Soffía Pétursdóttir fæddist 1. september 1928. Hún andaðist 5. mars 2024.

Úför Soffíu fór fram 12. mars 2024.

Við kveðjum nú fyrrverandi tengdamóður mína, Soffíu Pétursdóttur eða ömmu Soffíu eins og hún var alltaf kölluð. Soffíu kynntist ég fyrir tæpum 43 árum og hefur hún fylgt mér og/eða ég henni síðan þá. Það var margt sem ég lærði af Soffíu, ýmislegt tengt heimilishaldi og að sýna náungakærleik. Gleði Soffíu og ást á Sólveigu þegar hún kom í heiminn en fyrsta ár Sólveigar bjuggum við Ásgeir hjá Soffíu og naut dóttir mín þess alla tíð og voru þær alltaf nánar.

Dásamlegar kleinur, fallega prjónaðar lopapeysur og vinnusemi koma upp í hugann þegar ég hugsa um Soffíu ásamt þolinmæði og ást á börnum. Allir vildu eiga ömmu Soffíu og mér er minnisstætt þegar dætur mínar höfðu einu sinni sem oftar verið í heimsókn hjá Soffíu. Theodóra, sú yngri, spurði Sólveigu, þá eldri, hvort hún mætti ekki bara eiga ömmu Soffíu með henni. Sólveig var nú alveg til í það enda næg ást í boði hjá ömmu Soffíu. Alltaf fylgdu með pokar af kleinum heim eftir heimsókn til Soffíu og ekki þurfti alltaf heimsókn til, oft voru kleinur sendar með Sólveigu eða Ásgeiri ef Soffía vissi af ferð til okkar. Öll eigum við fallegar peysur eftir Soffíu og síðustu peysuna á mitt heimili fékk Theodóra og var hún jafnframt ein af síðustu peysunum sem Soffía kláraði.

Yngri dóttir mín tók fyrir mörgum árum viðtal við Soffíu, við lok 10. bekkjar og fólst verkefnið í að fara í gegnum æskuár fólks á fyrri hluta síðustu aldar. Í þessu ferli fannst mér ég kynnast Soffíu á nýjan máta, æskuárin á Mýrum og sú vinna sem fylgdi því að alast upp í sveit. Upp úr stóð gleðin á afmælinu hennar 1. september ár hvert þegar mikið af fólki var á bænum vegna sveitastarfa og boðið var upp á nýbakað ljúfmeti með nýtíndum berjum. Samkvæmt Soffíu var alltaf sól og gott veður þennan dag. Gleðin skein úr augum Soffíu þegar hún sagði frá þessum tíma og talaði um foreldra sína og systkin.

Lífið var Soffíu ekki alltaf auðvelt en aldrei kvartaði hún. Við ræddum oft saman og þar var Soffíu iðulega hugsað til fortíðar og ýmis mál rædd. Oftar en ekki snerist talið um þá sem farnir voru þann söknuð sem fylgdi. Alltaf stóð upp úr hjá Soffíu ást hennar á fólkinu sínu og stolt. Þessi samtöl munu ylja mér um ókomna tíð. Margt er þó ósagt og ekki hægt að fara yfir allt.

Kæru Ásgeir, Stefanía, Dóri, Selma og afkomendur elsku Soffíu, hlýjar kveðjur til ykkar á þessari stundu.

Elsku Soffía, hvíldu í friði og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sólveig Kristjánsdóttir (Systa).