Tími eggjanna er runninn upp.
Tími eggjanna er runninn upp.
Nú líður að því að landsmenn fái sér súkkulaðipáskaegg og lesi málshættina, þótt eflaust séu fjölmargir búnir að taka forskot á sæluna. Fyrirtækið Prósent gerði könnun meðal Íslendinga og spurði hvaða framleiðandi páskaeggja væri í mestu uppáhaldi

Nú líður að því að landsmenn fái sér súkkulaðipáskaegg og lesi málshættina, þótt eflaust séu fjölmargir búnir að taka forskot á sæluna.

Fyrirtækið Prósent gerði könnun meðal Íslendinga og spurði hvaða framleiðandi páskaeggja væri í mestu uppáhaldi. Í ljós kom að þar trónir Nói Síríus á toppnum en 43% svarenda nefndu eggin frá Nóa. Næst á eft­ir var Freyja með 20%, Góa með 11%, Sam­bó með 8% en 6% völdu aðra fram­leiðend­ur en þá sem taldir eru upp hér að framan.

Um 12% svarenda sögðust ekki borða páskaegg. Þar mældust karlar marktækt fleiri en konur, eða 17% karla á móti 7% kvenna.

Svör kynja um uppáhaldspáskaegg voru í flestum tilvikum svipuð, nema hvað áberandi fleiri konur nefndu egg frá Freyju en karlar. Hlutfallið hjá konum var 24% en 15% karla nefndu Freyjueggin.

Prósent var með netkönnun meðal síns könnunarhóps. Gögnum var safnað dagana 20. til 27. mars síðastliðinn. Úrtakið var 1.800 manns, 18 ára og eldri, og var svarhlutfallið 51%.