f. 30.1. 2011, og Björn Jaki Bergmann Einarsson, f. 18.12. 2019.
Útför Friðriks fór fram í kyrrþey 8. mars 2024.
Elsku hjartans Friðrik minn, ég elska þig meira en lífið sjálft og hef alltaf gert. Fyrirgefðu mér að ég var ekki til staðar fyrir þig þegar þú þurftir hvað mest á mér að halda. Nú er lífið tómlegt og söknuðurinn óbærilegur að fá aldrei aftur að faðma þig og kyssa og vera í nærveru þinni. Heimurinn missir lit þegar þú ert ekki hér. Skarðið er gríðarlega stórt og verður aldrei brúað. Sársaukinn nístir inn að rótum yfir að nú er allt orðið of seint. Rótin að fíknivanda sem fylgdi þér frá unglingsaldri og tókst ekki að vinna bug á var vegna níðingsverka föður vinar þíns sem hófust þegar þú varst lítill drengur. Aldrei tókst að heila sálarsárin þín og ísköld niðurstaða blasir við; ungur maður er fallinn frá. Ótímabært andlát þitt er afleiðing af kynferðisofbeldi. Það er niðurstaðan.
Þér voru gefnar ríkulegar vöggugjafir sem þú nýttir þér í baráttunni til að lifa af en gast ekki notað til að blómstra í lífinu, til þess var meinið sem búið var að vinna þér of stórt og þungt farg að bera fyrir barn og síðar ungan mann. Fallegur varstu að utan sem innan, hugrakkur eins og ljón. Heiðarlegur með ríka réttlætiskennd sem þú viðraðir þegar tilefni var, sagðir stundum að pabbi þinn hefði kennt þér heiðarleika og hafðir það alltaf að leiðarljósi.
Ferðin sem við fórum til Portúgals þegar þú varst níu ára var ein besta ferð sem við fórum saman, þú naust daganna í sólinni, sundlauginni og í stöðugum leikjum við bræður þína í sundlaugagarði hótelsins þar sem til dæmis vatnsblöðrur komu við sögu við misjafnar undirtektir annarra hótelgesta.
Þú elskaðir alla tíð að fara í sund og fórst oft, stundaðir bæði kalda pottinn og heitu pottana. Þú fylgdist með bardagaíþróttum af áhuga og varst alæta á tónlist, hlustaðir á rokk jafnt og rapptónlist yfir í klassísk verk. Fatastílinn þinn var mjög flottur og keyptir þú oft ýmsar gersemar í rauðakrossbúðinni og víðar. Sköpunarkraftinum sem bjó í þér fannstu farveg á ýmsa vegu; málaðir myndir, skrifaðir texta og samdir ljóð.
Ég mun varðveita góðu stundirnar og fallegar minningar um þig elsku besti Friðrik minn. Þú þekktir marga og komst vel fram við fólk. Fólk sem ég hitti og þekkti þig spurði ávallt hvernig þú hefðir það og talaði vel um þig. Þú varst einstaklega góður við bræður þína og mig, sagðir alltaf við okkur þegar þú kvaddir með faðmlagi „ég elska þig“. Nærvera við þig skildi eftir hlýju í sálinni. Við höfum átt margar góðar stundir í gegnum árin og þakka ég þér fyrir þær ljúfurinn minn.
Amma og afi í Dísaborgum voru nálægt hjarta þínu og það er ekki langt síðan þú talaðir um hvað þú elskaðir þau mikið og hversu góð þau hefðu verið þér í gegnum árin. Ég kveð þig í bili ástin mín með miklum trega, söknuði og eftirsjá og brotnu mömmuhjarta en vil geta leyft þér að fara í guðs friði. Friðrik er nafnið þitt sem þýðir friðaður höfðingi. Ég trúi því að þú sért laus við þjáningarnar sem hrjáðu þig svo djúpt og sért kominn til pabba þíns, og Grettir, hundurinn þinn sem þú elskaðir svo heitt, hafi tekið á móti þér og hlaupið í fangið þitt. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.
I am a flower
I am a bird
I am the pink sky
I am the problem child in disguise
Most of all I am a seed seeking Water
One day I'll become a butterfly and fly fly far away
(Friðrik Bergmann Guðmundsson)
Ég er blómið
Ég er fuglinn
Ég er bleiki himinninn
Ég er flókna barnið í leyni
En fyrst og fremst er ég fræ í leit
að vatni.
Einn daginn verð ég fiðrildi sem
flýgur langt langt í burtu.
(Þýðing ljóðs)
Þín
mamma.
Elsku hjartans Friðrik. Þegar fregnin af andláti þínu barst til okkar hrundi heimurinn til grunna. Við söknum þín og það er svo óbærilega sárt að kveðja þig, elsku fallegi, góði og hæfileikaríki Friðrik. Þú varst með svo gott hjartalag og hafðir svo sterka réttlætiskennd og þoldir illa að sjá óréttlæti. Við elskum þig svo mikið og söknum þín svo sárt. Þú sagðir stundum við ömmu þína og afa í léttum spurnartón: Er ég ekki uppáhaldsbarnabarnið ykkar? Og þau svöruðu, brosandi, jú auðvitað ertu það og þannig var það og verður, þú verður alltaf uppáhaldsbarnabarnið þeirra og besti frændinn okkar. Hvíl í friði elsku hjartans Friðrik okkar og við látum hér fylgja með þessum saknaðarorðum sálm sem langamma þín hún Ólína kenndi mömmu þinni þegar hún var lítil stelpa:
Á hendur fel þú honum
sem himna stýrir borg
það allt, er áttu í vonum
og allt er veldur sorg.
Hann bylgjur getur bundið
og bugað storma her,
hann fótstig getur fundið,
sem fær sé handa þér.
- – –
Mín sál, því örugg sértu,
og set á Guð þitt traust.
Hann man þig, vís þess vertu,
Og verndar efalaust.
Hann mun þig miskunn krýna.
Þú mæðist litla hríð.
Þér innan skamms mun skína
Úr skýjum sólin blíð.
(Gerhardt – Sb. 1886 – B. Halld.)
Elsku Sigga og Einar og elsku bræður, Guð gefi ykkur styrk í sorginni.
Afi Gunnar, amma Kristín og frænkur þínar Arnbjörg (Bogga), Kristín og Sædís.
hinsta kveðja
Elsku Friðrik minn, ég elska þig svo heitt. Ég vona að þú hafir fundið stað sem þú elskar og þar sem þú ert glaður alla daga. Þú munt alltaf eiga stað í okkar hjarta eins og við eigum stað í þínu hjarta. Ég hugsa um hvað það var gaman að tala við þig um tölvuleiki og tónlist og hve fyndinn og gjafmildur þú varst við mig. Það er sárt að hitta þig ekki aftur.
Þinn bróðir,
Tristan.