Látlaus er legsteinninn á gröf Hallgríms. Hann verður senn fluttur í kirkju og annar og nýrri settur á gröfina.
Látlaus er legsteinninn á gröf Hallgríms. Hann verður senn fluttur í kirkju og annar og nýrri settur á gröfina. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
Hann var augljóslega mjög góður guðfræðingur og hann hafði gríðarlega mikla biblíuþekkingu sem kemur fram í þessum sálmum.

Þegar Hvalfjarðargöng voru opnuð 1998 hurfu sveitir Hvalfjarðar úr alfaraleið. Það átti jafnframt við um sögustaðinn og prestssetrið Saurbæ sem á sérstakan sess í kirkjusögu lands og þjóðar. Þrátt fyrir hinar drastísku breytingar á vegakerfinu laðar staðurinn enn til sín mikinn fjölda fólks sem þangað kemur til þess að minnast og fræðast um sr. Hallgrím Pétursson (1614-1674) sem færði samlöndum sínum trúarkveðskap sem komið hefur við kviku þjóðarsálarinnar með öðrum hætti en nokkuð annað af sama toga.

Saurbær er nýjasti áfangastaður Morgunblaðsins á hringferðinni sem efnt er til í tilefni 110 ára útgáfuafmælis blaðsins. Og þar hittum við fyrir Margréti Bóasdóttur og sr. Kristján Val Ingólfsson. Þau búa þar og þótt formlegri starfsævi þeirra á vettvangi þjóðkirkjunnar sé lokið, eru ermarnar enn brettar upp. Áður fyrr var það í þágu söng- og tónlistarmála kirkjunnar, í Skálholti þar sem Kristján gegndi biskupsembætti og við guðfræðideildina þar sem hann kenndi um langt árabil. Nú er það Saurbær sem á hug þeirra hjóna allan. Staðurinn, sagan og helgin sem hann geymir.

„Jú, það held ég að sé alveg óhætt að segja. Og þetta er þannig að Hallgrímur og Guðríður koma hingað 1651 og þessi tími og þar til hann deyr 1674 hefur skilið eftir mikla sögu og hérna semur hann alla sína Passíusálma. Það má segja að þessi tími, meðan þau voru hér, hafi verið besti tíminn í lífi þeirra. Þetta var miklu erfiðara hjá þeim þegar þau voru suður með sjó,“ útskýrir sr. Kristján.

Spurður út í það hvað skipað hafi Passíusálmum Hallgríms svo verðugan sess segir Kristján að þar komi margt til. „Hann var augljóslega mjög góður guðfræðingur og hann hafði gríðarlega mikla biblíuþekkingu sem kemur fram í þessum sálmum. Og þetta er ákveðið tímabil í kirkjusögunni og guðfræðinni sem hann endurspeglar en það er bæði það að merkingin er svo djúp og hún er svo trúarlega góð, og hann er gott skáld og hann er söngvinn. Þess vegna er hægt að syngja þetta allt því hann hugsar þetta út frá ákveðnum lagboðum sem voru þekktir á þessum tíma. Og það er þannig að þegar menn semja texta sem á að syngja þá verða þeir sjálfkrafa betri í lestri, það er með eðlilegri hrynjandi.“

Kveðskapur Hallgríms er mjög persónulegur og augljóslega ortur af manni sem bjó yfir djúpri lífsreynslu. Því hefur lengi verið haldið að fólki að meðal þess sem hafi mótað trúarvitund skáldsins hafi verið barátta hans sjálfs við holdsveiki. Kristján Valur telur hins vegar ósennilegt að Hallgrímur hafi glímt við þann illvíga sjúkdóm.

„Það er því ekki hægt að lesa út úr því eins og sumir hafa ákveðið að það mætti sjá að Hallgrímur hafi glímt við holdsveiki því það hafi komið fram í textanum. Það er ekki einu sinni vitað að hann hafi verið með holdsveiki og reyndar mjög ólíklegt. Hallgrímur var mjög vel menntaður maður, hann vissi nákvæmlega um það að holdsveiki er mjög smitandi en það varð engin breyting á heimilishögum Hallgríms með þennan sjúkdóm. Þannig að hann hefur bara væntanlega haldið áfram að sofa hjá sinni Guðríði. Það er enginn sem smitast á bænum og það er vitað að á þessum tíma var verið að rugla saman holdsveiki og t.d. skyrbjúg þar sem blæðir úr munni og ýmislegt sem gerist í andlitinu og svo er það psoriasis sem menn vissu ekki nákvæmlega hvað var. Ég myndi halda að það hafi verið miklu líklegra í ljósi þess að heimilisaðstæður breyttust ekki að hann hafi alls ekki verið holdsveikur. Það skiptir hins vegar engu máli, hann dó snemma.“

Bendir Kristján Valur á að þótt Hallgrímur hafi aðeins orðið sextugur að aldri sé það ekki eitt og sér sönnun fyrir alvarlegum veikindum.

