Attila Tomcsányi fæddist 4. september 1927 í Újpest í Ungverjalandi. Hann lést eftir stutta sjúkrahúslegu 17. febrúar 2024. Hann var elstur þriggja barna þeirra Attila Tomcsányi eldri (1903-1946) verkfræðings og Olgu Salczer (1899-1947) tónlistarkennara.

Attila lauk námi sem taugasérfræðingur frá Læknaháskólanum í Búdapest. Þar kynntist hann konuefni sínu, Zsuzsanna Major skurðlækni (1923-1990), og giftu þau sig 1950. Þau eignuðust tvíburasysturnar Judit og Zsuzsanna 1951.

Útför hans fór fram í Búdapest 11. mars 2024.

Attila var mikill námshestur frá æsku og aðstoðaði samnemendur jafnvel á grunnskólaárunum. Hann lauk framhaldsskólanámi í stríðslok 1945. Vegna aldurs var hann ekki kallaður til herþjónustu í stríðinu. Þegar Rússar sendu herlið inn í Ungverjaland árið 1945 tóku þeir unga menn og komu þeim að sögn í tímabundna vinnu sem reyndar endaði í Rússlandi í fangabúðum. Attila var tekinn en tókst að flýja á járnbrautarstöðinni með því að skríða undir vagn og leynast þar.

Attila lauk námi sem taugasérfræðingur frá Læknaháskólanum í Búdapest. Þar kynntist hann konuefni sínu, Zsuzsanna Major skurðlækni, f. 1923, d. 1990, og giftu þau sig 1950. Þau eignuðust tvíburasysturnar Judit og Zsuzsanna 1951.

Hjónin hófu störf á Ríkisspítalanum og búskap í íbúð þar. Þar bjuggu þau í nokkur ár en keyptu litla íbúð í blokk ekki svo fjarri. Systurnar áttu því heima á spítala fyrstu árin. Annir voru miklar á spítalanum og því var tími með systrunum minni fyrstu árin. Attila fór á eftirlaun 1988 af heilsufarsástæðum.

Árið 1953 hóf Stalín herferð gegn læknum af gyðingaættum og sú Moskvulína barst til herteknu nágrannaþjóðanna. Stalín féll frá áður en herferðin kom til framkvæmda í Ungverjalandi.

Attila var áhugasamur um vísindi og heimspeki. Fylgdist hann með þróun í náttúruvísindum og talaði og las nokkur tungumál. Vegna áhuga og þekkingar á guðfræði tók hann m.a. að sér að leiða leshring í biblíufræðum í söfnuði sínum.

Ekki man ég eftir að Attila missti úr messu. Hann var einlægur trúmaður og aðstoðaði lúterska söfnuðinn mikið alla tíð. Hann var alinn upp í baptistafjölskyldu. Fjölskyldugoðsögnin segir að kaþólsk amma hans hafi haft áhyggjur af þeim sið baptista að skíra börn aðeins á fermingar- eða fullorðinsaldri. Hún fór með Attila litla í laumi í kirkjuna sína og lét skíra hann. Hann vissi ekki af kaþólsku skírninni fyrr en á fullorðinsaldri. Hann snerist til lúterskrar trúar þegar hann giftist.

Attila hafði lítinn áhuga á ferðalögum, var heimakær og sat við lestur og sjónvarp eftir að starfi lauk. Hann las allt milli himins og jarðar og hafði mesta ánægju af gömlum ungverskum kvikmyndum í sjónvarpinu ásamt fræðslumyndum.

Eftir að hann missti eiginkonuna varð dóttir hans Zsuzsa hans helsta hjálparhella því systir hennar býr í Kosta Ríka. Hann kunni ekki mikið til heimilisverka og Zsuzsa bjó með honum uns við fórum að búa saman. Hún leit reglulega til hans og flutti til hans þegar ég var á Íslandi.

Tengdafaðir minn var ekki vel hraustur, heyrnin var orðin slæm undir það síðasta og þrek ekki mikið. Hann var þó alla tíð skýr í höfðinu þar til hann datt og fékk höfuðhögg rétt fyrir andlátið.

Hvíl í friði, tengdapabbi, og ég þakka samveruna.

Jón Gunnar Gunnarsson.