Páskar eru heilög hátíð kristinna manna þar sem þjáningum og upprisu Krists er minnst. Myndin var tekin í skrúðgöngu í páskaviku á Spáni.
Páskar eru heilög hátíð kristinna manna þar sem þjáningum og upprisu Krists er minnst. Myndin var tekin í skrúðgöngu í páskaviku á Spáni. — Reuters/Eloy Alonso
Kærleiksrík trú, án öfga, er einfaldlega gott veganesti í lífinu og eitt besta meðal gegn veruleikafirringu og óhamingju sem fyrirfinnst.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Hver og einn á að eiga rétt á því að lifa lífinu eins og hann kýs, meðan hann er ekki að meiða og skaða aðra og traðka á réttindum þeirra. Því miður eru of mörg dæmi um manneskjur sem hafa komið sér vel fyrir í lífinu og geta veitt sér allt sem hugurinn girnist, en lifa um leið í algjöru skeytingarleysi um hag annarra. Þeim gæti ekki staðið meira á sama og valsa í gegnum lífið með sjálfhverfuna að leiðarljósi. Það er engin kærleiksglóð í hjarta þeirra. Svo eru fjölmargir sem hafa kosið að lifa í reiði og biturð vegna þess að þeim finnst lífið hafa svikið þá. Hefnd þeirra felst í því að veita heift sinni útrás og eitra umhverfi sitt. Nútíminn býður upp á furðu margar auðveldar leiðir til þess og þar þykja samfélagsmiðlar einkar hentug tæki. Svo eru enn aðrir sem hafa gefist upp á lífinu og finna litla gleði í tilverunni.

Sjálfsagt myndi það framkalla allnokkra reiði hjá þessum hópum ef þeim væri sagt að þeir væru betur staddir í tilverunni hefðu þeir trúarvissu í hjarta sínu ásamt auðmýkt gagnvart æðri mætti. Kærleiksrík trú, án öfga, er einfaldlega gott veganesti í lífinu og eitt besta meðal gegn veruleikafirringu og óhamingju sem fyrirfinnst.

Í hinum tæknivædda og kalda veruleika nútímamannsins þykir ekkert óskaplega fínt að boða kristileg gildi. Sumir verða beinlínis vandræðalegir þegar á þau er minnst, telja þau tímaskekkju og nánast netta móðgun við þá sem telja sig ekki kristna. Það þykir svosem í lagi að fræða börn eitthvað aðeins um Jesú Krist, sem var sannur barnavinur, en óþarft þykir að ýta undir kirkjuferðir þeirra því þar er hætta á innrætingu. Spyrja má af hverju það þyki svo óæskilegt að börn kynnist kærleiksboðskap Krists. Þar eru boðuð þau gildi sem mestu skipta í lífinu. Dæmin eru ótal mörg.

Það felst mikil viska í orðum Krists um að elska náungann eins og sjálfan sig. Mikið má svo leggja út af orðum hans um fátæku ekkjuna sem gaf af skorti sínum og sýndi þar með meiri gjafmildi en þeir sem gáfu smotterí af auði sínum. Hið sama má segja um orðin um að meiri fögnuður verði á himnum yfir einum syndara sem gjörir iðrun en níutíu og níu réttlátum. Allt eru þetta sönn skilaboð sem forvitinn barnshugur á að taka fagnandi á móti.

Það er svo ótal margt í orðum Krists sem við ættum að tileinka okkur og íhuga. Orð hans: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum eru æpandi áminning til okkar sem lifum í harðneskjulegum og refsiglöðum heimi þar sem steinum er kastað eins og ekkert sé og lítið pláss er fyrir fyrirgefningu og skilning.

Fólk sem er svo jarðbundið að það trúir einungis því sem það sér með eigin augum á í erfiðleikum með að trúa á mátt bænarinnar. Af hverju í ósköpunum, hugsar það með sjálfu sér, ætti það að skila einhverju að biðja út í tómið? Þar er enginn sem tekur á móti bæninni. Að halda annað er bara óskhyggja, hindurvitni og barnaskapur. Þeir sem vita af mætti bænarinnar láta þessi viðhorf ekki trufla sig heldur halda áfram að eiga sínar samræður við almættið og líður mun betur fyrir vikið. Það er óendanlega mikil hughreysting í orðunum fallegu: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Þrátt fyrir að kristin gildi séu ekki mikið í umræðunni og njóti ekki mikilla vinsælda í skólastofum landsins hafa þau smeygt sér svo lipurlega inn í samfélagið að þau eru orðin hluti af því. Við vitum að við eigum að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við vitum að langbest er að hafa þroska til að fyrirgefa óvinum sínum. Við vitum í hjarta okkar að skylda okkar er að rétta öðrum hjálparhönd. Allt eru þetta kristin gildi, þótt margir vilji kalla þau eitthvað annað.

Nú eru páskar og við erum minnt á Krist, dauða hans og upprisu. Við heyrum tónlist sem minnir á hann og í kirkjum landsins rifja prestar upp píslarsögu hans. Kristur er ekki á útleið. Hann er meðal okkar.

Gleðilega páska!