Í safninu Clas Svahn fylgist með gesti glugga í gögn í AFU-safninu.
Í safninu Clas Svahn fylgist með gesti glugga í gögn í AFU-safninu. — AFP/Jonathan Nackstrand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blaðaúrklippur, bækur og frásagnir fólks sem segist hafa heimsótt aðra hnetti, svo sem Júpíter og tunglið, eru varðveittar í gríðarstóru sænsku skjalasafni um dularfull fyrirbæri og þangað koma forvitnir og fræðimenn víðs vegar að úr heiminum til að kynna sér gögnin

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Blaðaúrklippur, bækur og frásagnir fólks sem segist hafa heimsótt aðra hnetti, svo sem Júpíter og tunglið, eru varðveittar í gríðarstóru sænsku skjalasafni um dularfull fyrirbæri og þangað koma forvitnir og fræðimenn víðs vegar að úr heiminum til að kynna sér gögnin.

Umsjónarmenn Skjalasafns hins óútskýrða, AFU, í sænska bænum Norrköping, segja það vera stærsta bókasafn í heimi um yfirskilvitlega atburði en þar er að finna 4,2 hillukílómetra af gögnum sem geymd eru í stórum kjallara

Þeir Clas Svahn, 65 ára, og Anders Liljegren, 73 ára, sem stýra safninu, segjast þó í samtali við blaðamann AFP-fréttastofunnar hvorki vera hjátrúarfullir né trúi þeir á slíka atburði heldur séu þeir frekar „forvitnir rannsakendur hins óþekkta“.

AFU er nafn á bæði skjalasafninu og samtökunum sem hafa safnað þessum gögnum í yfir hálfa öld. Í safninu er einkum að finna bækur og tímarit en einnig frumgögn, svo sem frásagnir fólks sem telur sig hafa orðið fyrir yfirskilvitlegri reynslu og myndir af draugum.

„Við erum að byggja upp upplýsingabanka. Við reynum að komast yfir allar upplýsingar um óleystar vísindalegar gátur af öllu tagi og koma þeim á framfæri,“ segir Svahn.

Saga fljúgandi furðuhluta

Um 300 gestir koma í safnið á hverju ári og þeir þurfa að bóka tíma. Verið er að flytja gögnin í safninu á rafrænt form og nú þegar er hægt að skoða skjöl á netinu. Aðeins þarf aðgangskóða og safnverðirnir segjast deila honum með glöðu geði.

Greg Eghigian, sagnfræðiprófessor við ríkisháskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, heimsótti safnið til að rannsaka gögn í tengslum við bók sem hann er að skrifa um fljúgandi furðuhluti. Hann segir við AFP að hann hafi skoðað fjölmörg skjalasöfn í Evrópu, Bandaríkjunum og Bretlandi en AFU-safnið sé það merkilegasta.

„AFU er án efa umfangsmesta gagnasafn sem tengist sögu fljúgandi furðuhluta um allan heim,“ segir hann. „Það er ekki hægt að rannsaka þetta viðgangsefni í þaula án þess að skoða gögnin þar.“

Rannsóknir á fljúgandi furðuhlutum hafa lengi verið litnar hornauga en eru nú smátt og smátt að fá meiri viðurkenningu í heimi vísindarannsókna. Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, tók í september á síðasta ári formlega þátt í leitinni að þeim og sagði að slíkar rannsóknir krefðust ýtarlegrar nálgunar sem byggðist á gögnum.

Neðanjarðarútgáfa

Í safni AFU flettir Svahn gulnuðum blöðum í bók með rauðri kápu. Bókin er upprunnin í neðanjarðarhópi í fyrrum Sovétríkjunum og var vélrituð með leynd og fjölrituð í sjö eða átta eintökum.

„Þessi bók er einn af sjaldgæfum munum sem við erum með,“ segir Svahn og skoðar handskrifaðar athugasemdir á spássíunum og teikningar af eldflaugum.

„Þeir vissu ekki hvað þeir sáu – en við getum borið þetta saman við önnur skjöl og fullyrt að þetta voru eldflaugaskot frá Plesetsk-flugskeytastöðinni, sem leynd hvíldi yfir á þessum tíma.“

Victor Hugo og Víetnam

Í safni AFU eru nokkur óvænt gögn, þar á meðal lítið þekkt saga um franska rithöfundinn Victor Hugo sem nú er til sýnis í listasafni Norrköping.

Hugo skrifaði frásögnina þegar hann var í pólitískri útlegð á Ermarsundseyjunni Jersey á árunum 1852-1855. Þar segir hann frá því að hann hafi náð sambandi við látna dóttur sína. Þessi skrif voru kveikjan að nýjum trúarbrögðum, kaódaisma, sem nokkrar milljónir manna í Víetnam aðhyllast, að sögn Magnus Bartas safnvarðar listasafnsins. Veggmynd af Victor Hugo prýðir nú vegg musteris fyrir norðan Ho Chi Minh-borg.

Með opnum huga

AFU safnar einnig þjóðsögum sem tengjast yfirskilvitlegum atburðum, að sögn Svahns. Hann segir að trú fólks á slíkt þróist með tímanum og ekki sé lengur litið niður á allt sem þótti vera hjátrú í fortíðinni.

Magnus Bartas segir að frásagnir fólks, sem ekki var trúað þegar það sagðist hafa orðið fyrir einhverri dularfullri reynslu, eigi réttmætan sess í safninu.

„Safnið sýnir að eitthvað sé óútskýrt. Það þýðir að við eigum ekki að hafna því. Við eigum að rannsaka það með opnum huga.“

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson