Leiðangur Greinargóðar upplýsingar og þægilegt brot einkenna kortið sem Arnar Haukur Rúnarsson hjá Ferðafélagi Íslands sést hér halda á.
Leiðangur Greinargóðar upplýsingar og þægilegt brot einkenna kortið sem Arnar Haukur Rúnarsson hjá Ferðafélagi Íslands sést hér halda á. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þórsmörk í jöklanna skjóli er um margt einstakur staður,“ segir Arnar Haukur Rúnarsson hjá Ferðafélagi Íslands. „Náttúrufegurð þarna er mikil og veðursældin sömuleiðis. Stundum er rigning um allt Suðurlandið en heiður himinn,…

„Þórsmörk í jöklanna skjóli er um margt einstakur staður,“ segir Arnar Haukur Rúnarsson hjá Ferðafélagi Íslands. „Náttúrufegurð þarna er mikil og veðursældin sömuleiðis. Stundum er rigning um allt Suðurlandið en heiður himinn, þurrt og besta veður í Þórsmörk.“

Út er komið í samvinnu Ferðafélags Íslands og Útivistar nýtt gönguleiðakort af Þórsmörk og Goðalandi. Þetta er uppfærsla á fyrri kortum af svæðinu, en þau síðustu komu út árið 2012. Síðan þá hefur margt breyst í Mörkinni og á nærliggjandi slóðum. Meðal annars hafa verið lagðir nýir göngustígar og hinir eldri verið bættir. Einnig þurfti í nýrri útgáfu að setja inn merkingar um hjólreiðar á svæðinu, ferðamáta sem æ fleiri tileinka sér. Kvarði kortanna, sem Loftmyndir ehf. unnu og Björg Vilhjálmsdóttir hannaði, er 1:25.000. Auk aðalkorts af svæðinu er í útgáfu þessari að finna uppdrátt af gönguleiðunum um Laugaveg og Fimmvörðuháls. Þetta eru slóðir sem Arnar þekkir vel, en hann stóð í fjögur sumur vaktina fyrir Ferðafélag Íslands í Skagfjörðsskála í Þórsmörk. Þá var hann sömuleiðis lengi fararstjóri í skipulögðum ferðum Arctic Adventures um Laugaveginn, leiðina milli Landmannalauga og suður í Mörk.

„Gönguleiðir í Þórsmörk eru margar og áhugaverðar,“ segir Arnar. Nefnir þar leiðina frá Skagfjörðsskála á Valahnúk svo og hinn svonefnda Slyppugilshring sem margir fara. Úr Básum á Goðalandi nýtur svo alltaf vinsælda að fara í göngu á Réttarfell, sem víðsýnt er af. sbs@mbl.is