Var einfaldlega búinn á því

„Það var töluverð holdsveiki á sínum tíma og menn vissu ekki hvernig ætti að bregðast við á þessum tíma. En menn segja t.d. að hann deyr svona ungur. Þegar ég var að alast upp voru margir á sextugsaldri bara útslitnir menn og dóu þess vegna þegar þeir voru búnir. Og það er alveg ljóst að þegar bærinn brann hér þurfti að byggja bæði upp kirkjuna hérna og bæinn. En hann var líka sjómaður og bóndi og púlsmaður þannig að það var mjög margt sem hjálpaði til við að hann sagði sig frá embætti. Hann var, eins og það heitir á nútímamáli, bara búinn á því.“

Í ár verður þess minnst að 350 ár eru liðin frá andláti skáldsins. Og af því tilefni hefur félagsskapur orðið til sem hefur það að markmiði að styðja við Saurbæ og það sem tengt er nafni staðarins.

„Hollavinafélag Hallgrímskirkju í Saurbæ var stofnað á síðasta Hallgrímsdegi, sem er dánardagur hans, 27. október. Fæðingardagur hans er ekki þekktur en dánardagurinn er það. Og síðan erum við að safna hollvinum fram að fyrsta formlega aðalfundi sem verður núna í byrjun apríl og við erum komin með nærri hundrað manns. Og þar höfum við fundið svo gleðilegan áhuga fólks úr nærsamfélaginu og lengra að sem vill endilega vera með og vill leggja lið. Þessi kirkja er reist til minningar um Hallgrím og hún er óskaplega fögur en hér ná gjaldendur sóknarinnar ekki 100 manns og því er ekki auðvelt að viðhalda þessari kirkju án aðstoðar,“ útskýrir Margrét. Og hún bendir á að það sé fleira en bara kirkjan sem minnir á Hallgrím og sögu hans. Það geri einnig hin svokallaða Hallgrímslind og Hallgrímssteinn. Þá er það einnig legsteinninn á gröf skáldsins. Það er svokallaður Húsafellssteinn sem komið var á gröfina eftir 1800. Hann hefur veðrast mjög og nú er stefnan sett á að flytja hann í kirkju og koma fyrir nýjum steini. Karl Sigurbjörnsson biskup, sem nýverið féll frá, hannaði nýja steininn og Þór Sigmundsson steinsmiður vinnur nú að því að koma honum í endanlegt horf. Á honum verður ekki aðeins að finna nafn Hallgríms heldur einnig Guðríðar Símonardóttur, Tyrkja-Guddu, konu hans. Það verður gert, jafnvel þótt ekki sé vitað um hinsta hvílustað þeirrar mikilsigldu konu.

„Ég segi stundum að á þessum árum ætluðu allir að fara til himna sem er ekki alveg eins og núna og þá var aukaatriði hvar líkaminn lá því sálin var í góðu lagi, eins og Hallgrímur orti sjálfur um. Ég hef líka sagt við folk sem segir að það sé ekki hægt að setja stein yfir þau bæði ef hún er ekki þarna: Við vitum það ekki. það gæti þess vegna alveg eins verið að hún liggi við hlið hans en það eru bara engar heimildir fyrir því. Og jafnvel þótt við myndum grafa þetta upp myndum við ekki vita með vissu hvort þetta væru beinin hennar,“ segir Kristján Valur.

Mörg járn í eldinum

Margrét bendir á að það sé margt fleira að fást við á staðnum sem hugur hollvinafélagsins stefnir að.

„Við erum að bíða eftir svari um styrk til að hlaða upp Hallgrímslindina sem er hér ofar í brekkunni. Svo þarf að gera hér betri aðgang. Hér er stígur og lítil bogabrú sem liggur frá kirkjunni og að Hallgrímssteini. Svo þarf að gera kirkjunni til góða. Það þarf að gera við altaristöfluna sem er freska og stórkostlega falleg. Það er búið að fjármagna það. Svo í fyrra voru allir listgluggar Gerðar Helgadóttur, sem eru stórkostlegir listgripir, teknir niður, hreinsaðir og sendir til Þýskalands og þá var búið að gera nýja uppsetningu þannig að rammarnir fúni ekki og listglerið detti úr. Þetta var allt fjármagnað af einkaaðila. En svo langar okkur að bæta lýsinguna í kirkjunni og í góðu samtali við sóknarnefndina og sóknarprestinn er mikill hugur í hollvinafélaginu að láta gott af sér leiða hér,“ bætir hún við.

Í viðtalinu við þau hjónin er komið víða við og m.a. rætt um stöðu kirkjunnar í samfélaginu í dag. Viðtalið má nálgast á mbl.is en einnig á öllum helstu streymisveitum, m.a. Spotify. Er það að finna undir heitinu Hringferðin og þar er hægt að hlýða á önnur viðtöl sem tekin hafa verið vítt og breitt um landið undanfarna mánuði.

Þeir sem vilja leggja Hollavinafélagi Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd lið er bent á reikning þess, 0552-14-1005, kt. 490124-0120.

Höf.: Stefán E. Stefánsson& Andrés Magnússon